06.05.1950
Neðri deild: 96. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2926)

65. mál, jeppabifreiðar

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég get verið stuttorður, en mér fannst hv. þm. A-Húnv. (JPálm) taka það aftur, er hann var búinn að segja. Fannst mér hann viðurkenna, að fremur væri þörf á reglum nú en áður. Hann sagði og, að engin rök væru fyrir því, að frv. væri nauðsynlegt. En af hverju er verið að skapa lög og reglur nema fyrir það, að einhverjir í þjóðfélaginu telji sig eigi hafa þann rétt, sem þeir eiga? Og einmitt vegna þess er hér verið að skapa reglur eða lög, að ýmsir þegnar þjóðfélagsins telja sig eigi hafa verið svo réttháa við síðustu úthlutun, að þeir geti unað við það, og þannig er það með jeppana. Ég veit ekki, hvert hlutverk Alþ. er, ef það er ekki að skapa réttlæti mönnum til handa. Ef þetta eru eigi rök, þá veit ég ekki, hvað eru rök.