15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (2939)

65. mál, jeppabifreiðar

Gísli Jónsson:

Ég hef rekið augun í, að talað er um dráttarvélar. Ég vil því spyrja hv. frsm. að því, hvort aðeins er átt við dráttarvélar, sem tilheyra landbúnaði. Það er til mikið af vélum í landinu, sem notaðar eru í kaupstöðum til að draga vöruvagna við uppskipun og útskipun. En mér skilst, að ef þetta væri samþ., þá væri slíkum fyrirtækjum fyrirmunað að geta fengið dráttarvélar. — Þá leggur landbn. til, að það skuli aðeins greiða 1/5 gjalds af þessum vélum í staðinn fyrir að greiða gjald af þessum vélum eins og öðrum vélum. Það er eins og landbn. hafi tekið það á heilann, að það megi aldrei neinn aðili við landbúnað greiða neitt eins og aðrir menn. Ég er undrandi yfir því, að þetta skuli ganga svo langt, að jafnvel í þessum smámunum sé verið að stimpla bændur sem vesalinga, sem ekki megi einu sinni greiða skoðunargjöld nema 1/5 á móts við aðra menn. Ég held, að þessir bændafulltrúar séu ekki að gera sínum umbjóðendum neinn greiða með svona smásálarskap. Hitt er töluvert atriði, hvort það á að skilja það svo, að ekki sé heimilt að úthluta neinum dráttarvélum til annarra en bænda, sem landbúnað stunda, þegar vitað er, að undir því er komið, hvort hægt er að halda nægilega mörgum dráttarvélum við útskipun og uppskipun og halda niðri kostnaði við þá starfsemi. Á að banna þessum aðilum að fá dráttarvélar til þess að geta flutt vörur og skipað þeim upp fyrir minna verð en það annars kostar?