15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2944)

65. mál, jeppabifreiðar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. frekar um þetta mál og sé ekki heldur ástæðu til að svara narti hv. þm. Barð. Um þá brtt., sem fram hefur komið, vil ég segja það, að ég taldi ekki ástæðu til nánari skýringa á 15. gr., enda er hún tekin orðrétt eins og hún kom frá Nd. og auðvelt að skilja, hvað við er átt. Hins vegar hef ég ekkert á móti því, að tekinn sé af allur vafi, ef talið er, að hún kunni að verða misskilin. — Um skrásetningarskylduna má segja, að hún geti verið reglugerðaratriði, en þó held ég nú, að engu sé spillt með því, að hún sé lögfest, og sömuleiðis sé ég ekki, að sú skylda geti ekki náð til allra dráttarvéla. Það getur vel verið um fleiri dráttarvélar að ræða en landbúnaðarvélar, og má í því sambandi minna á ýmsar vélar, sem hér er verið með á götunum.

Að lokum vil ég segja það til þm. Barð., að ég hef ekki bitið neinn. Hins vegar getur vel verið, að hann hafi glefsað, en ég er ekki hælsár. Ég vænti svo, að þessar umr. séu úr sögunni og að nú megi greiða atkv. um málið.