09.01.1950
Neðri deild: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (2958)

75. mál, byggingarlán og húsaleigulækkun

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég flutti í vetur, ásamt hv. þm. Siglf., frv. til l. um húsnæði, þar sem m. a. er gert ráð fyrir lögskipaðri lækkun á húsnæði, og var það frv. flutt að ósk Leigjendafélags Reykjavíkur. Í grg. þess frv. vöktum við eftirtekt á því, að það mundi verða örðugt í framkvæmd að fyrirskipa lækkun á húsnæði, nema samtímis yrðu gerðar ráðstafanir um að bæta þau lánskjör, sem nú eru á íbúðarhúsum, þannig að ýmsir, sem byggt hafa hús og erfitt eiga með að borga þau lán, sem á þeim hvíla, fengju lengri lánsfrest, en þeir nú hafa og lægri vexti. Nú hef ég ásamt tveim öðrum þm. flutt frv. það, sem hér liggur fyrir, og er það í raun og veru uppfylling á loforði frá grg. fyrra frv. um, að flutt yrði frv., sem ætti helzt að verða því samferða. Það gefur að skilja, að svo framarlega sem ætti að beita því sem einni af mörgum aðferðum til að lækka húsaleigu að fyrirskipa lækkun á húsaleigu, þá yrði það ekki kleift fyrir fjölda af fólki, nema því aðeins að því yrði um leið veitt tækifæri til betri lánskjara. Við skulum taka sem dæmi efnalitla menn, sem hafa ráðizt í að byggja tvær íbúðir og leigja aðra þeirra út, en eiga að borga íbúðirnar upp á 10–15 árum eða jafnvel skemmri tíma og með eins háum vöxtum og menn nú verða að greiða, 6½% eða jafnvel hærri, þá mundi slíkum mönnum gert ókleift að standa í skilum, ef slíkri löggjöf um lækkun húsaleigu væri framfylgt. Þetta frv. fer þess vegna fram á það, að lánstíma og lánskjörum þeirra lána, sem tryggð eru með veði, sé breytt þannig, að lánstíminn verði minnst 40 ár, miðað við upphafstíma lánsins, og vextir lækkaðir niður í 3%. Ég skal geta þess strax, að þetta kemur misjafnlega niður, því að ýmis lán eru alls ekki tryggð með veði, heldur eru víxlar lánaðir út á mörg hús, sem eru þá kannske ekki tryggðir með veði. Það er hins vegar ákaflega erfitt af löggjafans hálfu að ætla að reyna að hjálpa þeim á þennan hátt, sem hafa fengið lán út á hús sín, ef lánin eru ekki tryggð með veði á viðkomandi húsi, heldur er um almenn víxillán að ræða. Þess vegna hef ég álitið, að maður yrði að binda þetta við lögveð. Það er vitanlegt, að meginið af þeim húsum, sem byggð hafa verið síðustu árin, eru hús, sem að öllum líkindum verður búið í alla þessa öld og fram á næstu öld. Það er ofvaxið a. m. k. venjulegum meðalefnuðum einstaklingi að eignast þessi hús á 10–15 árum og ekki óeðlilegt, þó að menn hafi 40–50 ára tímabil til að borga svona hús niður. Það er óhæfilega þung byrði lögð á þá kynslóð, sem nú byggir landið, ef hún á að borga öll hús, sem hún hefur byggt, niður á 10–15 árum. En lánskjörin eru slík, að það er verið að píska menn til að eignast þau á skemmri tíma, en eðlilegt er. Afleiðingin verður svo sú, að ef kreppir að með vinnu, aukavinna minnkar, laun lækka og afkoma fólksins versnar, þá verður það fjöldi manna, sem lagt hefur í þessi húsakaup, sem missir húsin. Það er langt frá því, að það sé í „interessu“ þjóðfélagsins, að þorri manna, sem hafa verið að reyna að koma upp þaki yfir höfuð sér, tapi húsunum og auðugustu menn þjóðfélagsins kaupi þau svo og leigi út með tiltölulega háu verði, en slík varð reynslan milli síðustu styrjalda. Menn höfðu byggt allmikið meðan á stríðinu stóð og eftir stríðið. Síðan kom kreppa, og menn gátu ekki risið undir því að borga af húsunum og misstu þau. Þau voru svo keypt af stóreignamönnum, og um langan tíma var það eitt með beztu gróðafyrirtækjum hér í Reykjavík að leigja út hús. Húsaleiga var há, tók 1/3 af launum almennra verkamanna, í stað þess, að það er normalt, að hún sé ekki meira en 1/6 af launum þeirra. Með þeirri breytingu, sem hér er gert ráð fyrir í 1. gr. frv., að lækka vextina í 3%, mundi aðstaðan gerbreytast. Það gerði mönnum mögulegt að halda sínum húsum, þó að fyrirskipuð yrði lækkun á húsaleigu.

Í 2. gr. er greint frá því, að húseigendur, sem verða aðnjótandi þessara fríðinda, sem um ræðir í 1. gr., skuli tilkynna það hlutaðeigandi sýslumanni eða bæjarfógeta, í Reykjavík borgarfógeta, „er færir hinn breytta lánstíma og lánskjör inn í veðmálabækur embættisins.“ Húsaleigun. er svo tilkynnt um breytingu lánsins, og gerir hún nýtt mat á leigu húsnæðisins, þannig að húsaleiga lækkar með tilliti til þess, hversu vextir hafa lækkað og lánstími lengzt, svo að sé leigjandi í húsinu, þá kemur þetta honum til góða. Þar með yrði svo raunhæfur fjárhagslegur grundvöllur skapaður til að framkvæma þau ákvæði, sem felast í frv. á þskj. 40, sem er flutt að tilhlutan stj. Leigjendafélags Reykjavíkur.

Þetta mál er vafalaust þess virði, að það sé athugað, og ég skal ekki fullyrða nema hægt sé að finna betri aðferðir til að ná þeim árangri, sem til er ætlazt. Ég vil enn fremur taka það fram, að þetta frv. er aðeins ein af mörgum aðferðum, sem þarf að athuga og nota til þess að lækka húsaleigu. Hér var einmitt áðan til umr. frv. til að gera enn þá raunhæfari þá leið, sem verkamannabústaðir og l. um þá fara eftir. Það hefur oft verið rætt hér um samvinnubyggingar og l. um þær. Þetta frv. á aðeins við hluta af þriðju leiðinni, þar sem um er að ræða einstaklinga, sem hafa ráðizt í að byggja, og á ekki að skoðast sem mótsetning við þær aðferðir, sem áður er getið um og ekki síður, heldur fremur eiga rétt á sér. Hins vegar kemur þetta af sömu orsök, sem allir eru sammála um, skorti á húsnæði. Hins vegar er það vitanlegt, að það, sem fyrst og fremst skapar háa húsaleigu, er stuttur lánstími og háir vextir. Ég hef í grg. frv. ofur lítið reynt að reikna út og athuga, hvaða mun slíkt geri. Það dæmi er tekið af handahófi, og mætti vafalaust koma með aðra reikninga í því sambandi.

Nú fór það frv., sem við fluttum hér áður um þetta efni, til allshn., því að þangað hafa frv. um húsnæðismál farið fram að þessu. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, mun frekar eiga heima í fjhn. Ég álít þó að betra væri til samræmis, — vegna þess, að að nokkru leyti er þetta frv. hugsað sem trygging fyrir því, að hægt sé að framkvæma þær ráðstafanir, sem frv. á þskj. 40 miðar að, — að þau færu í sömu n. Í versta falli yrðu þá fjhn. og allshn. að hafa samvinnu um afgreiðslu málanna, ef húsnæðismálum er skipt á milli þeirra. Ég geri það því að till. minni, að frv. fari til allshn., og vona ég, að það sæti þar skilningi og velvilja, eins og önnur frv. um þessi mál þurfa, á að halda, bæði hjá hv. n. og hæstv. ríkisstj.