17.04.1950
Neðri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (2963)

75. mál, byggingarlán og húsaleigulækkun

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var flutt, þá var það gert til þess að efna loforð, sem gefið hafði verið, þegar annað frv. um húsnæði var flutt hér á Alþ. að tilhlutan Leigjendafélags Reykjavíkur, þar sem m. a. voru teknar ákvarðanir um, hve háa húsaleigu mætti reikna. Um leið var svo samkvæmt ósk þessa félags flutt frv., og í grg. þess frv. var það tekið fram, að þessar ákvarðanir um að lækka þannig húsaleigu til þess að vinna á móti dýrtíðinni mundu þýða það, svo framarlega sem slík l. kæmu einhliða til framkvæmda, að svo og svo mikið af mönnum, sem hefðu byggt sér hús af litlum efnum og tekið til þess dýr lán til stutts tíma, mundu missa húsin. Við flm. frv. bentum á það, að þessi húsnæðislöggjöf væri ekki framkvæmanleg, nema því aðeins að þetta frv., sem hér liggur fyrir, og frv. um lækkun húsaleigu væru látin fylgjast að, með öðrum orðum, að vextir af slíkum húsum eða íbúðum væru lækkaðir og lánstími þeirra lengdur. Ég held ég hafi rakið þetta ýtarlega, þegar frv. var hér til 1. umr., og sýnt fram á, hve miklu munaði, ef lán, sem veitt eru til 10–15 ára út á slíkar íbúðir, yrðu veitt til 40 ára og vextir, sem nú eru 6–7%, væru lækkaðir í 3–4%. Þess vegna var þess getið mjög greinilega í því frv. um lækkun húsaleigu, sem við fluttum að tilhlutan Leigjendafélagsins, að við mundum flytja hér annað frv., sem færi fram á að lengja lánstímann og bæta lánskjörin. Það er þess vegna rétt að taka það fram, að til þess er ætlazt af okkar hálfu, flm., að þessi frv. fylgist að, en hins vegar er rétt að geta þess, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, á þó líka rétt á sér sem sjálfstætt frv., en þó því aðeins, að ef ekki ætti að afgreiða hitt frv. um húsaleigu, þá yrðu nokkrar breyt. á því gerðar, vegna þess að hitt frv. er á vissan hátt forsenda fyrir þessu frv. Ég minni á þetta, af því að þetta frv. hefur verið afgr. frá n. nú, en ekki er enn þá farið að afgr. frv. um húsaleigu, en heppilegast er, að húsaleigufrv. öll væru rædd í einu.

Nú sé ég, að hv. meiri hl. allshn. hefur verið með nokkrar bollaleggingar um það, að þetta frv. mundi ef til vill brjóta í bága við almennt samningsfrelsi manna eða ákvæðin um eignarrétt og þess vegna mundi það brjóta í bága við stjórnarskrána. Það er satt að segja alveg nýtt að heyra það hér á Alþ., að frv., sem hér eru flutt og fela í sér takmörkun á umráðarétti manna yfir eignum sínum eða miða að einhverju leyti að því að breyta frjálsum samningum, sem menn hafa gert, þau séu talin brjóta í bága við stjórnarskrána. Ég er nokkuð hissa á því, þegar ég sé það, að þrír lögfræðingar standa saman um það mál, að þetta litla frv. sé hættulegt hvað þetta snertir, að það sé með því verið að kollvarpa samningsfrelsi manna. Í fyrsta lagi vil ég í þessu sambandi minna á, um hvað þetta frv. er. Þetta frv. er um að breyta lánskjörum viðvíkjandi húseignum, breyta þeim samningum, sem eru t. d. milli bankanna eða annarra lánardrottna annars vegar og húseigenda hins vegar. Hvað hefur nú Alþ. leyft sér að gera á þessu sviði gagnvart húseigendum? Alþ. hefur leyft sér það fyrst og fremst að ógilda þá samninga, sem húseigendur hafa gert við leigjendur í húsunum. L. um það eru búin að standa í 10 ár, og enn þá hafa engir lögfræðingar risið upp hér á Alþ. til að tala um það, að slíkt bryti í bága við stjórnarskrána. Í öðru lagi hefur Alþ. ekki látið sér nægja að kollvarpa þannig almennu samningsfrelsi húseigenda og leigjenda, heldur enn fremur svipt húseigendur ráðstöfunarrétti yfir sínum eigin húsum með því að skylda þá til að hafa leigjendur í húsum sínum, sem þeir gjarna vilja koma í burtu. Það hafa engir lögfræðingar á Alþ. risið upp né nein allshn. séð ástæðu til að leita til lagadeildar háskólans til þess að spyrja um, hvort þessar ráðstafanir brytu ekki í bága við stjórnarskrána. Og nú vil ég spyrja einmitt þessa ágætu lögfræðinga, sem að þessu standa í allshn., að hve miklu meira leyti væri réttur brotinn á lánardrottnum, venjulega ríkum stofnunum hér í landinu, sem samið hafa við húseigendur, heldur en réttur á húseigendum er brotinn með húsaleigul., sem eru oft fátækir menn, þó að á meðal þeirra séu líka ríkir menn. Ég fæ ekki séð það, og mér þykir það koma mjög undarlega fyrir, ef allt í einu á að fara að koma hér upp með það, að það sé brot á almennu samningsfrelsi og jafnvel brot á 67. gr. stjórnarskrárinnar að takmarka að einhverju leyti samningsfrelsi lánardrottna og breyta samningum þeirra, þó að þinglesnir séu, frekar en að breyta húsaleigu, eins og búið er að gera upp undir 10 ár. Ég sé ekki, að þetta frv., sem hér er lagt til, að samþ. verði, sé að neinu leyti annars eðlis en húsaleigul. t. d. Og nú ætla ég hvorki að ráðast á þau l. né færa fram þau mörgu rök, sem fram má færa fyrir nauðsyn þeirra, en ég vil aðeins á það benda, að í þessu er algert ósamræmi. Það hefði frá upphafi ekki verið nema eðlilegt í sambandi við húsaleigul., þegar húseigendur eru sviptir möguleika til að hafa upp úr húseignum sínum og sviptir ráðstöfunarrétti yfir þeim, að lánardrottnar, þeirra hefðu fengið að blæða líka. Ég held þess vegna, að ef það hafa ekki verið brotin eignarréttarákvæði eða samningsréttarákvæði stjórnarskrárinnar með þeim l., þá sé það ekki gert með þessum. Satt að segja er ég alveg hissa á þessu tali, um að eignarréttarákvæði og samningsréttarákvæði séu brotin með þessu frv., því að ég veit ekki betur — ef á annað borð á að halda þann paragraf í heiðri á Alþ. — en þau hafi verið þverbrotin á hverju þingi. Ég vil, án þess að fara út í „júridiskar“ deilur um þetta atriði, segja það, að hér er siglt í sama kjölfarið og siglt hefur verið undanfarna áratugi. Hvort það er vegna þess, að þessir háu lánardrottnar, bankarnir, séu viðkvæmari en aðrir fyrir slíku, að meiri hl. allshn. sér ástæðu til að bera þetta fram, skal ég ekkert um segja. — Hvað hitt atriðið snertir, sem hv. frsm. n. minntist á, að það væri rétt að draga úr misrétti, sem gæti af því leitt, að ýmsir óverðugir gætu orðið þessa aðnjótandi, þá er það alveg rétt athugasemd, og ég vildi ákaflega gjarna, ef það eitt væri út á frv. að setja, reyna að komast að samkomulagi um það. Það er alveg rétt, að með svona ákvæðum eins og hér er lagt til að samþ., mundi leiða þó nokkurt misræmi, þannig að vel stæðir menn, sem ekki þyrftu þessara ráðstafana með, mundu verða þeirra aðnjótandi, en aðrir, sem væru illa stæðir, t. d. þeir, sem hefðu fengið víxillán, mundu ekki njóta þessara hlunninda, svo að ef hægt væri að finna aðferð til að koma í veg fyrir slíkt misrétti, væri það mjög gott. En ég vil benda á nákvæmlega samsvarandi atriði sem við höfum átt við að stríða viðvíkjandi húsaleigul:, sem eru búin að standa í áratug. Við vitum vel, hve miklu misrétti er beitt í sambandi við þau, og flestir viðurkenna það, en samt hefur ekki tekizt að finna út aðferð til að breyta þeim l. til að koma í veg fyrir misrétti. Hvað þann hluta málsins snertir væri mjög heppilegt að geta komið sér saman um breytingu, en hins vegar verð ég að segja það, að ef svona almenn ákvæði gætu orðið til að bjarga einhverjum, sem væru mjög illa stæðir, þá sæi ég ekki eftir því, þó að þau kæmu einhverjum vel stæðum til góða.

Viðvíkjandi þeirri höfuðgagnrýni af hálfu meiri hl. allshn., að almennu samningsfrelsi verði ekki kollvarpað með almennum l., vil ég á það benda, að Alþ. hefur nú tvisvar á síðasta áratug kollvarpað almennu samningsfrelsi með l. Fyrst með gengislækkunarl., sem sett voru í apríl 1939, þegar atvinnurekendur og verkamenn voru sviptir samningsréttinum og niður felldir samningar, sem gerðir höfðu verið, og meira að segja sumum þeirra samningum breytt með lagaákvæðum, t. d. voru afnumin þau ákvæði, sem voru í sumum samningum, að ef gengislækkun yrði, þá skyldi það bætt að fullu upp. Nýlega var, í sambandi við gengislækkunarl., afnumið ákvæði um visst atriði úr samningum, það atriði, að ef menn hefðu gert samninga um lán til húsbygginga og annað slíkt, sem skyldu greiðast aftur með fleiri krónum, ef gengisbreyt. yrði, þá var það sett inn í l., að slík ákvæði skyldu vera ógild. M. ö. o., samningum var breytt þannig með lagaákvæðum, og mun í þessum tilfellum oft hafa verið um þinglesin veð að ræða, sem tryggð voru á þennan hátt. Á árinu 1947 var enn fremur í sambandi við l. um að takmarka vísitölugreiðsluna við 300 stig kollvarpað samningsfrelsi manna. Hvað eftir annað á undanförnum áratug hefur Alþ. afgreitt l., sem breyttu samningum og afnámu samningsfrelsi. Og nú kemur meiri hl. allshn. og segir: Við getum ekki mælt með frv. vegna þess, að það kollvarpar samningsfrelsi manna. — Ég skil þetta ekki, nema þá á þann hátt, að nú ætti að verða alger stefnubreyting á Alþ. Út af fyrir sig væri það á vissan hátt mjög skemmtilegt. Það færi fleira að líta öðruvísi út hjá okkur, ef stjórnarskráin ætti virkilega að vera í gildi eftir orðanna hljóðan. Við skulum segja, að á Íslandi ætti allt í einu að ríkja atvinnufrelsi. Það væri ákaflega gaman, en menn vita, að ekki er til snefill af því hér. Og kannske hefur einhverjum dottið í hug að afnema einokun og koma á verzlunarfrelsi, svo að ekki sé talað um samningsfrelsi, sem alltaf er verið að afnema, og ég tala ekki um eignarréttinn, sem hefur á öðru hverju þingi verið skertur með l. Maður gæti haldið, að nú ætti allt í einu að gera hér á breyt., og ef svo væri, þá er ég vissulega reiðubúinn að ræða þetta mál og það frá öðru sjónarmiði. En út frá þeim „praksis“, sem viðgengizt hefur á Íslandi síðasta áratuginn, nær ekki nokkurri átt að finna þetta að frv. Þess vegna held ég, að það sé misskilningur hjá meiri hl. allshn. að gagnrýna frv. út frá þessu.

Ég mundi satt að segja helzt óska þess, ef von væri til þess, að frv. um húsaleigu, sem liggja fyrir allshn., kæmu til umr. á þessu þingi, að þetta frv. yrði nú látið bíða afgreiðslu. Ég gat þess í upphafi máls míns, að þetta frv. væri flutt beinlínis vegna þess frv. frá Leigjendafélaginu, sem við nokkrir þm. Sósfl. höfum flutt eftir beiðni þess félags. Það frv. er hjá allshn. og ég held fleiri frv. um húsaleigumál. Þetta frv. átti alveg sérstaklega að laga alveg sérstakan órétt, sem mundi skapast. ef frv. Leigjendafélagsins yrði samþ. Ég held, að menn mundu sannfærast um það, ef frv. um húsaleigu fyndi náð fyrir augum meiri hl., þá yrði að gera eitthvað í átt við það frv., sem hér liggur fyrir. Færi hins vegar svo, að þau frv. kæmu ekki frá n., þá er rétt, sem hv. 5. þm. Reykv. benti hér áðan á, að þá þarf að breyta þessu frv., og vildi ég þá fá tækifæri til þess. Ég vildi leyfa mér að bera þá ósk fram við hæstv. forseta, að þessari umr. yrði nú frestað nokkuð, þannig að við fengjum vitneskju um það, hvort hv. allshn. muni afgreiða hin málin.