17.04.1950
Neðri deild: 84. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (2964)

75. mál, byggingarlán og húsaleigulækkun

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Í sambandi við það, sem hv. 2. þm. Reykv. kom inn á, hvort húsaleigufrv., sem eru tvö hjá n., yrðu afgr. frá henni, vil ég taka það fram, að n. er búin að afgr. annað þeirra, en ekki þó það, sem hv. 2. þm. Reykv. og flokksmenn hans eru flm. að. Frv. hafa bæði verið rædd ýtarlega í n. og sem sagt annað afgr. frá henni, og koma nál. sjálfsagt næstu daga, en n. klofnaði einnig um afstöðu sína til þess máls.

Ég skal svo ekki bæta miklu við það, sem ég sagði í upphafi um álit okkar á þessu frv., en okkar álit var það, að það væri a. m. k. hæpið, að frv. bryti ekki í bága við stjórnarskrána. Ég vil út af ummælum hv. 2. þm. Reykv. taka það fram, að ef þetta frv. og efni þess brýtur í bága við 67. gr. stjórnarskrárinnar, þá gerir það það ekki síður, þó að Alþ. hafi áður samþ. frv., sem vafi gæti leikið á, að væru ekki á sama hátt stjórnarskrárbrot eins og þetta frv. Hins vegar finnst mér gæta nokkurs misskilnings hjá hv. 2. þm. Reykv. í hugleiðingum hans almennt um það, hvort hér sé eða geti verið um stjórnarskrárbrot að ræða eða ekki. Á hverjum tíma getur það komið fyrir, að Alþ. geti orðið að setja l., sem grípa inn í efnahag manna og jafnvel eignarrétt manna líka. En það hefur verið litið svo á, að ákvæði stjórnarskrárinnar sjálfrar væru til þess að vernda það, að einstökum borgurum þjóðfélagsins verði ekki mismunað. Það eru mörg dæmi þess, að ákvarðanir Alþ. hafi orðið til að skerða eignarrétt og samningsrétt manna, og þá hefur það gengið yfir alla jafnt og hefur af löggjafarvaldinu verið talin almenn þjóðfélagsleg nauðsyn. Ég held, að dómstólamál hafi gengið um þetta. Þegar aðflutningsbannið var sett á áfengi, þá töldu þeir, sem verzluðu með áfengi, að þeirra atvinna væri lögð í rústir og þeir ættu að fá bætur af hálfu ríkisvaldsins fyrir. En þar sem sú löggjöf tók til þjóðarinnar almennt, varð niðurstaðan sú fyrir dómstólunum, að þeir skýldu ekki fá bætur. Það er augljóst mál, að ef þetta frv. verður að l., þá mundi vera gengið á eignarrétt sumra manna, en það yrði mjög handahófskennt, hverjir það yrðu. Það eru ekki bara lánsstofnanir almennt, sem hafa lánað út á fasteignir, heldur hafa margir einstaklingar lánað bæði vinum sínum og öðrum og fengið veð í fasteign til tryggingar fyrir láninu. Þessir menn ættu svo að sæta því, að einn góðan veðurdag væri búið að gerbreyta þeirri eign, sem þeir ættu í veðskuldabréfum, með því, að lánstíminn væri skyndilega lengdur og vextir lækkaðir verulega. Hér yrði töluverður hópur borgara fyrir því, að löggjafarvaldið breytti með þessu eignum þeirra, en það yrði algerlega handahófskennt, hverjir yrðu fyrir þessu. Og það er lítið samræmi í því, að l. eins og þessi komi niður á einstaklingum, sem lánað hafa fé til að koma upp íbúðum, en það eru þeir, sem eiga að sæta því, að með einu pennastriki á að gerbreyta þeirra lánum og eignum. Þetta sjáum við, ef við t. d. tökum dæmi um tvo menn, sem báðir eru efnamenn og hafa gert mikið að því að lána öðrum fé. Annar þeirra lánar svo og svo mörgum fé til þess að koma upp þökum yfir höfuð sér, og lánin eru tryggð með veði í fasteignum. Hinn hefur svo lánað til svokallaðrar braskstarfsemi, sem er miklu óþarfari á ýmsa lund. Þá sjá menn, hve fjarri öllu lagi er, að sá, sem lánað hefur til byggingarstarfsemi, verði að sæta því, að svo og svo mikil verðrýrnun er gerð á eignum hans af hálfu löggjafarvaldsins, en aftur á móti ekki á eignum hins. Þetta held ég hljóti að liggja til grundvallar, þegar það er metið, hvort l. brjóti í bága við stjórnarskrána og eignarrétt manna. Fyrir utan það, að þetta er skoðun okkar í meiri hl. allshn., eins og ég hef lýst að nokkru leyti, þá virðist efni frv. vera mjög vankantað, og kom hv. flm. inn á það í ræðu sinni og viðurkenndi að í vissum tilfellum þyrfti ef til vill að breyta efni frv., miðað við það, hvernig öðrum frv. reiddi hér af.