10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð út af því, sem hæstv. ráðh. sögðu um afstöðu Framsfl. í sambandi við þetta mál. Afstaða hans mun verða þannig, að flestir af þm. Framsfl. munu greiða atkv. með till. hv. þm. V-Ísf. (ÁÁ), um að framlengja gömlu skattana til 1. marz, og framsóknarmenn munu yfirleitt vera fylgjandi því að fella 14. gr. frv. niður. Jafnframt munu flestir framsóknarmenn væntanlega greiða atkv. á móti því að fella niður 12. gr. frv., og hafði því hæstv. fjmrh. í höfuðdráttum rétt fyrir sér, þegar hann gizkaði á, hver afstaða þm. Framsfl. mundi verða.

Vegna þeirra orða hæstv. fjmrh., að það væri ábyrgðarleysi að samþykkja till. stj. um að ábyrgðin geti gilt til 15. maí, ef ekki yrði búið að gera aðrar ráðstafanir, án þess að samþykkja nú að framlengja skattana til þess tíma, vil ég segja nokkur orð. Það er sagt, að það vanti peninga til að standa undir fiskábyrgðinni. Í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að það mun láta nærri, að á undanförnum árum hafi verið aflað tekna, sem menn hafa sagt, að ættu að vera til þess að standa undir fiskábyrgðinni og borga niður verðlagið innanlands, sem numið hafa 80 millj. kr. á ári. Þetta mun áreiðanlega ekki vera fjarri lagi. Hverjar eru svo dýrtíðargreiðslurnar? Í fjárlfrv. er gert ráð fyrir 33 millj. kr. til dýrtíðarráðstafana, og ef svo illa tækist til, að ábyrgðin yrði framlengd til 15. maí, þá kostar það 42 millj. kr. Við vitum allir, að raunverulega er þessu á þann veg farið, að það vantar gífurlega fjármuni í ríkissjóð, ef uppbótaleiðin verður farin áfram, en þá vantar ekki frekar til að greiða með fiskábyrgðina, en sitt hvað annað. Þegar hér var samþ. 20% launauppbót fyrir jólin, ekki með atkv. framsóknarmanna, heldur stj., þá var ekki talað um, að peninga vantaði eða ábyrgðarleysi væri að samþykkja þá till., án þess að um leið væri lagður á skattur. Manni skildist, að peningar væru til, til þess að greiða það, en þegar að því kemur að athuga, hvort til séu einhverjir peningar til að standa undir fiskábyrgðinni til bráðabirgða, þá er álitið, að svo sé ekki. Sannleikurinn er sá, að það vantar stórkostlega peninga, en eins og ég sagði áður, ef allir reikningar eru rannsakaðir, þá mun það sannast, að þá vantar ekki frekar í fiskábyrgðina, en hvað annað. Þetta vildi ég, að hæstv. ríkisstj. hefði í huga. Það er náttúrlega ákaflega þægilegt að láta þjóðina standa í þeirri meiningu, að þegar þarf að hækka laun, þá rigni peningum úr loftinu, en aðeins þegar kemur til þess að greiða fiskábyrgðina, þurfi að ná sköttum í ríkissjóð, en taka svo skattana í aðrar greiðslur. Með þessu móti stendur þjóðin í þeirri trú, að hægt sé að þenja út ríkisreksturinn, án þess að lagðir séu á skattar, skattarnir séu svo teknir til þess að útvegurinn geti gengið áfram. Við skulum athuga það, að auðvitað þurfa menn að gera sér grein fyrir, hvernig hægt er að ná í peninga, ef útflutningsábyrgðin þyrfti að halda áfram, en það er erfitt að segja um það með þá peninga, sem inn koma, hvað af þeim fer til framleiðslunnar og hvað til annars. Ég hefði ekki minnzt á launauppbótina í sambandi við þessar umr., ef hæstv. ráðh. hefði ekki gefið tilefni til þess, en þetta mál er sannarlega ekki eins einfalt og hann gefur í skyn.

Að gefnu tilefni vil ég gera grein fyrir öðru atriði; varðandi afstöðu Framsfl. Nú er vertíð hafin og um tvennt að velja, að stöðva alveg vertíðina meðan við glímdum um það, hvort ekki yrði fundin betri frambúðarlausn, en ábyrgðin, eða ráðstafanir til bráðabirgða, sem nægilegar eru til þess að koma bátaflotanum af stað. Nú er því haldið fram, að menn eigi ekki að gera út nema að sjá fótum sínum forráð alla vertíðina. Við framsóknarmenn viljum ekki verða til þess að stöðva vertíðina, en við viljum fylgja því, að ábyrgð sé tekin á fiskverðinu til 1. marz og í bakhönd til 15. maí, til þess að útgerðin treysti sér af stað. Þetta gerum við í trausti þess, að fyrir þann tíma, 1. marz, verði búið að finna aðrar leiðir, og af því að við gerum þetta í trausti þess, þá viljum við ekki leggja á nýja skatta, sem við vonum þá, að aldrei þurfi að leggja á, vegna þess að fyrir þann tíma verði búið að finna önnur úrræði. Af þessum ástæðum viljum við fella 14. gr. úr frv., og við viljum ekki framlengja gömlu skattana nema til 1. marz, af því að við teljum, að ekki eigi að ákvarða skattaálögur nema örstutta stund fram í tímann, nema í sambandi við heildarráðstafanir í þessu máli, og að menn geri það upp við sig, hve mikil þörf er á sköttum í heild og til hvers þeir eru notaðir. Ég neita því, að þetta sé óábyrg afstaða, og þá vegna þess líka, að ég tel, að það mundi draga stórkostlega úr líkum fyrir því, að Alþ. kæmist inn á nýjar brautir, ef nú yrði samþ. að láta þessa skatta gilda áfram. Afstaða Alþfl. finnst mér nokkuð svipuð, en hún er þó önnur að því leyti til, að sá flokkur vill, í staðinn fyrir að ábyrgðarl. séu framlengd til 15. maí, gefa yfirlýsingu, um, að verði ekki búið að finna ný úrræði fyrir 1. marz, þá verði ábyrgðarl. framlengd. Sennilega munar ekki miklu á afstöðu okkar og Alþfl., en við teljum hreinna fyrir útgerðina, að þetta sé ákveðið eins og við leggjum til, eða til 15. maí, af því að við finnum það á okkur, að beri Alþ. ekki gæfu til að leysa þetta mál fyrir 1. marz, þá verður niðurstaðan sú, að slík ábyrgð verður tekin. En við viljum, að Alþ. hafi aðhald með því að binda þetta við 1. marz, og er því afstaða okkar framsóknarmanna miðuð við það; en ekki af ábyrgðarleysi til komin.