20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (2975)

85. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Pétur Ottesen) :

Herra forseti. Eins og getið er um í nál. landbn., er meginatriði þessa frv., að bannað verði refaeldi og fyllri ákvæði sett um eyðingu villiminka, en nú eru í lögum. Þó að n. hafi gefið út sameiginlegt nál., varð ekki samkomulag um það að banna með öllu minkaeldi. N. skiptist í því efni, eins og frá er greint í nál. Hins vegar tókst að ná samkomulagi um að setja fyllri ákvæði um eyðingu villiminka en nú eru. N. leggur að vísu til, að nokkrum atriðum frv. verði breytt, en þær breyt. snerta eingöngu þær reglur, sem settar eru um greiðslu kostnaðar við eyðinguna. Um þetta varð fullt samkomulag í n., og stendur hún því sameiginlega að þessum brtt. Það er þess vegna óþarfi að ræða þá hlið málsins frekar.

Um hitt atriðið, að banna minkaeldi, voru skiptar skoðanir. Við, sem föllumst á ákvæði frv. að þessu leyti, lítum svo á, að ekki sé hægt að gera ráð fyrir því, að lögð verði fullkomin áherzla á eyðingu villiminka, meðan áframhaldandi hætta er á því, að starfið beri ekki árangur, vegna þess að minkar geta sloppið út úr girðingum. Þessi villiminkafans er nú dreifður um allt land, ógnar fugli og fiski og dæmi benda til, að þessum vargi sé stefnt á fleiri verðmæti. Þegar þessi innflutningur hófst, benti Guðmundur Bárðarson náttúrufræðingur á það, og lagði áherzlu á, að varla mundi hægt að einangra svo þessi dýr, að þau slyppu ekki úr vörzlu. Guðmundur sálugi Bárðarson, sá merki náttúrufræðingur, kynnti sér eðli og hætti þessara dýra, þar sem þau voru til annars staðar, og hann hafði þær sagnir í þessum efnum, að hann taldi óhugsandi, að svo yrði um búið, að þau slyppu ekki úr haldi. Þetta kom líka fljótt í ljós, því að það leið ekki langur tími, þar til dýrin fóru að sleppa. Þótt það sé ekki að efa, að í seinni tíð hafi verið reynt að búa betur um, bendir allt til þess og styðst við reynslu annars staðar, að tæplega sé hægt að ganga þannig frá búrunum, að ekki sé möguleiki fyrir dýrin að sleppa. Það hefur líka sýnt sig, að villiminkar, sem veiddir hafa verið, eru ekki eingöngu af fyrsta stofni, heldur eru líka í þeim hópi dýr af öðrum stofnum, er síðar hafa verið fluttir til landsins. Þetta er fullkomin ábending og sannar, að þrátt fyrir endurbætur á girðingunum hefur ekki tekizt til þessa að gera þær svo örugglega úr garði, að dýrin geti ekki sloppið. Á þessu byggist sú skoðun, að ekki verði hamlað á móti tjóni og voða af völdum þessa dýrs, nema með því að taka gersamlega fyrir allt minkaeldi í landinu. Og það virðist ekki miklu fórnað. Stofninn hefur minnkað ár frá ári og var síðastliðið ár 4.000 dýr, þar af 1/4 hluti fullorðin. Þegar líka er tekið tillit til þess, að þessi atvinnugrein gefur litlar tekjur, í sumum tilfellum hafa búin verið rekin með tjóni, virðist það léttvæg mótbára, að fjárhagslegt tjón muni leiða af banninu. Hitt er ábyrgðarhluti, að spyrna á móti því, að gengið sé með gunnreifum hætti að því að afstýra þessum voða. Villiminkur er nú dreifður um allar byggðir landsins, nema ef einhver héruð á Austfjörðum eru laus við þennan faraldur. En þess verður ekki langt að bíða, að hann komi einnig þangað, ef ekki verður tekið fastar á þessum málum, en verið hefur gert undanfarið. Við flm. og meiri hl. landbn. væntum þess, að hv. Alþ. taki rögg á sig og samþ. að banna minkaeldi með öllu, eins og lagt er til í frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, þó að segja mætti margt og mikið um þann háska, sem af þessu dýri stafar. Málið hefur oft verið rætt á Alþ. og í blöðunum, og ekki er langt síðan náttúrufræðingar okkar hafa ritað um það og lagt þunga á, að gengið yrði hér röggsamlega til verks. En það er þeirra skoðun, að þá verði að taka fyrir allt minkaeldi í landinu, og er hún í samræmi við orð Guðmundar Bárðarsonar, er fyrst var stofnað til minkaeldis í landinu.