20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (2977)

85. mál, eyðing refa og minka

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Það er nú búið að ræða mikið um þetta mál, og mun ég því ekki fara um það mörgum orðum, en aðeins gera stutta grein fyrir afstöðu minni hl.

Það er ekkert nýmæli, sem hér er flutt. Ég held þetta hafi legið fyrir á öllum þingum síðan 1942, eða a. m. k. flestum, og hafa löngum staðið um það miklar og harðar umræður. Ég býst ekki við, að neinn hafi löngun til að vekja þær upp enn að nýju, a. m. k. mun ég ekki taka hér upp langt orðaskak. Menn munu greiða atkv. um frv. þetta alveg eins, hvort sem ræður verða lengri eða skemmri.

Hv. flm. þessa frv. hafa frá öndverðu lagt alla áherzlu á að drepa þau dýr, sem í búrum eru í öruggri gæzlu., og það sem skjótast. Við, sem höfum verið því andvígir, höfum bent á, að hyggilegra væri að snúa sér af meiri krafti að útrýmingu villiminkanna. Hefur sú barátta okkar orðið til þess, að sett hafa verið harðari ákvæði um útrýmingu villiminkanna. Þegar hv. flm. bera nú fram till. um þá útrýmingu, teljum við okkur skylt að fylgja þeim. Um það er ekki ágreiningur. Hann er aftur á móti um hitt, hvort að svo stöddu sé rétt að fyrirskipa að lóga öllum alidýrunum.

Hingað til hefur ekkert það komið fram, sem sannar, að þau mistök, sem áttu sér stað í fyrstu, þegar engin lög eða reglugerðir voru til um gerð búranna eða annað varðandi þessa atvinnugrein, hafi komið fyrir aftur, a. m. k. er mér ekki kunnugt um, að þau óhöpp hafi endurtekið sig, svo að ríkari sannanir liggi fyrir, en ágizkanir einar og dylgjur. Enda vitanlegt, að svo mikið slapp úr búrum á fyrstu árunum af þessum dýrum, að það var ærið nóg til þess að skapa villiminkastofninn. Við sjáum þess vegna ekki ástæðu til að svo stöddu að leggja til, að sá alidýrastofn, sem til er í landinu, verði drepinn niður. Þó í smáum stíl sé, er hér um dálítinn gjaldeyri að ræða, sem nú eftir gengisbreytinguna hefur enn meiri þýðingu, en áður var, og ég er ekki heldur trúaður á, að ræktunarmöguleikar þessa stofns séu úr sögunni. Það vita allir, að loðskinnaframleiðsla hefur átt við mikla erfiðleika að stríða undanfarið og dregizt á stríðsárunum stórlega saman í mörgum löndum. Þess vegna er engan veginn hægt að fullyrða neitt um það, nema hér geti orðið um allveruleg verðmæti að ræða.

Hitt er matsatriði, hvaða möguleikar séu á því að útrýma villiminkunum og hve mikið þeir séu auknir með því að lóga þessum fáu alidýrum. Fyrir mitt leyti verð ég að segja það, að ég hef enga trú á því, að sú útrýming takist ekki fremur, en við höfum gengið með sigur af hólmi í 1.000 ár í baráttu okkar við fjallarefinn. Þar voru þó engir refir í búrum til að halda stofninum við; hann var bara fyrir í landinu, óræktaður; og þó þar væri um dýr að ræða, sem að ýmsu leyti var miklu auðveldara um útrýmingu á, þá hefur hún aldrei tekizt og dýrunum jafnvel fjölgað mjög ört á seinni árum. Ég verð að segja, að mér hafa fundizt skoðanir margra um þetta efni nálgast ofsatrú, og mér er næst að halda, að þeir trúi því ekki sjálfir, sem þeir halda þar fram.

Minni hl. n. sér því ekki ástæðu til þess að svo stöddu, að 1. málsl. gildi, og leggjum við til, að hann falli niður, ásamt a-lið, og komi í staðinn sú orðun, sem við leggjum til í brtt. okkar á þskj. 462.