23.03.1950
Neðri deild: 73. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

85. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Mér virðist kenna nokkurrar þrákelkni hjá hv. þm. Mýr. í þessu máli, bæði hvað það snertir að stangast við staðreyndir og með tilliti til efnis þessarar brtt. hans. Hv. þm. endurtók það, að við værum ekki feti nær í því að heyja stríðið við þetta óargadýr, sem ógnar mörgu kviku, sem bæði er til gagns, fegurðar og nytsemdar í þessu landi, enda þótt bannað væri að ala minka í búrum. Þetta endurtekur hann, enda þótt hv. þm. sé kunnugt, að það veldur vonleysi í baráttunni við villiminkinn, að menn hafa alltaf yfir höfði sér, að þessu sé sáð út frá búrunum, því að það er fengin reynsla fyrir því, að erfitt er eða ómögulegt að tryggja það, að ekki sleppi eitthvað út. Því er það sterkur þáttur í baráttunni við villiminkinn að eiga þessa hættu ekki yfir höfði, og þetta hlýtur hv. þm. að sjá, sem bæði er kunnugur mönnum víða um land og sem formaður Búnaðarfélags Íslands hlýtur að hafa orðið var við þann skaða, sem bændur og raunar aðrir hafa orðið fyrir vegna þessarar plágu. Það er því einkennilegt, að hv. þm. skuli halda fram slíkum fjarstæðum og berja þannig höfðinu við steininn. Hv. d. sýndi við 2. umr., hver afstaða hennar er, og hún er í samræmi við afstöðu alls almennings í landinu. Út af brtt. hv. þm. Mýr. vil ég segja það, að hún er býsna einkennileg. Hann viðurkennir hættuna af minkafaraldrinum úti um landið, en vill svo setja þá, sem lausir eru við pláguna, í sömu aðstöðu. Þessar eyjar hafa hingað til verið alveg lausar við minkinn og eru einu staðirnir á landinu, þar sem fuglastofninn er ekki í stórhættu vegna þessa villidýrs. Refaeldi er að vísu í Vestmannaeyjum, og minkaeldi var þar um tíma, en stóð mjög stutt, sem sést bezt af því, að þar slapp enginn minkur út, en það hefði varla lengi verið án þess, að eitthvert óhapp af hlytist. Ég hef nú athugað, hvort uppi mundu vera í Vestmannaeyjum ráðagerðir um að hefja minkaeldi á ný, og hygg ég svo ekki vera, svo að ekki mun það vera fyrir óskir Vestmannaeyinga eða Grímseyinga, að till. þessi er fram komin, enda býst ég við, að hún verði litin hornauga þar í eyjunum. Ég vil því mælast til þess við hv. d., að hún haldi áfram þeirri stefnu, sem hún markaði við 2. umr., og taki alveg fyrir minkaeldið, enda munu undanþágur frá því vera heldur í óþökk þeirra, sem fá eiga minkinn skv. brtt. hv. þm. Mýr. Reynslan hefur sýnt, að það er ekki miklu offrað, þótt minkaeldið sé stöðvað, og lýsti hv. þm. Snæf., sem þekkir þennan atvinnurekstur, að búin hefðu verið rekin með halla lengst af, enda hefur minkaeldi mjög dregizt saman undanfarið. En hv. þm. Snæf. ætti að athuga það, að frá mönnum við Breiðafjörð, m. a. í hans kjördæmi, hefur komið neyðarkall um að eyða minknum, þar sem hann ógnar nú öllum varplöndum á Breiðafjarðareyjum og er þegar kominn í a. m. k. 20 eyjar.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum að sinni, en vil mælast til þess, ekki sízt vegna Grímseyinga og Vestmannaeyinga, að hv. d. felli fram komna brtt.