23.03.1950
Neðri deild: 73. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (2987)

85. mál, eyðing refa og minka

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð um þetta frv. og leiðrétta misskilning, sem fram hefur komið hjá hv. þm. Borgf. Það er alls ekki rétt hjá honum, að mín afstaða í máli þessu sé reist á eiginhagsmunum. Ég rek að vísu allmikla loðdýrarækt, en minkurinn er svo lítill hluti af þeirri rækt, að ég hefði tiltölulega mjög lítil óþægindi af því, að minkaeldi væri bannað. Það eru önnur loðdýr, sem ég hef aðallega lagt rækt við, eins og t. d. refir. En hins vegar veit ég, að þetta bann kæmi ýmsum mjög illa og þá einkum þeim, sem keypt hafa dýra stofna utanlands frá og lagt með því allmikið fé í þetta eldi, og það er fyrst og fremst þeirra vegna, að ég er ekki hlynntur þessu máli, þar sem ég hef ekki heldur nokkra trú á, að bann við minkaeldi hafi nein veruleg áhrif á útrýmingu villiminksins. Það er líka harla einkennilegt að fara nú að banna minkaeldi, þegar búið er að leyfa það öll stríðsárin, þar sem lítið eða ekkert var upp úr því að hafa á þeim tíma, en nú er von til, að það geti orðið álitlegur tekjuliður og það í erlendum gjaldeyri, sem mikill skortur er á í landi voru. Það er líka nýbúið að flytja inn rándýran stofn frá Kanada, sem kostað hefur ærið fé, en gefur líka góða von um betri og verðmeiri skinn. Og hvaða afgreiðslu sem þetta mál kann að fá, þá leyfi ég mér þó að vænta þess, að refaeigendum verði heimilað að varðveita þennan dýrmæta stofn t. d. í Grímsey eða Vestmannaeyjum, eins og till. hefur komið fram um. Það hefur mikið verið rætt um, að villiminkurinn væri á góðum vegi með að drepa allan lax og silung og eyðileggja alla slíka veiði. Í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á, að við Elliðaárnar mun villiminkurinn hafa verið í 12 til 15 ár, og þó hefur laxveiðin aldrei verið betri, en undanfarið. (Atvmrh.: Við Þingvallavatn er hann búinn að drepa allt nema mig.) Það má líka benda á, að í Kanada er minkaeldi ekki einungis leyft, heldur er minkurinn friðaður vissan tíma á ári og ekki drepinn nema þegar feldurinn er verðmikill. Eftir atkvgr. við 2. umr. þessa máls, þá virðist minkurinn ekki eiga langt líf fyrir höndum, en ekki undrar mig, þó að þeir vísu menn, sem að þeirri útrýmingu standa, verði fyrir vonbrigðum eftir svo sem 10 ár, ef þeir ætla að nota það sem vopn til útrýmingar villiminknum.