23.03.1950
Neðri deild: 73. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (2988)

85. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Það koma nú alltaf fram nýjar og nýjar upplýsingar í þessu máli, og þær síðustu eru sem sagt þær, að mestöll minkabú hafi verið rekin með tapi til þessa. Þegar við það tap er svo lagt allt það tjón, sem þetta dýr er búið að valda, þá fer að verða ljóst, að lítill búhnykkur er að ala slíkan snák við brjóst sér. Við þekkjum þau spjöll, sem þetta dýr hefur valdið, t. d. þar sem æðarvarp er, og hæstv. atvmrh. tók nú svo djúpt í árinni, að við Þingvallavatn væri ekki annað eftir, en mannskepnan ein, allt annað kvikt hefði minkurinn drepið. Enda þótt þetta sé nú sagt í gamni, þá fylgir öllu gamni nokkur alvara, og svo mun í þessu máli. Ég var dálítið undrandi yfir þessari ræðu þm. Snæf. Hann vitnaði til þess, að minkurinn væri friðaður í Kanada á vissum tímum árs. Kannske hann vilji bara láta banna allt minkadráp hér? Svo endaði hann ræðu sína á því, að líklega ætti minkurinn ekki langt líf fyrir höndum, og harmaði það mjög. Ég veit, að það verður þungt og erfitt að hrista þennan ógurlega faraldur af landinu, en ég er sannfærður um, að Nd. Alþingis stígur heillaspor, þegar hún afgreiðir þetta mál, og það verður ekki harmað í framtíðinni, þó að minkaeldi hafi verið bannað. Þetta frv. er áfangi á þeirri leið að útrýma þessari plágu, og um leið er landið losað við þann taprekstur, sem komið hefur fram í umr., að minkaeldið hefur verið. Það er áreiðanlega slumpareikningur hjá þm. Mýr., þegar hann segir, að ekki nema einn af þúsundi þeirra minka, sem náðst hafa, séu úr búrum, enda er sá reikningur óþarfur, ef okkur heppnast að hrista af okkur ófögnuðinn.