23.03.1950
Neðri deild: 73. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (2989)

85. mál, eyðing refa og minka

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Það kom fram víða í ræðu. hv. þm. Borgf., að ég hefði haldið því fram í minni ræðu, að minkaeldið hefði verið rekið með tapi. Þetta sagði ég ekki, enda er ég þeim rekstri ekki nægilega kunnugur, þó að ég hafi rekið refabú. Hitt er augljóst mál, að eftir gengisbreytinguna nú horfa þessi mál öðruvísi við en áður, og má þá orða þá breytingu, sem orðið hefur, að nú sé þessi rekstur miklu arðvænlegri, en áður, auk þess sem hinn bætti stofn, sem fluttur hefur verið til landsins, gefur vonir um verulega verðmeiri skinn. Ég vil líka benda á annað atriði þessa máls, en það eru útgjöld ríkissjóðs, ef þetta frv. verður að l. Það er fyrirsjáanlegt, að ríkissjóður verður að borga mjög háar upphæðir, ef l. banna minkaeldi, og má í því sambandi minna á, að sumir innfluttu refirnir hafa kostað allt að 1.000 kr. Þm. Borgf. virðist mjög bjartsýnn á, að villiminknum verði útrýmt, og telur bann við minkaeldi stóran áfanga í þeirri herferð, en mín skoðun er sú, að villiminknum verði alls ekki útrýmt, að minnsta kosti ekki að sinni, eins og hann er nú orðinn útbreiddur hér. Árangur þessa frv., ef að lögum verður, er því einungis sá, að allarðvænlegur atvinnuvegur, sem færir erlendan gjaldeyri í þjóðarbúið, er eyðilagður og auk þess bætt við útgjöld ríkissjóðs, sem þó hafa verið talin nægileg fyrir.