10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég skal ekki blanda mér í umr. almennt um þetta mál, en ég vil í tilefni af því, sem hv. 1. þm. S-M. (EystJ) sagði, varðandi afstöðu Framsfl., og sérstaklega með hliðsjón af 14. gr. frv., viðurkenna, að það getur verið fullkomið sjónarmið af hendi Framsfl. að segja: Við treystum því, að Alþ. geri fyrir 1. marz þær ráðstafanir, sem við vitum, að meiri hl. Alþ. veit, að þarf að gera, og við teljum þess vegna, eftir atvikum, ekki nauðsynlegt að karpa um tekjuöflun og þá með hliðsjón af því, að þá mundum við ekki geta fallizt á þessa leið til tekjuöflunar, sem stj. hefur bent á. Ég fyrir mitt leyti viðurkenni, að þetta er sérstakt sjónarmið, en bendi á, að ríkisstj. þorði ekki fyrir sitt leyti að halda sér að því. 12. gr. er sett í viðurkenningarskyni þess, að það er a.m.k. hugsanlegt, að við berum ekki gæfu til þess að afgreiða heildartill. í málinu fyrir 1. marz. En ef 12. gr. verður þörf, þá er líka þörf fyrir 14. gr. Ég segi þess vegna: Ríkisstj. þorði ekki að taka á sig þessa ábyrgð, og bar þess vegna fram till. um þessa tekjuöflun, sem að sjálfsögðu má deila um. Ég vildi mega taka þessa yfirlýsingu hv. 1. þm. S-M. sem yfirlýsingu um það, að hann og hans flokkur vilji ásamt öðrum, bæði ríkisstj. og hennar flokki og þeim öðrum, sem að því vilja vinna, hafa sem sneggst handtök um að reyna að afgreiða endanlega lausn málsins. Frá því sjónarmiði vil ég mega líta á þessar till. þeirra, þótt ég að öðru leyti vilji endurtaka það, að við sjálfstæðismenn þorðum ekki að leggja bagga ábyrgðarinnar á bak ríkissjóðs, án þess að sjá fyrir tekjum, af því að við óttuðumst þetta tvennt: Í fyrsta lagi, að til þess gæti komið, að dráttur yrði á heildarráðstöfunum, og þá einnig, að ósamkomulag gæti orðið um tekjuöflun eftir á, en ábyrgðin væri eftir sem áður í gildi. Ég vildi því mega undirstrika það, að ég tek þessa yfirlýsingu hv. 1. þm. S-M. að því leyti alvarlega, að hann vilji hraða afgreiðslu á endanlegum till. í málinu.