18.04.1950
Efri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (3000)

85. mál, eyðing refa og minka

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að ræða þetta mál, en hv. form. n. hefur nú gert grein fyrir afstöðu sinni og spyr nú, hvað n. hafi gert. Ég vil ekkert segja um nál., aðeins, hvað vakti fyrir mér, þegar ég skrifaði undir það. Hv. form. spurði, hve minkarnir væru margir. N. hefur ekki athugað það, og veit ég því ekkert um það, enda býst ég við, að erfitt muni vera að telja þá. Um það, hvað hreppsnefndirnar hafi gert, held ég, að muni vera erfitt að kanna. Frv. þetta hefur legið fyrir mörgum þingum og komizt þetta lengst nú vegna hatrammrar baráttu óvildarmanna minksins. Ég held, að öllum sé það ljóst, að verði þetta samþ. og eigi að vera meira en pappírslög, þá verður það mjög dýrt, auk þess sem óvíst er, hvort hægt verður að eyða minknum. En þetta er tilraun til að útrýma þessari skaðræðisskepnu, sem útrýmir fuglum og verður á annan hátt að tjóni, og væri því rétt að samþ. þessi l. Þau munu að vísu kosta mikið, en þau eru um leið viðleitni til að þóknast þeim mikla hluta þjóðarinnar, sem er á móti minkum. Það er ekki hægt að segja að óreyndu, hve erfitt verður að eyða minknum, en ég geri ráð fyrir, að það muni kosta mikið. Það eru tiltölulega margir, sem vilja eyða minknum, og það, sem veldur því, að ég skrifaði undir nál., var það, að ég mat meira vilja fólksins, en hag fárra minkabúa.