18.04.1950
Efri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (3001)

85. mál, eyðing refa og minka

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég verð að játa, að ég hef ekki fylgzt vel með meðferð málsins. En í frv. stendur: „Frá 1. janúar 1951 skal minkaeldi með öllu bannað í landinu, og skal öllum aliminkum lógað fyrir þann tíma. Ríkissjóður greiðir eigendum minkabúa bætur fyrir tjón, er af banni þessu leiðir, samkvæmt mati þriggja dómkvaddra manna.“ Ég vil spyrja n., sem hefur haft með þetta mál að gera, hve mikið hún telji, að þetta muni kosta, hve margir aliminkar muni vera í landinu og í því sambandi, hve háan bótakostnað þurfi að greiða. Mér skilst, að verði þetta samþykkt, þá þurfi að setja þá upphæð, sem þarf til að framfylgja lögunum, á fjárl. En mér skilst, að það sé meira, en andvirði minkanna, sem bæta þurfi; það þurfi einnig að bæta mannvirki, því að í frv. stendur: „Ríkissjóður greiðir eigendum minkabúa bætur fyrir tjón, er af banni þessu leiðir, samkvæmt mati þriggja dómkvaddra manna.“ Og ef til vill á einnig að bæta atvinnutjón, um það skal ég ekki segja, en það verður að liggja fyrir, hve mörg dýrin eru og hve mikils virði mannvirki séu, þó að sleppt sé hinu óbeina. Ef ekkert liggur fyrir um þetta, þá verð ég að óska eftir því, að málinu verði frestað, unz n. og ríkisstj. hafa athugað það. Það gefur auga leið, að þetta verður að athuga vel og verður eflaust dýrt, en hv. þm. verða að gera upp við sig, hvað þeir vilja leggja fram til að eyða minknum. Í fyrra voru samþ. hér lög um eyðingu refa og minka, og varð af þeim nokkur kostnaður. Þá var fenginn hingað norskur maður til að kenna eyðingu þessara dýra; var gengið að því með atorku og varð af því nokkur kostnaður. Er sjálfsagt að halda því áfram, en sá kostnaður var þó lítill miðað við þetta, eftir því sem ætla má. Ég hefði óskað að fá upplýsingar um þetta eða að málinu yrði að öðrum kosti frestað, þar til þetta hefði verið athugað.