18.04.1950
Efri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (3004)

85. mál, eyðing refa og minka

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta. Mér finnst tilmæli hæstv. ráðherra eðlileg og sjálfsagt að verða við þeim. Um tölu þeirra alidýra, sem nú eru í landinu, hef ég fengið þær upplýsingar, að kvendýrin muni vera um 12–15 hundruð, og mun þá stofninn allur vera um 2.000 dýr. Ekki veit ég, hversu mikið hægt er að meta þessi dýr. Ég er andvígur því að banna minkaeldi, eins og nefndarálit það, sem ég hef undirritað, ber með sér. Ég vil æskja þess, að það verði tekið til rækilegrar athugunar í nefndinni, hvort ekki sé hægt að setja reglur, er mæli svo fyrir um byggingu minkagirðinga, að öruggt sé, að þeir geti ekki sloppið út. Mér þykir það mjög sennilegt, að hægt muni vera að gera þannig girðingar, að þær komi að fullu gagni. Og orðlengi ég þetta ekki frekar að sinni.