16.01.1950
Neðri deild: 30. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (3028)

92. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Það er í raun og veru tvennt, sem felst í þessu lagafrv. Í fyrsta lagi sú breyt. á l. um stofnlánadeildina, að þar er lagt til, að 6. gr. laganna falli niður. Hún er á þá leið, að stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands skuli jafnóðum og hún fær frá skuldunautum sínum afborganir lána, sem hún hefur veitt, greiða seðlabankanum þær afborganir, eða jafnháa upphæð. Stofnlánadeildin var miðuð við, að hún megi nota 100 millj. kr. til sinnar útlánastarfsemi. Það var upphaflega meiningin, að þetta ættu að vera 100 milljónir og haldast það, til þess með því að geta tryggt Sjávarútveginum lánamöguleika. Ef 6. gr. verður haldið í l., verður þetta í framkvæmdinni þannig, að jafnóðum og þeir, sem fengið hafa lán fyrir togurum, greiða afborganir, þá fara þessar afborganir úr stofnlánadeildinni til seðlabankans. Þannig mundi hún, ef svona væri haldið áfram, minnka niður í ekki neitt, upphæðin, sem lánuð er út úr stofnlánadeildinni, og verða aðeins þessar eitt hundrað millj. kr., sem lánað væri út úr stofnlánadeildinni einu sinni, og svo aldrei lánað út úr henni meir. Stofnlánadeildin eyddist þá þannig upp. En slíkt var ekki tilgangurinn upprunalega, þegar stofnlánadeildin var stofnuð. Og það er hægt að tryggja það, að í stofnlánadeildinni haldist þessar 100 millj. kr., ef 6. gr. 1, er felld burt. Þá mundi löggjöfin aðeins takmarka, að það væri ekki yfir 100 millj. kr., sem hún hefði til umráða til útlána, því að þegar afborganir koma inn í stofnlánadeildina, væri hægt, með því móti að fella niður þessa gr., að tryggja, að stofnlánad. gæti lánað þetta fé út aftur með 2½% vöxtum. Nú er stofnlánadeildin komin með rekstrarfé niður í 83 millj. kr. Það er m. ö. o. búið að borga 17 millj. kr. inn í hana sem afborganir af lánum, sem hún hefur veitt. Þessar 17 millj. kr. hafa svo jafnóðum verið teknar úr stofnlánadeildinni og verið greiddar til seðlabankans. Ef þetta frv. yrði að l., mundi seðlabankinn vera skyldaður til að láta stofnlánadeildina fá rekstrarfé, þó ekki yfir 100 millj. kr., og þá verða að greiða þessar 17 millj. kr. aftur til stofnlánad. Og henni er bráð þörf á að fá, þótt ekki sé nema þessar 17 millj. kr., til umráða. Þær mundu nægja til þess að lána til þessara 7 togara, sem eftir voru með að fá stofnlán.

Munurinn, sem þarna yrði um að ræða, með því að seðlabankinn endurgreiddi stofnlánad. þessar 17 millj. kr., er í raun og veru aðeins reikningslegur. Ef ríkið t. d. tekur lán upp á 17 millj. kr. hjá Landsbankanum og borgar 6½–7% í vexti, þ. e. lán, sem lánað er út til togaraeigenda, Reykjavíkurbæjar o. fl., þá verður þarna mikill vaxtamunur. Nú er það sparisjóðsdeildin, sem lánar þetta og reiknar sér þetta háa vexti. En eftir frv. þessu mundi stofnlánadeildin lána þetta, og það yrði með ofurlítið minni vaxtagreiðslum. Mér finnst óeðlilegt, að sparisjóðsdeildin, ein grein Landsbankans, sé að skatta ríkið með sérstökum hætti, með því að taka svona háa vexti. Það er skattur, sem Landsbankinn leggur á ríkissjóð, með því að Landsbankinn láti ríkið borga 6½–7% í vexti, þar sem vextirnir ættu að vera 2½%. — Það að fella þessa 6. gr. l. niður mundi því bæta hag ríkissjóðs, án þess þó að Landsbankanum væri það tilfinnanlegt.

Þá er í 1. gr. hitt atriðið í þessu frv., sem mælir fyrir um vexti þá, sem stofnlánadeildin skuli greiða til seðlabankans, sem séu 1%. Þegar frv. til l. um stofnlánadeildina var fyrst lagt fyrir Alþ., þá var gengið út frá því, að seðlabankinn lánaði stofnlánadeildinni, sem upprunalega átti að vera í fiskveiðasjóði, fé með 1% vöxtum. Það þýddi, að stofnlánadeildin mundi hafa fengið aðstöðu til þess að græða 1½% á þessum lánum, með því að lána út með 2½% vöxtum. Þetta hefði náttúrlega ekki verið stórgróði, en nóg til þess, að stofnlánadeildin gæti staðið undir sér og aflað sér ofur lítils varasjóðs til þess að standa undir töpum, og e. t. v. eignazt rekstrarfé. — Og nú er þessi deild hugsuð sem deild í Landsbanka Íslands, sem ætti því ekki að hugsa verr um, en aðrar deildir bankans. En þá kemur til athugunar sú aðferð, sem landsbankastjórnin beitir við útreikning vaxtanna fyrir þessa deild, þar sem landsbankastjórnin hefur ákveðið, að stofnlánadeildin skuli greiða seðlabankanum 2,4% í vexti. Og sú álagning, sem stofnlánadeildin getur því lagt á útlánin, er 0,1%. — Af hverju er Landsbankastjórnin að reikna stofnlánadeildinni svona háa vexti og gefa henni svona lítinn möguleika til að tryggja sinn fjárhag, að eðlilegum hætti? Það getur ekki verið af öðru en því, að stjórn Landsbankans álíti, að Stofnlánadeildinni megi ekki safnast fé. En Stofnlánadeildin gæti fengið í tekjur 1½ millj. kr. á ári með því að fá ódýr lán, eins og ég hef minnzt á. En með því að setja vextina 2,4%, sem stofnlánadeildin skuli greiða seðlabankanum, hindrar stjórn Landsbankans, að stofnlánadeildin geti eignazt nokkurt fé sjálf. Þetta er allt önnur pólitík, heldur en rekin er gagnvart öðrum deildum bankans. Sparisjóðsdeildin má græða fé, og seðlabankinn má græða sömuleiðis. En stofnlánadeildin má ómögulega eignast einn eyri. Þetta er öfugsnúningur móts við það, sem ætti að vera, að stofnlánadeildinni sé gert svona erfitt fyrir, og allt annað, en ætlazt var til upphaflega. En þetta mun koma af því, að stjórn bankans hefur aldrei verið hlynnt þessari deild. Sem stofnun er bankinn jafnríkur, hvort sem gróðinn af útlánum gengur til seðlabankans eða stofnlánadeildar sjávarútvegsins. Þess vegna er óþarfi að fara með stofnlánadeildina eins og eitthvert stjúpbarn, hvað þetta snertir. Þarna þarf því að koma breyt. á. Stofnlánadeildin hefur mikið hlutverk að vinna. Hún þarf að geta lánað út fé til sjávarútvegsins, því að sjávarútvegurinn þarf mjög á því að halda.

Nýlega vorum við að ræða um þarfir bátaútvegsins í þessu sambandi. Bátaútvegurinn þarf á að halda miklu fé, sem hann hefur ekki getað fengið; en hann hefði getað fengið hjá stofnlánadeildinni, ef landsbankastjórnin hefði reiknað henni 1% í vexti. Þá hefði stofnlánadeildin grætt 1½ millj. kr. á ári, og á 4 árum 6 millj. kr. Hún hefði þá getað veitt lán, sem t. d. þurfti að veita til báta, sem nýlega hafa orðið að taka mjög dýr lán. Þess vegna væri ekki nema eðlilegt, að þetta væri ákveðið, sem í fr. er lagt til, og í samræmi við upphaflega tilganginn, sem var með því að stofna stofnlánadeildina, að stofnlánadeildinni væru reiknaðir 1% vextir af lánsfé, sem hún fengi frá seðlabankanum. Og ríkissjóður er í sérstakri ábyrgð fyrir stofnlánadeildinni og hennar rekstri, þannig að ef tap verður á rekstri stofnlánadeildarinnar, þá á ríkissjóður að borga seðlabankanum það í peningum. Það er því ekki ástæða til þess, að ríkissjóður geri leik að því að stofna sér í meiri skuldir við Landsbankann, heldur en orðið er, með því að ákveðið sé, áð seðlabankinn taki ekki nema 1% í vexti af því fé, sem hann lánar stofnlánadeildinni. Þess vegna er það, að þegar talað er um ríkissjóð sem sérstakan aðila gagnvart Landsbankanum, sem ríkið líka á, þá er réttast að hafa þarna venjulega verzlunarhætti á.

Ég þori ekki að segja um, hvaða vexti Landsbankinn reiknar sparisjóðsdeild Landsbankans. En ég veit, að eins naumt er sparisjóðsdeildinni ekki skammtað í því efni eins og stofnlánadeildinni. Sparisjóðsdeild Landsbankans eru sannarlega gefnir nokkrir möguleikar á því að græða nokkuð á því fé, sena hún fær að láni.

Ég held þess vegna, að þetta litla frv. gæti orðið til þess í fyrsta lagi að stöðva það, að stofnlánadeildin sé látin minnka þannig, að aldrei verði meira út úr henni lánað en fé það, sem hún fékk, þegar hún tók til starfa, en tryggja, að hún yrði þær 100 millj. kr., sem hún var í upphafi, til þess svo, — sem er annað atriði frv., að hún geti lánað út til sjávarútvegsins með 2½% vöxtum, sem hún gæti, ef hún fengi rekstrarfé með 1% vöxtum. Nú virðist alveg sérstök þörf fyrir þetta lánsfé. Og ég vil þess vegna vona, að hv. þd. taki þessu frv. vel og athugi það gaumgæfilega.

Upprunalega mun frv. til l. um stofnlánadeildina hafa verið í sjútvn. Ég held, að það sé rétt munað hjá mér. Og mér finnst rétt, að þetta frv. fari þangað líka nú. Og ég vonast til þess, að hv. sjútvn. athugi málið mjög gaumgæfilega og taki vinsamlega á því.