10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vildi út af ummælum hv. 2. þm. Reykv. (EOl) gefa þá yfirlýsingu, að það er alls ekki hugsunin, sem liggur á bak við þetta frv., að ábyrgðin nái ekki nema til eins aðila, og er það alls ekki meiningin, að ríkisstj. hugsi sér, að út í það væri farið að meina einum eða neinum að stunda sínar eðlilegu vertíðir, þegar kemur fram á árið. Mér þykir nauðsynlegt, af því að hv. þm. gerði það, sem hann sjaldan gerir viljandi, að gera ríkisstj. upp miður góðar hvatir í þessum efnum, þá þykir mér nauðsynlegt að taka þetta alveg skýrt fram. Það var annað, sem fyrir okkur vakti, þegar við ákváðum þetta tímabil. Í fyrstu kom til mála að hafa skurðpunktinn 1. marz, eins og það var orðað hér við 1. umr. málsins, en við stóðumst ekki þau rök útvegsmanna, að vetrarvertíðin er atvinnukafli út af fyrir sig, til hennar er ráðið alveg sérstakt fólk, og menn afla sér nauðsynlegra rekstrarhluta, víða að sér veiðarfærum og allt það miðað við vertíðina alla. Þetta liggur í augum uppi, og þar sem útgerðarmenn gerðu þær kröfur, að við þetta tímabil væri miðað, stóðumst við það ekki. En hitt kom okkur ekki til hugar, að þegar að þeim tíma kæmi, og ekki hefðu verið gerðar einhverjar ráðstafanir af hálfu þings og stjórnar, sem gætu komið í stað framhaldandi ábyrgðar, þá kom okkur ekki til hugar, að þeim yrði neitað um sams konar ábyrgð, sem stunda sams konar útgerð fyrir Norður-, Vestur- og Austurlandi. Ég vil taka þetta skýrt fram. Það hefur verið svo margtekið fram, að það er okkar von og fleiri manna í þessu landi, að á þessu tímabili verði gerð skipulagning á þessum málum þannig, að ábyrgðin hverfi úr sögunni, og með það fyrir augum meðal annars er þetta tímamark sett.