13.02.1950
Neðri deild: 46. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (3037)

113. mál, veiting prestakalla

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ýmis háttur hefur verið á hafður um veitingu prestakalla hér á landi. Í kaþólskum sið veittu biskupar prestsembætti, en þegar siðabótin komst á, skyldu sóknarbændur sjálfir kjósa presta. Þetta var þó aldrei framkvæmt, heldur veittu biskupar brauðin, og síðar amtmenn, en jafnframt tók konungur sér vald ti1 þess að veita brauð. Fyrir miðja 18. öld áskildi konungur sér vald til að veita hin beztu brauð. Miðlungsbrauð veitti stiftamtmaður eftir till. biskups, en konungur varð að staðfesta veitinguna. Hins vegar þurfti ekki staðfestingu konungs til að veita lélegri brauðin. Um miðja 19. öld, eða 1851, var svo ákveðið, að miðlungsbrauð skyldu veitt af stiftamtmanni og biskupi, en 1865 var því aftur breytt þannig, að stiftsyfirvöldin skyldu veita öll brauð, er konungur veitti ekki sjálfur, og síðar, eða 1884, kom landshöfðingi í stað stiftsyfirvalda. Þessi skipun vakti óánægju. Veitingarvaldið var í höndum erlendra valdhafa. Í gömlu kirkjuordinantiunni frá því siðaskipti komust á var svo fyrir mælt, að sóknarbændur skyldu sjálfir kjósa presta. Þetta vald hafði konungur sölsað undir sig. Baráttan fyrir því að fá að kjósa presta var barátta gegn erlendu valdi, sem sölsað hafði ranglega undir sig rétt, sem sóknarbændum bar samkvæmt fornum lögum. Hér var um að ræða þátt í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þessari baráttu lauk með sigri 1886. Þá var ákveðið, að landshöfðingi með ráði biskups skyldi velja 3 af umsækjendunum og skyldi síðan kosið um þá. Árið 1907 var svo ákveðið, að kjósa skyldi um alla umsækjendurna, en smávægileg breyting gerð 1915, sem ekki skipti þó verulegu máli, en þau lög eru í gildi enn. Þannig voru átökin um prestaskipunina nátengd átökunum um sjálfstæðismálið. Þegar veitingarvaldið fluttist inn í landið, féll niður meginástæðan fyrir baráttu þeirri fyrir prestskosningum, sem háð hafði verið á 19. öld.

Á engu Norðurlandanna er nú um að ræða hliðstæða skipun á prestskosningum og hjá okkur. Í Danmörku velja sóknarnefndir 3 af umsækjendunum og raða þeim. Síðan er leitað umsagnar biskups. Hins vegar er veitingarvaldið hjá ráðh. Í Noregi mun fyrirkomulagið vera eitthvað flóknara, en þó ekki um kosningu að ræða. Hins vegar hefur mér ekki tekizt að afla nákvæmra upplýsinga um, hvaða háttur er hafður á þessum málum í hinum Norðurlöndunum, en hvergi mun þó vera sama fyrirkomulag og hér hjá okkur, heldur víðast þannig, að veitingarvaldið, þ. e. ráðherra, hafi óbundnar hendur.

Okkur flm. finnst margt styðja að því, að afnema beri prestskosningar, og eru meginrökin nokkuð rakin á þskj. 310 í greinargerð með frv. og þar með rökin fyrir því, að afnema beri þá skipun, sem verið hefur á þessum málum síðastliðin 40 ár. Við teljum í fyrsta lagi ofætlun að vænta þess, að þorri atkvæðisbærra safnaðarmanna geti að jafnaði lagt rökstuddan úrskurð á embættishæfni þeirra, sem þeir eiga að dæma um á kjördegi, þar sem umsækjendurnir dveljast aðeins stuttan tíma með söfnuðinum, áður en kosning fer fram. Í öðru lagi má fullyrða, að deilur í sambandi við prestskosningar hafa mjög truflandi áhrif á safnaðarlífið og valda bæði hinum nýkjörna presti og söfnuðinum óþægindum og erfiðleikum. Auk þess mun áróður sá, sem mjög er hætt við, að aldrei verði komizt hjá í kosningum, vera fáum til sóma eða gagns, og þá ef til vill sízt kirkjunni sem stofnun. Þá hafa prestar mjög ójafna aðstöðu með núverandi fyrirkomulagi. Prestar, sem eru í embættum, geta ekki átt langdvalir í öðrum sóknum án þess að afrækja störf sín. Kandídatar eiga í þessu efni hægara um vik, en embættismönnum er gert þeim mun erfiðara fyrir sem þeir eru samvizkusamari og eru umfangsmeiri störfum bundnir. Flestir embættismenn eiga kost á að skipta um embætti án verulegra erfiðleika og geta með því hlotið betri og hægari stöður, ef þeir hafa rækt starf sitt vel. Prestar eiga þess ekki kost nema að leggja út í harðvítuga kosningabaráttu, sem oft hefur í för með sér ærin útgjöld og oft og einatt enn meiri leiðindi.

Rökin, sem beitt hefur verið gegn því, að hætta beri prestskosningum, eru einkum þau, að með því væri stigið spor í áttina frá lýðræði, eðlilegt sé að tryggja söfnuðinum fullt vald til þess að velja sér prest, einkum og sér í lagi með tilliti til þess, að ólíkar stefnur séu uppi í trúmálum. Um þetta er það að segja í fyrsta lagi að kosningar á embættismönnum verða ekki taldar einkenni lýðræðisskipulags, enda yrði að telja lýðræði bágborið hér og í nágrannalöndunum, ef svo væri gert, því að engir embættismenn eru hér kosnir aðrir en prestar, svo sem kunnugt er. Í öðru lagi er það einkenni á öllum lýðræðiskosningum, að þær fara fram með vissu millibili. Lýðræði er ekki tryggt með því að veita kjósendum kost á að kjósa sér umboðsmann, er síðar skuli fara með umboðið ti1 æviloka. Ef um lýðræði á að vera að ræða, þarf að vera hægt að losna við umboðsmanninn, ef hann að einhverju leyti bregzt vonum kjósenda, og velja annan. Ef tryggja ætti lýðræði í safnaðarmálum, ætti að efna til prestskosninga með vissu árabili, t. d. fjórða eða fimmta hvert ár. Þá og því aðeins yrði tryggt, að söfnuðir þyrftu ekki að hafa presta, sem þeir vildu ekki sætta sig við. Núverandi skipun tryggir slíkt engan veginn. Með henni er t. d. ekki tryggt, að trúarskoðanir presta séu í samræmi við skoðanir meiri hluta safnaðar. Það er því á algerum misskilningi byggt, að núverandi skipun tryggi lýðræði á því sviði, sem hér er um að ræða. Það væri ef til vill hægt að tryggja slíkt lýðræði, en eðlilegast frá almennu sjónarmiði og affarasælast fyrir kirkjuna sjálfa og prestastéttina er hins vegar vafalaust að leggja allar kosningar og allan áróður á þessu sviði á hilluna og veita prestsembættin á svipaðan hátt og önnur embætti, en tryggja þó söfnuðum, biskupi og hlutaðeigandi héraðsprófasti tillögurétt og vald til þess að ráða veitingunni, ef þessir aðilar eru á einu máli. — Mér er ekki launung á því, að prestskosning sú, sem nýlega fór fram hér í Reykjavík. og þau leiðindi, sem átt hafa sér stað í því sambandi, hafa hvatt okkur flm. til að bera þetta frv. fram, enda hefur sú kosning staðfest mjög áþreifanlega þá skoðun, að prestskosningar séu óheppilegar og að frá þeirri skipun eigi að hverfa í þjóðkirkjunni.

Í 2. gr. frv. eru ákvæði um skipunina, og er þar gert ráð fyrir, að leitað sé álits biskups, héraðsprófasts og sóknarnefndar. Ef þessir aðilar verða á eitt sáttir, þ. e. biskup, héraðsprófastur og sóknarnefnd, er gert ráð fyrir, að veitingarvaldið sé bundið við þá till., en sé hins vegar ágreiningur milli þessara aðila, hefur veitingarvaldið óbundnar hendur.

Mér þykir rétt að geta þess, að kirkjuráð samþykkti á fundi 12. maí 1947 að mæla með því, að horfið yrði frá prestskosningum, og hefur málið, eins og það nú er flutt, hlotið meðmæli kirkjuráðs.

Að endingu vil ég svo leyfa mér að óska, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessari lokinni og til menntmn.