13.02.1950
Neðri deild: 46. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (3038)

113. mál, veiting prestakalla

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umræðu, er nú gamalkunnugt hér á Alþingi, því að það hefur tvívegis verið flutt áður. Rökin fyrir því nú eru lík og áður. Að vísu hefur verið minnzt á nýafstaðnar prestskosningar sem rök fyrir málinu, eða þá klofningu, sem orðið hefur í því sambandi, en hitt hefur gleymzt, að þetta frv. nær ekki til fríkirkjunnar og bætir þar af leiðandi ekki úr deilum út af prestskosningum í þeim söfnuði. Flm. þessa frv. virðast líka hafa gleymt því, að fyrir fáum árum var prestur við þjóðkirkjuna skipaður af ráðherra og afleiðing þess varð nú sú, að viðkomandi söfnuður klofnaði. Af því má ráða, að það fyrirkomulag, sem með þessu frv. er gert ráð fyrir, leysir ekki alltaf vandann við veitingu prestsembætta í sátt og samlyndi við alla í viðkomandi söfnuði. Ég álít, að kirkjan eigi að vera sjálfstæð stofnun, alveg aðskilin frá ríkinu, og þar af leiðandi eigi ríkisvaldið ekki að skipta sér af, hvernig hún velur sína starfsmenn. Af þessari ástæðu fyrst og fremst er ég á móti þessu frv., en auk þess tel ég, að rök þau, sem flm. bera fram með frv., gefi til kynna, að þeir séu á móti kosningum yfirleitt og þá líka alþingiskosningum. Flest þau rök, sem færð eru móti prestskosningum, gilda jafnt varðandi kosningar til Alþingis. Það er því varla hægt að álykta, að afnema beri rétt safnaðar til að kjósa sér prest á þeim forsendum, að kynni prestsins og kjósandans hafi verið lítil eða engin. Varðandi þau rök, að í söfnuðum skapist oft erfiðleikar út af vali prestsefnis, þá skal ég ekki heimfæra það, hvernig færi, ef pólitískur ráðh. skipaði presta þjóðkirkjunnar. Ég hef ekki trú á því, að slíkt mundi fara betur. Að byggja á slíkum úrskurði yrði allvafasamt, og ég treysti betur úrskurði safnaðar. Það væri að fara úr öskunni í eldinn. Það eru og einkenni þessa frv., sem hér liggur fyrir, að það virðist hugsað frá sjónarmiði embættismannastéttarinnar. Ég býst við, að við því megi búast, að kröfur embættismannanna muni koma áfram, ef afstaða hins pólitíska valds lýsir velþóknun sinni á þessum kröfum. Þetta frv. virðist ekki vera hugsað frá sjónarmiði safnaðarfólksins, heldur embættismannanna. Þetta verður að hafa í huga, þegar þetta mál er rætt. Við búum við lýðræðisskipulag á Íslandi, en ef réttur safnaðanna yrði skertur til að kjósa sér presta, valdið tekið af kjósendunum, þá erum við að afmá lýðræðið. Þessi rök gilda um kosningar yfirleitt, og býst ég við, að slíkt sjónarmið sé ekki ráðandi. Það væri e. t. v. nær að endurskoða skipunina í hina áttina, að kontrolera og endurskoða þá valdaafstöðu, sem embættismannastétt þessa lands hefur fengið. Vald embættismannastéttarinnar er orðið mjög fast. Hefur oft hlotizt af því skaði fyrir þjóðfélagið í heild, þannig að embættismennirnir hafa staðið í vegi fyrir ýmsum framförum, t. d. á tekniskum sviðum, og hefur ekki verið hægt að koma sérfróðum mönnum í ýmis embætti, sem hefði tryggt, að þeir hefðu getað innleitt þær nýjungar og þá tækni, sem sérmenntun þeirra hefði leitt af sér. Slíkt er varhugavert. Hv. 1. flm. sagði í ræðu sinni, að það væri ekki nein mynd af lýðræði, þegar prestar væru kosnir eftir núgildandi reglum um kjör presta, þar eð kjörinn prestur hefði rétt til þess að sitja í embætti ævilangt, hafi hann einu sinni hlotið kosningu safnaðar og fengið veitingu fyrir prestakalli. Í þessu sambandi vildi hv. þm. halda því fram, að það bæri ekki vott um fullkomið lýðræðisskipulag, þó að embættismenn væru kosnir af fólkinu, en ekki skipaðir af ráðh. Ég er ekki sammála hv. þm. í þessu. Ég held, að það sé eitt af því, sem við þyrftum að athuga hér á Alþingi, að endurskoða afstöðuna til þessara mála og athuga, hvort ekki væri um heppilegra form að ræða, en verið hefur. Kosning á embættismönnum hefur t. d. lengi tíðkazt í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Eitt er og víst, að aðhald skapast með því móti. Það er og öllum ljóst, að sókn ýmissa þjóða til lýðræðis hefur fyrst og fremst miðað að því á ýmsum tímum að brjóta niður vald embættismannastéttarinnar. Má hér t. d. minna á baráttu þjóðanna á 19. öldinni til þess að losna úr viðjum einvaldskonunganna og baráttuna við kaþólsku kirkjuna á 17. öldinni. Það er því frekar annað í sambandi við lýðræðisskipulag okkar, sem þörf væri að athuga, frekar en að afnema kosningu presta þjóðkirkjunnar. Þess vegna er það ekki á rökum reist, sem hv. flm. hélt fram. Hér er því um það að ræða, hvort afnema á lýðræðið innan þjóðkirkjunnar og afhenda það pólitísku valdi eða ekki. Hv. þm. segir, að prestar geti setið ævilangt í embætti, hafi þeir náð kosningu, og segir það ekkert lýðræði vera. Hví þá ekki að innleiða það, að prestar séu kosnir til takmarkaðs árafjölda í senn? En hví þá ekki að gera kirkjuna að sjálfstæðri stofnun, gera alla trúarflokka jafnréttháa á Íslandi og veita þeim sama rétt til kosningafyrirkomulags og tíðkast t. d. í verkalýðsfélögunum hér á landi, samvinnufélögunum eða öðrum hliðstæðum stofnunum? Reglan á ekki að vera sú, þó að hægt væri að gera fyrirkomulag lýðræðislegra, að svipta í þess stað í burtu öllu lýðræði. Hitt er líka að athuga, að þótt prestar geti setið ævilangt, þá er reynslan sú, að þeir flytja sig til í önnur embætti.

Hv. þm. lauk máli sínu með því að segja, að réttast væri fyrir kirkjuna annars vegar og prestana hins vegar, að allur áróður í sambandi við veitingu prestakalla yrði lagður á hilluna. Ég er viss um, að frá sjónarmiði safnaðar yrði þetta óvinsælt, og virðist þetta frv. yfirleitt vera hugsað frá hagsmunum þjónandi presta, þannig að þeim væri gert mögulegt að hækka í tigninni smám saman. Ég er ekki viss um, að slíkt fyrirkomulag væri heppilegt. Ungum guðfræðingum yrði gerður með því mikill ógreiði, sem gerði það að verkum, að þeim væri meinað að keppa um góð og stór brauð, en hví ekki að lofa þeim mönnum að fá tækifæri til þess að spreyta sig og starfa fyrir stóra söfnuði, sem oft er mjög erilsamt og erfitt verk, á meðan þeir eru ungir og hafa óskerta lífs- og starfsorku æskumannsins?

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Frv. þetta kom fyrir þingið í fyrra, en var þá svæft. Það getur verið, að það komi til atkvæða nú á þessu þingi, en ég er andvígur frv., því að það er ekki á rökum reist. Mín skoðun er sú, að líklegra væri til hins betra að fara í þá átt að aðskilja ríki og kirkju.