13.02.1950
Neðri deild: 46. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (3042)

113. mál, veiting prestakalla

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar ég sagði áðan, að mér væri ekki kunnugt um, að læknar væru kosnir, þá átti ég að sjálfsögðu við embættislækna. Það er því dálítill útúrsnúningur hjá hv. 2. þm. Reykv., þegar hann ræðir um sjúkrasamlagslæknana og bendir á, að fólk, sem í sjúkrasamlögunum er, geti valið sér sjúkrasamlagslæknana til eins árs í senn. Þeir læknar eru ekki embættismenn ríkisins. Þegar menn velja þá til eins árs, þá er það hliðstætt því, þegar maður leitar læknis, þar sem eru fleiri læknar en einn og velur þá um, hvort hann sækir þennan lækninn eða hinn. Þegar tveir praktiserandi læknar eru á einhverjum stað, þá tekur maður ákvörðun um, til hvaða læknis maður fer, þetta er það og ekki annað, sem menn gera, þegar valið er á milli sjúkrasamlagslækna í sjúkrasamlögum. Það er alveg óskylt hinu vandamálinu, hvernig ráða, eigi í embætti, sem ríkisvaldið skipar, hvort það eigi að gera að undangenginni kosningu eða með einfaldri ráðstöfun ríkisvaldsins sjálfs.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að erfitt væri að koma við læknakosningu. Það er misskilningur. Það er sízt erfiðara að koma við kosningu á lækni, en kosningu á presti. Ef menn telja, að prestskosningafyrirkomulagið sé það réttasta og heppilegasta, þá er enginn vandi að taka slíkt kosningafyrirkomulag upp viðkomandi vali á læknum í læknishéruð og sýslumönnum í sýslurnar. Mér finnst það hljóta að vera svo, að ekki fylgi alveg hugur máli hjá málsvörum prestskosninganna, þegar það bólar aldrei á, að þeir leggi til, að kosningar verði teknar upp í sambandi við skipun neinna annarra embættismanna. Mér finnst, að hér sé fremur um að ræða almenna tregðu til þess að breyta gildandi skipan, en að menn hafi í raun og veru sterka sannfæringu fyrir því, að hér sé um réttláta skipan að ræða, þar sem er prestskosningafyrirkomulagið. Þegar ákveðin skipan hefur verið viðhöfð um nokkra áratugi, þá eru alltaf einhverjir hagsmunir einhverra við þá skipan tengdir, og þá hafa augu manna festst við ýmis atriði, sem telja má kosti við þá skipan, því að mér dettur ekki í hug, að þessi skipan á vali presta í embætti sé kostalaus, því að þá mundi hún ekki hafa verið svo lengi í gildi eins og verið hefur. En aðalatriðið í andstöðunni gegn því að afnema þessa skipan, býst ég við að sé miklu frekar tregða við að breyta gildandi skipan og fastheldni í þá skipan, sem verið hefur, heldur en sannfæring fyrir því, að hún sé réttlát og skynsamleg.