10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Eftir að dýrtíðarlögin voru sett í árslok 1948, var gert samkomulag milli hæstv. þáv. ríkisstj. og L.Í.Ú. þann 11. jan. 1949 um viss atriði viðkomandi stuðningi hins opinbera við bátaútveginn.

Er samkomulag þetta í nokkrum liðum, og í einum þeirra, 4. lið, segir, að útvegsmönnum verði heimilað að ráðstafa gjaldeyri fyrir útflutt hrogn á sama hátt og var árið áður og að hið sama verði látið gilda um nokkrar fleiri útflutningsvörur, sem þar eru taldar í 11 liðum. –A fundi fjhn. nú fyrir helgina, er þetta frv. var í athugun, þá fékk n. þær upplýsingar frá nefnd, sem L.Í.Ú. sendi til viðræðna við n., að samkvæmt þessum lið samkomulagsins frá 11. jan. hefðu útvegsmenn á árinu 1949 fengið sérstakt álag á gjaldeyri fyrir hrognum, en sá gjaldeyrir nam þrem milljónum króna, en álagið 50%. Þá höfðu þeir fengið nokkru hærra álag, eða um 600 þús. kr., vegna 1/2 millj. kr. útflutnings á nokkrum flatfiskstegundum og loks framleitt saltaða og reykta Faxasíld fyrir ca. 7,5 millj. kr. og frysta Faxasíld fyrir um 800 þús. kr., og var aukaálag á hana um það bil 23%. Nú hafa útvegsmenn lagt á það áherzlu í bréfi til fjhn., sem birt er í nál. á þskj. 177; að samkomulag náist um frílista þann, sem L.Í.Ú. hefur lagt fyrir, þar sem farið er fram á, að þessi atriði frá 11. jan. 1949 gildi áfram, en auk þess er þar bætt við lýsi úr lifur úr bátafiski og ísvörðum bátafiski, sem fluttur er á erlendan markað. Ekki liggur fyrir, að útvegsmenn hafi fengið ákveðin fyrirheit um þetta. — Ég lít svo á, að hvað sem annars má um það segja að fara inn á þessa braut, þá sé það mjög óeðlilegt, að ríkisstj. geti gert slíkan samning um sérstakt álag á vissan gjaldeyri án þess, að það sé fyrst borið undir Alþingi. Ég tel, að ef þessu á að halda áfram, þá eigi Alþingi að kveða á um það, og má benda á, að gengisskráningin er ákveðin með lögum, og hér er raunar ákveðið nýtt gengi á gjaldeyri fyrir vissar vörur. Þá er það talið af sumum, að þessi gjaldeyrir hafi ekki komið til ráðstöfunar gjaldeyrisyfirvaldanna sem annar gjaldeyrir, og hafi þetta leitt til óheilbrigðra verzlunarhátta og því mjög varhugavert. Leyfi ég mér því að bera fram brtt. um þetta efni og les hana hér upp, með leyfi hæstv. forseta. Brtt. er svo hljóðandi:

„Á eftir 5. gr. komi ný grein, þannig: Meðan ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins samkvæmt lögum þessum er í gildi, er ríkisstjórninni heimilt að ákveða, að gjaldeyri, sem fæst fyrir neðangreindar vörur frá bátaútveginum, megi selja með álagi, er ákveðið sé af ríkisstjórninni, ef framleiðslukostnaður þeirra vörutegunda er meiri en söluverði þeirra nemur, og falli álag þetta til þeirra, er framleiða vörurnar, enda komi allur gjaldeyrir fyrir þær til ráðstöfunar gjaldeyrisyfirvaldanna á sama hátt og gjaldeyrir fyrir aðrar útflutningsvörur. Vörur þær, sem þetta gildir um, eru:

1. Söltuð og reykt Faxasíld.

2. Fryst Faxasíld.

3. Vetrarsíld frá öðrum veiðisvæðum.

4. Smásíld.

5. Gellur.

6. Kinnfiskur.

7. Sundmagi.

8. Hákarls- og háfsskrápur.

9. Hákarls- og háfslýsi.

10. Alls konar fiskroð.

11. Reyktur fiskur.

12. Grálúða, witches, megrin og frystur háfur.

13. Hrogn.“

Hér er það allt upp tekið, sem var í samkomulaginu frá 11. jan., og auk þess er bætt inn vetrarsíld frá öðrum veiðisvæðum. Eins og sést af upptalningu þessari, er hér eingöngu um að ræða vörur, sem lítið er framleitt af, að undantekinni Faxasíldinni, sem s.l. ár var flutt út fyrir röskar 8 milljónir kr. Út af þeirri ósk, sem fram hefur komið um, að lýsi verði bætt inn á þennan frílista, þá vil ég láta þess getið, að ef þessi till. verður samþ., þá mun ég við 3. umr. bera fram till. um að heimíla að taka ábyrgð á lágmarksverði fyrir lýsi frá bátaútveginum. Það tel ég heilbrigðara en ganga lengra á þessari frílistabraut, en ég tel aðalatriðið, að þessi gjaldeyrir komi til ráðstöfunar gjaldeyrisyfirvaldanna, og þó sérstaklega, að þetta sé ekki gert án samþykkis Alþingis. Það er aðalatriðið, og þar sem Alþingi hefur borizt vitneskja um framkvæmd þessa máls s.l. ár, þá er ástæða til þess, að það láti málið til sín taka og ákveði, til hvaða vörutegunda þetta samkomulag á að ná. En af því að útvegsmenn hafa haft þessi hlunnindi undanfarið, þá tel ég ekki eðlilegt að fella þau niður nú í bili, en það má gera ráð fyrir, að þessu, sem og öðru í frv., verði breytt innan skamms, því að engir gera ráð fyrir, að þessi lög gildi nema mjög skamman tíma. Leyfi ég mér svo að afhenda hæstv. forseta brtt. mína.