14.04.1950
Neðri deild: 82. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (3057)

116. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., var flutt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir glundroða og rugling, sem leitt hefur af núgildandi ákvæðum kosningal. varðandi merkingu framboðslista flokka við kosningar. Ég ræddi nokkuð við 1. umr., hver reynsla hefði orðið af þessu, og benti á dæmi, Hv. allshn., sem fjallað hefur um málið, hefur nú skilað einróma áliti í þá átt að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. N. hefur fallizt á það, að nauðsynlegt sé að breyta núgildandi ákvæðum kosningal., þannig að núverandi stjórnmálaflokkar yrðu merktir þannig, að þeir hefðu sama listabókstaf. Fyrir þessa meðferð á málinu er ég hv. n. þakklátur.

Nú flytur hv. þm. A-Húnv. brtt. við frv., brtt., sem eru við efni frv. og þar að auki um víðtækar breyt. á öðrum ákvæðum kosningar. Fyrst ætla ég að ræða brtt. við efni frv. — Hv. þm. A-Húnv. leggur til í 2. brtt. sinni á þskj. 527, að landslistar stjórnmálaflokka og kjörlistar skuli merktir sama listabókstaf alltaf, þannig: Alþfl. A, Sósfl. C, Framsfl. F og Sjálfstfl. S. En listar nýrra stjórnmálaflokka skuli merktir fyrsta staf í nafni flokksins. Það er meginreglan, sem hv. þm. leggur áherzlu á enda þótt hann neyðist til að gera undantekningu í þessum brtt., með því að einn flokkur, Sósfl., hafi annan bókstaf, en nafn hans hefst á. Þetta sjónarmið á rétt á sér. En ég álít, að þessi aðferð tryggi ekki betur en sú, sem gildir nú, og enn verr en hin, er lagt er til, að tekin verði upp, í hinu upphaflega frv., öryggi það og festu, sem æskilegt er, að skapist. Ég held, að brtt. mundu spilla tilgangi frv., sem er sá að binda endi á ríkjandi glundroða og rugling vegna ákvæða kosningal.

Annars tel ég ekki þörf að ræða brtt. mikið. — Ég vek bara athygli á því, að reglan er óframkvæmanleg, þegar tveir flokkar hafa sama upphafsstaf. Það verður m. ö. o. að skíra. flokk, þegar þannig stendur á, af handahófi. Hv. þm. A-Húnv. sagði, að það gerði ekki svo mikið til, þótt Sósfl., sem héti nafni, sem byrjaði á s, hefði c áfram sem listabókstaf, því að hann hefði haft hann og í sumum málum hæfist nafnið á honum á c. (StJSt: Það eru kommúnistaflokkar.) Yfirleitt byrja ekki nöfn á lýðræðissósíalistaflokkum á c, heldur eru það kommúnistaflokkarnir, sem bera heiti, sem í mörgum málum byrja á c, en líka k. Í erlend heiti flokka þessara er því ekkert að sækja. Ég held þess vegna, að þessi brtt. hv. þm. A-Húnv. nái engan veginn tilgangi þeim í þessu frv. að eyða glundroða þeim og ruglingi, er stafar frá ákvæðum núgildandi kosningal. Vil ég því mega vænta þess, ef hv. þd. vill, að tilgangi frv. verði náð, að þá fallist hún ekki á brtt. hv. þm. A-Húnv.

Ég skal ekki gera aðrar brtt. hv. þm. A-Húnv. mikið að umtalsefni. Ýmislegt í þeim er vert athugunar. En þar er lagt til, að stórfelldar breyt. verði gerðar á kosningal., sem að vísu eru gölluð, og er ég sammála sumu. Hitt tel ég hæpið, að tími sé til þess nú í sambandi við þessa litlu leiðréttingu á kosningal., sem nauðsynlegt er að gangi fram sem fyrst, og ég tel enda ekki æskilegt í sambandi við þessa litlu leiðréttingu á l. að fara út í svo stórkostlega breyt. á kosningal. eins og gert er ráð fyrir í þessari brtt. Menn vita, að þessi mál eru e. t. v. viðkvæmari, en flest önnur mál. Og það er vitað, að till. um miklar breyt. á kosningal. mundu vekja miklar deilur hér á Alþ. Og litlar líkur eru til þess, að samkomulag næðist um þessa litlu lagabreyt., sem frv. er um, ef þessar brtt. ættu að ná fram að ganga. Það hefur verið um það rætt í sambandi við endurskoðun stjskr. íslenzka lýðveldisins, að kjördæmaskipunin og kosningafyrirkomulagið yrði tekið þar einnig til athugunar. Og ég tel það líka eðlilegt og e. t. v. mjög nauðsynlegt. Ég held þess vegna, að heppilegra væri, að afgreiðsla þessara efnis miklu brtt. frá hv. þm. A-Húnv. biði þar til sú heildarendurskoðun kjördæmaskipunarinnar og kosningalaganna fer fram, sem hlýtur að verða tekin til athugunar í sambandi við endurskoðun lýðveldisstjórnarskrárinnar.

Skal ég svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég fellst fyllilega á þá uppástungu hv. þm. A-Húnv., að hv. n., sem um þetta mál hefur fjallað, fái tækifæri til þess að fjalla um málið að nýju og taka til yfirvegunar þær brtt., sem fluttar hafa verið og hv. þdm. er nauðsyn á að fá nokkurt tóm til að átta sig á.