17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (3086)

131. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þessu frv. Það, sem hér er lagt til að ósk hæstv. fjmrh., er spor í alveg rétta átt. Það mun að vísu vera stigið vegna þess, að ríkissjóður sjálfur hafi orðið að grípa þarna inn í og orðið fyrir miklum útgjöldum. En eins og hæstv. viðskmrh. minntist á, álítur hann, að það kæmi til mála líka að hjálpa þeim, sem ríkissjóður hefur ekki getað hjálpað, en eiga kröfur á stofnlánadeildina, og væri ákaflega æskilegt, að það væri gert undir gangi þessa máls. Ég hef flutt frv. um breyt. á þessu stofnlánadeildarmáli, sem fór í þó nokkuð sömu átt, og ég held, að það væri æskilegt við meðferð málsins nú, að orðið gæti um það samkomulag í þd. að gera þetta nokkru rýmra, en þarna er. Ég vil í þessu sambandi benda á, að það er hæg og sanngjörn leið fyrir höndum til þess að auka það fé, sem stofnlánadeildin hefur til umráða. Hún er sú að ákveða í lögum vextina, sem seðladeildin tekur af stofnlánadeildinni. Eins og menn vita, lánar stofnlánadeildin út fyrir 2,5% vexti. Þegar seðlabankinn reiknar stofnlánadeildinni vexti af því, sem hann lánar henni, reiknar hann nú 2,4% vexti. Það þýðir, að það er 0,1% sem stofnlánadeildin fær til sín af þessu fé. Upphaflega þegar stofnlánadeildarl. voru rædd, var gengið út frá því, að þessi lán skyldu veitt úr seðladeildinni til stofnlánadeildarinnar með 1% vöxtum, seinna 1½%, þannig að ef það væri gert að ákveða vextina, sem seðladeildin reiknar stofnlánadeildinni, 1%, fengi stofnlánadeildin 1½% til sín af vöxtum þessa fjár, sem af 100 millj. kr. upphæð mundi nema 1½ millj. á ári. Með þessu móti mundi stofnlánadeildin öðlast umráð yfir nokkru fé, sem hún gæti notað m. a. til þess að standa undir skakkaföllum, sem ríkissjóður gæti orðið fyrir, þannig að það væri ekki nema eðlilegt, að deildin eignaðist nokkurt fé, sem hún gæti notað til þess að standa undir slíku, og enn fremur fengi hún þarna nokkurt fé til útlána. Þetta væri mjög sanngjarnt. Ég þykist vita, að sparisjóðsdeild Landsbankans greiði ekki svona háa vexti af því fé, sem hún fær frá seðlabankanum. Stofnlánadeildin er á sinn hátt hluti úr Landsbankanum eins og sparisjóðsdeildin og hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Það er því ástæðulaust að fara með hana sem nokkurt stjúpbarn Landsbankans. Að minnsta kosti kærði Landsbankinn sig ekkert um að sleppa henni, en vildi heldur hafa hana hjá sér en í öðrum bönkum. — Ég vildi því, að ákveðin yrði í l. viss prósentutala, sem ætti að reikna stofnlánadeildinni.