17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (3087)

131. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Hæstv. viðskmrh. gat þess, að nokkur fleiri skip en þau, sem ríkissjóður hefði hlaupið undir bagga með, hefðu ekki fengið stofnlánadeildarlán, skip, sem þó lá fyrir skýlaust loforð um, að fengju stofnlánadeildarlán og nytu þeirra hagstæðu kjara, sem fólust í þeim lánum. Ég vil aðeins undirstrika það við þá n., sem nánar fjallar um þetta mál, að hún taki þetta atriði til athugunar, því að eins og kom fram bæði í ræðu hæstv. viðskmrh. og í ræðu hv. 2. þm. Reykv. (EOl), þá er engin sanngirni í því, að þessir aðilar, sem einskis stuðnings hafa notið frá ríkissjóði vegna þeirrar brigðmælgi, sem þeir hafa orðið fyrir, verði hafðir út undan, þegar að því kemur að skapa nýja möguleika til að standa við þau loforð, sem upphaflega voru gefin.