24.04.1950
Neðri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (3112)

143. mál, skáldalaun rithöfunda og listamanna

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég læt aðeins fáein orð fylgja þessu máli úr hlaði, þar eð hv. þdm. er málið þegar kunnugt, sökum þess, að það var flutt í sömu mynd á síðasta þingi. Aðalefni frv. er það, að gert er ráð fyrir, að heimilað verði að veita 12 skáldum heiðurslaun, allt að 18 þús. kr. Því fé, sem veitt kann að verða til skálda og listamanna þjóðarinnar, að heiðurslaununum frádregnum, skal skipta í 9, 6 og 3 þús. kr. launaflokka. Í frv. er einnig gert ráð fyrir því, að þau skáld og listamenn, sem hlotið hafa heiðurslaun í 5 ár í röð, skuli hljóta styrkinn ævilangt og skipi þeir listarráð eða akademi, er sé menntmrn. til ráðuneytis í listamálum og úthluti heiðurslaunum, hins vegar úthluti menntamálaráð hinum launaflokkunum, svipað og verið hefur.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en vænti þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.