02.05.1950
Neðri deild: 94. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (3119)

148. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. þm. Siglf. er ekki hér viðstaddur nú, svo að ég verð að hafa stutta framsögu fyrir þessu frv., og er ekki þörf að orðlengja um þetta mál, þar sem hv. þm. ætti að vera það svo kunnugt, þar sem það hefur verið helzta deilumál undanfarinna þinga. En fiskábyrgðin var, sem kunnugt er, afnumin í vetur, er gengislækkunarfrv. var samþ. Við hv. þm. Siglf. fluttum þá till. um, að ábyrgðinni yrði haldið áfram, því að annars mundi útvegurinn stöðvast, en þá vildi meiri hlutinn ekkert sinna því. Alþfl. og sósíalistar stóðu að till., en Framsfl. og Sjálfstfl. voru á móti. Við fluttum einnig till. um að lögfesta 93 aura verð sem lágmarksverð, en það var í samræmi við það, sem hagfræðingar ríkisstj. höfðu reiknað út, að fást þyrfti fyrir fiskinn, ef menn ættu að verða skaðlausir af gengislækkuninni. Hvað hefur svo komið í ljós? Það hefur komið í ljós, að loforð þau, sem fólust í grg. fyrir gengislækkunarfrv. um 93 aura verð, hafa brugðizt algerlega og verð ekkert hækkað úr 75 aurum og sums staðar lækkað. Hins vegar hefur það gerzt, að vörur, sem útgerðarmenn þurfa að kaupa, hafa hækkað í verði, olía um 45%, veiðarfæri og allt annað. Gengislækkunin hefur því einungis lagt byrðar á bátaútveginn, hækkað verð á nauðsynjum, en látið framleiðsluvörurnar annaðhvort standa í stað eða lækka í verði, og er það allt annað en lofað var, þegar verið var að samþykkja gengislækkunina. Við sósíalistar sögðum þá, að svona mundi fara, en stjórnarflokkarnir mótmæltu því. Við sögðum, að gengislækkun væri röng aðferð til að bæta úr vandræðunum og auk þess væri verðfall erlendis fram undan, en stjórnarflokkarnir vildu ekki að heldur sinna því, en lækkuðu aðeins gengið og hækkuðu með því móti allar nauðsynjar bátaflotans. Ég býst því ekki við því, að bera þurfi hér frekar fram siðferðislegar forsendur fyrir því, að ríkinu beri skylda til að grípa hér inn í. Ríkisstj. tekur gjaldeyrinn og hækkar allar nauðsynjarnar og lofar hærra verði fyrir fiskinn, og það verður að standa við það loforð, sem hefur verið gefið. Það er ekki hægt að grípa þannig inn í atvinnulífið ábyrgðarlaust. Það er ekki hægt að hækka verð á veiðarfærum, olíu og öðrum nauðsynjum, en láta afurðaverðið standa í stað. Ríkisstj. verður að standa við það loforð um hækkað afurðaverð, sem hún hefur gefið. Ég veit, að spurt verður, hvort þetta þýði ekki nokkurra milljóna tap fyrir ríkissjóð. Slíkt er hugsanlegt, en það verður ekki komizt hjá að horfast í augu við erfiðleikana, ef taka á gjaldeyrinn frá framleiðendunum. Það verður að ráðast á verzlunargróðann, og þjóðnýting hans er óhjákvæmileg nauðsyn. Íslendingar hafa ekki efni á að halda uppi fjölmennri stétt, sem tekur einokunargróða af verzluninni. Og það er ekki hægt að halda áfram eins og í vetur með gengislækkuninni. Allur grunnurinn er að bresta, og ef enginn útflutningur verður, þá verður heldur enginn innflutningur. Því er það aðalinntak frv. þessa, að frá 20. marz og til ársloka 1950 verði tryggt 93 aura verð fyrir nýjan fisk og sambærilegt verð fyrir hraðfrystihúsin og saltfiskframleiðendur. Ég þykist vita, að ástandið sé svo hér sunnanlands, að margir bátar hefðu hætt veiðum, þegar gengið var lækkað, ef ekki hefði verið orðið svo áliðið vertíðar, að það borgaði sig betur að reka bátana með tapi en hætta, en úti um allt land er hætt við því að verði alls engin útgerð, ef fiskábyrgðin verður ekki í gildi, og það er stórkostlegt þjóðhagslegt tjón, ef ekki verður gert út. Það er þjóðhagslegt tap, þegar fellur niður vinnudagur eða ekki er farið í róður, en ekki hitt, hverju hver einstakur þegn græðir eða tapar á. Við verðum að gera þær ráðstafanir, að þeir, sem að framleiðslunni vinna, geti stundað störf sín, en ég er hræddur um, að útgerðinni á Norðurlandi, Vesturlandi og Austurlandi sé teflt í tvísýnu, ef þetta frv. verður ekki samþ. Það hefur dregið úr áhrifunum, hve veiði hefur víða verið léleg, en þótt vertíðin hafi brugðizt víða, þá er samt erfitt að selja aflann. — Ég vil svo vonast til, að þó að meiri hluti Alþingis væri á móti fiskábyrgðinni, þegar gengislækkunin var samþ., þá hafi þeir nú séð, hvað þetta þýðir fyrir útgerðina, og vilji því nú fallast á það, sem þeir vildu ekki sinna þá. Það hafa komið áskoranir frá sjómönnum og útgerðarmönnum víðs vegar að af landinu um að taka aftur upp fiskábyrgðina, og frá mönnum af öllum flokkum, og vil ég þar nefna áskorun frá bæjarstjórn Vestmannaeyja. Ég vænti þess því eindregið, að frv. verði rækilega athugað, áður en þingi lýkur. Þá vil ég óska þess, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn. Fiskábyrgðarlögin hafa alltaf verið í þeirri n. vegna hugsanlegra útgjalda, sem af þeim stafa, þó að eðlilegra væri, að þau væru í sjútvn.