22.11.1949
Efri deild: 3. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (3128)

4. mál, vegalagabreyting

Flm:

(Hannibal Valdimarsson): Herra forseti. Undanfarin ár hafa vegalögin ekki verið endurskoðuð, og má því ætla að, að því líði, að breyt. verði þörf. Þess vegna er þetta frv. flutt. Þar er um þrjár breyt. að ræða, allar fremur smávægilegar. Eins og l. eru nú, er Snæfjallastrandarvegur að Bæjum í þjóðvegatölu, en hér er lagt til í a-lið, að í þjóðvegatölu verði áframhaldandi vegur til Sandeyrar. Sú breyt., er felst í b-lið, er, að af Ögurvegi frá Eyri í Ísafirði verði tekinn í þjóðvegatölu vegur um byggðir Reykjarfjarðarhrepps, með afleggjara að skólasetrinu Reykjanesi, því næst um Þúfnadal, með afleggjara í Vatnsfjörð, til Skálavíkur í Mjóafirði. Þessi breyt. er gerð til þess, að hægt sé að leggja vegakerfið um hinn einangraða Reykjarfjarðarhrepp, í stað þess að vegurinn liggi að fjallabaki að stórbýlinu Ögri í Ögurhreppi. Þá er í þriðja lagi lagt til, að tekinn verði í þjóðvegatölu vegur frá Súðavík fyrir botn Álftafjarðar um Sjötúnahlíð og Kambsnesháls inn fyrir Seyðisfjörð að Hesti í Hestfirði.

Með frv. eru þrjú skref stigin til þess að koma á akvegasambandi um þéttbýlustu svæði Inndjúpsins. Það verður að bíða betri tíma að gera vegakerfið samfellt, og tel ég ekki ástæðu til að leggja til, að svo stórt spor verði stigið nú. Með frv. er aðeins farið fram á það nauðsynlegasta, sem verður vegagerðarverkefni á næstunni.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og samgmn.