25.11.1949
Efri deild: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (3132)

8. mál, iðnaðarmálastjóri og framleiðsluráð

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Á þinginu 1947 flutti ég frv. til laga um iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð. Lét ég því fylgja allýtarlega grg., og get ég að nokkru leyti vísað til hennar nú, eins og hún liggur fyrir í þingskjali, um tilgang frv. og mun láta nægja að ræða meðferð á þinginu 1947 og síðan. Afgreiðslan á því í iðnn. Ed. var sú, að nefndin klofnaði í meiri hl. og minni hl., og gaf meiri hl. út nál. í febrúar 1948 og lagði til, að frv. yrði samþykkt með nokkrum breytingum, en minni hl. gaf einnig út nál. og lagði til, að frv. yrði afgreitt með rökstuddri dagskrá, svo hljóðandi (með leyfi hæstv. forseta) :

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti endurskoða þetta frv. með hliðsjón af lögum um rannsóknaráð ríkisins og lögum um fjárhagsráð og leggi síðan fyrir næsta Alþingi frv. um heildarskipun iðnaðarmálanna og aðstoð ríkisins við þau, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Var dagskrá þessi samþ. og málið þannig fengið í hendur ríkisstjórninni til frekari athugunar. Frv. var sent ýmsum aðilum til umsagnar, m. a. rannsóknaráði ríkisins, er mælti með því, að það næði fram að ganga, og taldi áriðandi, að málum yrði skipað með þeim hætti sem þar var gert ráð fyrir. Rannsóknaráð lagði að vísu til nokkrar breytingar, en þær eru ekki veigamiklar og raska í engu grundvallarstefnu frv. Þá var frv. einnig sent Félagi íslenzkra iðnrekenda til umsagnar, og mælti það sömuleiðis með því og gerði aðeins till. um óreglulegar breytingar, sem ekki raska meginefni. Segir svo í umsögn félagsins (með leyfi hæstv. forseta):

„Vér lítum svo á, að ef frv. um iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð nær lagagildi, muni verða rutt úr vegi mörgum þeim hindrunum, sem í athugaleysi eða að yfirlögðu ráði hafa verið lagðar í götu íslenzks iðnaðar. Þess vegna leggjum vér til, að frv. verði samþykkt.“

Fleiri aðilum var frv. sent til umsagnar, svo sem Búnaðarfélagi Íslands, er einnig lagði til, að frv. yrði afgreitt.

Nú hefði mátt ætla, þegar jafnmargar stofnanir höfðu lagt til, að málið næði fram að ganga, að það hefði mætt meiri skilningi og samúð hér í þessari hv. þd. en raun varð á. En að vísu er þó skylt að hafa í huga, að n. lagði til, að frv. yrði samþ. Ég átti margsinnis ýtarlegt tal um það við hæstv. samgmrh. á síðasta Alþ., og svaraði hann jafnan, að málið væri í undirbúningi og mundi áreiðanlega verða tekið fyrir á þinginu. Þau loforð voru hins vegar ekki efnd. En vegna þeirra loforða bar ég málið ekki fram á síðasta þingi. Hins vegar hlaut ég að bera það fram nú.

Þetta mál var mjög aðkallandi 1947, og það er enn meir aðkallandi nú. Við sáum það bezt af umræðum ráðherranna í Sþ. í gær, að ef þetta mál hefði verið orðið að lögum, hefði það hjálpað mjög til að leysa þann vanda, sem þar var rætt um. Ég verð því að segja, að ég á erfitt með að skilja, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur getað látið undir höfuð leggjast í heilt ár að framkvæma vilja allra stofnana og félaga, er lýst hafa sig fylgjandi þessu frv.

Ég sé, eins og ég tók fram áðan, ekki ástæðu til að rekja efni frv., en læt mér nægja að vísa í gögn frá þinginu 1947 og nál. meiri og minni hl. iðnn. Vænti ég þess, að málinu verði að loknum umræðum vísað til iðnn. og hún kynni sér nákvæmlega öll gögn, er að því lúta, og komi þá einnig þau gögn henni í hendur frá hæstv. ráðh., er hann kann að hafa aflað síðan málið kom í hendur hæstv. ríkisstjórnar. Vænti ég þess, að hæstv. ráðh. hafi hér eitthvað að segja um málið, er upplýsi þann drátt, er á afgreiðslu þess er orðinn.