29.11.1949
Efri deild: 6. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (3138)

30. mál, stóríbúðaskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki búizt við, að 1. flm. byrjaði á því að lýsa yfir, að ekki þyrfti að fara mörgum orðum um þetta mál. Ég hefði frekar búizt við að heyra af munni hennar mörg orð um þetta mál. Mér skilst, að hér sé á ferðinni mjög mikið nýmæli, er skapi nýja stefnu í félagslífi þjóðarinnar, og lét mér ekki detta í hug, að flm. hefði tekið á sig þá ábyrgð að flytja slíkt mál nema ræða það allýtarlega. Ég vil þó nota mér það vald, sem ég hef, til að ræða nokkuð einmitt þessi atriði, sem hún óskar ekki eftir, að verði rædd við þessa umr.

Ég vil þá í fyrsta lagi leyfa mér að benda á, að jafnvel grg. er merkilega ómerkileg í sambandi við svona stórt mál, mjög fáar upplýsingar um það, hvað liggi til grundvallar, og sáralítil rannsókn, sem hefur farið fram, áður en slíkt mál er borið undir þingið. Vildi ég því bera hér fram nokkrar fsp. til flm., í trausti þess, að hún hafi kynnt sér þetta mál, að hún hafi ekki eingöngu flutt það af þjónkun við sinn flokk, heldur hafi raunverulega gert sér grein fyrir, hvort sé eðlilegt og hollt, að málið nái fram að ganga, þó að sú staðhæfing, að ekki þurfi að ræða málið, bendi í aðra átt. — Í fyrsta lagi: Hver er tilgangurinn með þessu frv.? Það kom raunar að nokkru fram, að aðaltilgangurinn væri sá að jafna húsnæðinu á milli fólksins. Ef það væri aðaltilgangurinn með frv., væri þá ekki eðlilegra að taka upp skömmtun á húsnæði, eins og á mörgu öðru í landinu? Eða hvað mundi hv. flm. segja, ef í stað þess að hafa skömmtun á kvenkjólum væru þeir stórkostlega skattlagðir. Ef það er aðaltilgangur frv. að miðla húsnæðinu jafnt á milli fólksins í landinu, fyndist mér eðlilegast að taka upp skömmtun sem væri miklu fljótvirkari leið. En þrátt fyrir öll húsnæðisvandræðin í landinu hefur sú leið ekki þótt fær undanfarin ár.

Ég vil spyrja hv. flm., hvort hún hafi gert sér grein fyrir, af hverju húsnæðisvandræðin stafa, eins og þau eru í dag. Veit hún, að þau stafa af hinum afar ranglátu húsaleigulögum, sem sett voru, því að annars væri ástandið miklu betra? Önnur ástæða til húsnæðiseklunnar í þessum bæ er sú, hve margir menn hópast hingað utan af landsbyggðinni, því að það þykir betra að lifa í Rvík, en annars staðar á landinu. Ég vildi gjarna vita, hvort flm. hefur kynnt sér þessar orsakir.

Ég held, að fyrsta ástæðan fyrir flutningi þessa frv. sé sú að ná á þann hátt fé í ríkissjóð, og hygg, að bezt sé að viðurkenna, að aðaltilgangur frv. er að ná svo og svo miklum tekjum í ríkissjóð, auk þeirra skatta, sem þegar eru fyrir í landinu, og er þá bezt að ræða það á þeim grundvelli, hvort bezt sé að taka þetta fé á þann hátt, sem hér er lagt til. Þá gefur flm. það upp sem meginástæðu, að styrkja eigi byggingarfélög, sem sinna byggingarstarfsemi. Ég geri ráð fyrir, að flm. sé ljóst, að húsnæðismálunum hefur hjá þessari þjóð verið bjargað til þessa dags aðallega á tvennan hátt. Annars vegar er það einkaframtakið, sem hefur tekið að sér að byggja yfir sig og aðra í þjóðfélaginu, tekið á sig það verkefni að byggja undir þeim lagafyrirmælum, sem gilt hafa í landinu á hverjum tíma. Hins vegar eru svo þeir, sem hafa notið einhvers styrks frá því opinbera til þess að byggja fyrir, en hafa ekki haft efni á að byggja yfir sig sjálfir. Í þennan síðarnefnda flokk húsa hefur svo það opinbera látið allmikið fé á hverju ári og gerir enn, og skilst mér, að nú sé tilgangurinn með þessu frv. hér að styrkja enn frekar þessa aðila, en þá má ekki heldur loka augunum fyrir því, að ef það þykir sjálfsagt að halda áfram að styrkja þessa aðila til þess að byggja yfir sig og sínar fjölskyldur með stórum fjárfúlgum úr ríkissjóði, sem ég er ekki á móti út af fyrir sig, þá má ekki loka augunum fyrir því, að hinir, þeir menn, sem hafa tekið að sér þetta hlutverk án þess að fá nokkurn styrk til þess, ættu sízt af öllum að verða fyrir barðinu á þessum l. Áhugi þessara manna minnkaði stórkostlega fyrir þau kverkatök, sem þeir voru teknir með húsaleigul.

Ég hygg, að það sé óhjákvæmilegt að athuga þetta mál, áður en það fer lengra, þó að hv. flm. telji ekki þörf á að ræða það. Hvað telur hún að skatturinn mundi nema miklu, ef frv. næði fram að ganga? Það er óverjandi að flytja svona inn í þingið án þess að minnast á, hvaða tekjur það gefi ríkissjóði, hverju það bjargi og hvaða skatta það leggur á þjóðfélagið. Hefur hv. flm. haft fyrir því að reikna út, hve mikill skattur þetta yrði árlega, ef frv. næði fram að ganga? Ég skal gefa henni nokkrar upplýsingar í þessu máli, áður en ég lýk máli mínu. Tökum t. d. íbúð, sem er 130 fermetrar, og þar búi hjón, sem hafa alið þar upp tvö börn, og hjónin vilji ekki flytja burt, þó að börnin séu farin. Þá eru eftir 60 fermetrar, sem greiddur yrði skattur af, og yrðu það 11 þús. kr. á ári. Þegar hér var frjálst að byggja húsnæði, var algengt, að menn byggðu 350 fermetra hús, og þegar um var að ræða t. d. hjón með 6–8 börn, gat það ekki talizt mjög mikið húsnæði. Það voru svona rétt nægilegar stofur niðri, borðstofa, setustofa o. s. frv., og svefnherbergi uppi fyrir fjölskylduna. Hugsum okkur, að öll þessi börn séu farin að heiman, sem ekki væri óeðlilegt, og eftir séu aðeins gömlu hjónin, þá mundu viðkomandi aðilar, ef frv. þetta næði fram að ganga óbreytt, þurfa að greiða 37 þús. kr. í skatt á ári. Veit flm. þetta? Hefur hún kynnt sér þetta? Ég efa það mjög og sömuleiðis, að flokkur hennar hafi kynnt sér það eða formaður hans. Það getur verið, að hv. flm. finnist þetta sanngjarnt, getur verið, en það er áreiðanlegt, að flm. fær einhverja erfiðleika um það er lýkur, áður en búið er að innheimta alla þá skatta í þessum bæ, og þyrfti ekki að hafa fyrir því að bjóða sig fram til alþingis- eða bæjarstjórnarkosninga, eftir að farið væri að framkvæma þessa löggjöf eins og hún er borin fram.

Þá vildi ég spyrja hv. flm., hvort hún hafi kynnt sér, hve mörg hús það eru í landinu, sem kæmi til með að greiða yrði skatt af, ef frv. þetta næði fram að ganga. Hefur hv. flm. ekki kynnt sér, hvort þetta snertir örfáa menn eða allan þorra íbúa þessa bæjar og landsins yfirleitt? Nú geri ég ráð fyrir, að ef frv. þetta nær fram að ganga, fari eins og um getur í grg., að menn fari að þrengja að sér, að menn vilji ekki borga 37 þús. kr. skatt af íbúð sinni til ríkisins, heldur fari að leigja öðrum. Hvað er þá næsta sporið? Að gerbreyta húsunum, því að í langflestum þessum húsum, sem eru tvær hæðir, er ekki íbúð nema á annarri hæðinni, því að eldhúsið er venjulega aðeins á neðri hæðinni, og yrði því að gerbreyta húsunum til þess að gera þau að 2–3 fjölskyldna íbúðum, til þess að gera þau að rússneskum íbúðum. En hefur þá flm. gert sér grein fyrir, hvað þarf til að gera hús í Rvík að rússneskum íbúðum? Þetta skilst mér að flm. hefði átt að kynna sér rækilega. Ég er alveg viss um, að það þarf milljónir í fjárfestingu til þess að breyta húsunum svo, að hægt sé að forðast skattinn. Ég vildi gjarna spyrja flm., hvað hún hugsi sér, ef þetta frv. nær fram að ganga og þessir aðilar, sem ég hef minnzt á, vildu ekki búa við þetta, að setja sig niður í tveimur herbergjum og láta húsaleigunefnd hirða það, sem eftir er af húsinu, og breyta öllu, — á hvers kostnað hefur flm. hugsað sér, að þær breytingar færu fram? Ég vildi gjarna fá svar við því hjá flm., hvort hún hugsi sér að leggja þetta á húseigendur eða þá að fá tryggingu fyrir því, að hin nýja húsaleiga yrði þannig, að allur skatturinn fengist útborgaður. Þá vildi ég enn fremur spyrja flm., því að ég geri ráð fyrir, að hún hafi kynnt sér eitthvað í þessu máli: Hvað hugsar hún sér í sambandi við íbúðir þess opinbera, t. d. húsnæði prestanna hér í Rvík? Það er kunnugt, að í því skyni hafa verið byggð á s. l. ári hús, sem eru 130 fermetrar. Nú komast þeir í þá aðstöðu að búa einir í húsinu, — er þá ætlazt til, að þeir sleppi við að borga þennan skatt, eða á að framkvæma hina rússnesku aðferð á þeim líka?

Ég sé, að það stendur hér í grg., að ekki sé unnt að áætla, hve miklu skatturinn muni nema, því að gera megi ráð fyrir, ef frv. verði að l., að ýmsir, sem eiga að greiða skattinn, muni taka þann kost að bjóða fram til leigu nokkuð af því húsnæði, sem þeir nú nota. Þetta held ég að flm. telji, að verði gangur málsins, en þá rekur hún sig á það vandamál, sem ég lýsti áðan, að þetta yrði ekki gert nema með stórkostlegri fjárfestingu, sem ekki er tryggð með þessu hér, síður en svo.

Ég hygg, að það þurfi að leita lengi til þess að finna lagafrv., sem hefur verið jafnlítið grundað áður, en það var sent inn í þingið og þetta hér. Og ég er viss um, að flm. hefur ekki sjálfur gert sér grein fyrir því, hvílíkum erfiðleikum menn kæmu til með að mæta við framkvæmd þessa frv., ef samþ. yrði.

Ég mun að sjálfsögðu fylgja frv. til n., hv. flm. hefur stungið upp á fjhn., og er það bein skýring á því, að hún telur þetta skattamál. Ef hún teldi það félagsmál, — húsnæðismál, þá ætti það að fara til heilbr.- og félmn. En þetta er skattpíningarmál, sem pínir út ákveðinn skatt, ranglátasta skatt af öllum ranglátum sköttum, þess vegna er bezt að viðurkenna það strax, að það er aðaltilgangur frv. Síðan á svo að nota þetta fé til að hjálpa mönnum til að byggja, sem hafa aðstoð frá ríkissjóði, en taka það af þeim mönnum, sem gerðu þessa skyldu sina, en höfðu enga aðstoð, — nú á að taka megintekjur þessara manna í skatta. Það er ekki furða, þó að hv. flm. segði, að það þyrfti ekki að ræða þetta mál. — Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða málið frekar á þessu stigi, en mun fylgja því til fjhn.