29.11.1949
Efri deild: 6. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (3139)

30. mál, stóríbúðaskattur

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Það er búið að dynja svo mikið á mér af spurningum, að ég get ekki svarað helmingnum af þeim. Þó langar mig til að segja það, að ég hef heyrt hv. þm. Barð. flytja hér frv., og efast ég um, að hann hafi þá gert jafnmiklar kröfur til sjálfs sín eins og hann gerir til mín nú. Hv. þm. kom með fyrirspurn varðandi 3. málsgr. 4. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, að ef húsnæði leigist ekki, þá sé húseigandi undanþeginn skatti, fyrir eitt ár í senn. Það vill nú svo til, að hann svarar sér sjálfur, jafnframt því sem hann leitar upplýsinga, með því að lesa frv. yfir, en hann hefur sennilega ekki gert það fyrr, en í augnablikinu. Hann svaraði helmingnum af þeim spurningum, sem hann var búinn að beina til mín, þar á meðal um breytingar á húsnæði. Það stendur ekkert um það í þessu frv., en það liggur í hlutarins eðli, að ef húsnæði leigist ekki í því ástandi, sem það er, þá kemur ekki til að greiða skatt af því. En ef hann vill gera brtt. um það, að það eigi að gera breytingar á húsnæðinu til að gera það íbúðarhæft, þá er það til athugunar. Annars snerist hv. þm. það mikið um sjálfan sig, að ég á erfitt með að taka upp þráðinn með honum. Hann segir: Hver er tilgangurinn? Hann svarar: Fá fé í ríkissjóð. — Hann er sjálfráður, hvort hann vill kalla það ríkissjóð, þar sem talað er um sérstakan sjóð, sem ætlaður er til lánveitinga, að hálfu til byggingarsamvinnufélaga og að hálfu til byggingar verkamannabústaða. Þetta er ætlað í ákveðnum tilgangi, en ekki í ríkissjóð. Ég held, að ef hv. þm. í rólegheitum hefði kynnt sér 4. gr. í sambandi við það, sem hann var að tala um fjárfestingu og breyt. á húsum, þá væri hann búinn að fá svör við því, sem hann þóttist ekki vita. Hann svarar sér líka sjálfur með því, sem stendur í grg., hve miklu skatturinn mundi nema. Hann sagði, að þessir menn hefðu tekið að sér af eigin rammleik það hlutverk, sem byggingarsamvinnufélög og þeir, sem standa að verkamannabústöðum, fá styrk til. Ég sé ekki, að það sé svo mikið hlutverk, ef menn hafa aðstöðu til að byggja yfir sig, kannske 2 manneskjur, 6–7 herbergja íbúð, að það sé sérstaklega þakkarvert. — Svo var hann að minnast á húsaleigulögin og sagði, að þau væru óréttlát. Ég hef átt heima í þessum bæ yfir 20 ár og þekki líklega gang húsnæðismálanna eins vel og hann, og hann þarf ekki að segja mér um húsaleigul. En það eru skiptar skoðanir um það, hverja stefnu eigi að taka, þar er kappsmál hans sú stefna, sem ég ekki fylgi.

Ég held ég sjái ekki ástæðu til að svara frekar á þessu stigi, fyrirspurnir hv. þm. voru það mikið út í bláinn, það verður ef til vill tækifæri til þess síðar. Það, að ég taldi ekki langra umræðna þörf hér nú, var vegna þess, að ég veit, að þetta mál hefur legið fyrir þinginu áður og það er því þm. kunnugt. En fyrst hv. þm. Barð. þekkir málið ekki betur en þetta, þá er sjálfsagt að ræða það eftir því sem honum þóknast.