07.12.1949
Efri deild: 8. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (3146)

45. mál, fiskimálasjóður

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að flytja langa framsöguræðu í þessu máli, en vil þó leyfa mér að fara um það nokkrum orðum.

Löggjöfin frá 1947 um fiskimálasjóð er viðurkenning á því, að ríkisvaldinu beri að gera sérstakar ráðstafanir til eflingar atvinnulífinu við sjávarsíðuna á þeim stöðum, sem ráða yfir mjög takmörkuðu fjármagni, en liggja hins vegar vel við fiskveiðum. Þessi viðurkenning, löggjafans hafði áður komið fram, og fer ég ekki nánar út í það að sinni. Hitt er svo degi ljósara, að ekki er þörfin minni nú en áður fyrir raunhæfar aðgerðir á þessum sviðum. Um það bera fjárhagsörðugleikar bátaútvegsins og skyldra atvinnufyrirtækja ljósan vott. Jafnframt er það augljós staðreynd, að þessi atvinnugrein, bátaútvegurinn, á stórmikinn þátt í öflun þjóðarteknanna. Í gildandi löggjöf um fiskimálasjóð eru sjóðnum einkum ætlaðir tvenns konar tekjustofnar: Útflutningsgjald af sjávarafurðum og beint framlag úr ríkissjóði, eftir því sem fé er veitt á fjárlögum, allt að 1 millj. kr. á ári í 10 ár frá gildistöku laganna. Enn fremur er heimild til lántöku allt að 10 millj. kr. Framkvæmd þessara laga hefði orðið verulegt spor í þá átt að beina auknu fjármagni til framleiðslunnar og dreifa því nokkuð til hinna ýmsu útgerðarstaða, en einmitt þetta tel ég vera eitt hinna stærri viðfangsefna í íslenzkum stjórnmálum, því að minni hyggju er hinn gífurlegi samdráttur fjármagnsins í höfuðstaðnum samhliða stórfelldri bindingu þess í hinu og öðru utan við framleiðsluatvinnuvegina eitt mesta óhappið í atvinnumálum þjóðarinnar. Ég tel, að sú óheppilega fjármálaþróun hafi átt drýgstan þáttinn í því, hversu stríðir fólksstraumar hafa legið utan af landi til höfuðstaðarins og frá framleiðslunni til annarra starfsgreina. Nú hefur farið svo, illu heilli, að lögin um fiskimálasjóð hafa ekki komið til framkvæmda nema að litlu leyti. Hið árlega framlag ríkissjóðs hefur ekki verið tekið upp í fjárlög, og lántökuheimildin hefur ekki heldur verið notuð. Frv. því, er hér liggur fyrir, er ætlað að tryggja framkvæmd l. að því er viðkemur hinu árlega framlagi ríkissjóðs. Þá eru í frv. ákvæði um rýmkun á lánskjörum um. Fer ég ekki nánar út í það að sinni, er vísa til grg.

Ég vil svo leyfa mér að leggja það til, að frv. verði vísað til hv. sjútvn. að umr. lokinni.