26.01.1950
Efri deild: 41. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (3148)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson) :

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið til meðferðar í sjútvn. síðan nokkru fyrir hátíðar, og leitaði n. umsagna stjórnar fiskimálasjóðs, Fiskifélags Íslands og Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Þessar umsagnir hafa nú borizt n., þó ekki umsögn frá stjórn L. Í. Ú.

Niðurstaðan varð sú í n., að hún gat ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins, og eru því fram komin tvö nál. Að áliti meiri hl. standa tveir nm. með mér, en form. n., hv. þm. Barð. (GJ), gefur út sérálit. Einn nm., hv. 2. þm. Árn. (ÉE), var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt í n. — Mér þykir rétt, án þess að ég ætli að fara að halda langa ræðu á þessu stigi málsins, að gera gleggri grein fyrir því en ég hef áður gert.

Viðvíkjandi því, hvort samþykkja beri þetta frv. með litlum breyt. eða fella það, verður að gera sér ljóst, hvort ástæða var til að flytja málið og hver þörf er fyrir þær ráðstafanir, sem frv. kveður á um. En ef spurt er um það, má eins spyrja, hvort þörf hafi verið fyrir löggjöfina um fiskimálasjóð, eins og hún var sett í upphafi, en þá þörf viðurkenndi Alþ. á sínum tíma. Starfsemi fiskimálasjóðs er aðallega og í fáum orðum sagt tvíþætt: Annars vegar beinir styrkir til nýjunga, skv. 4. gr. laganna, og hins vega.r viðbótarlánveitingar með hagkvæmum kjörum til þeirra aðila, sem búa við góð skilyrði til fiskveiða, en eru févana, skv. ákvæði 5. gr. Síðan þessi l. voru sett 1947, hafa nokkrar breytingar átt sér stað á aðstæðum almennt, en þær eru allar í þá átt, að þörfin fyrir starfsemi þessa sjóðs hefur vaxið. Þar hafa farið saman erfiðleikar framleiðslunnar og minni lánastarfsemi stofnlánadeildarinnar og fiskveiðasjóðs en gert var ráð fyrir í fyrstu. Þessar ástæður kalla á aukið fjármagn til fiskimálasjóðs, eða a. m. k. krefjast þær þess, að ekki verði dregið úr því fjármagni, sem gert var ráð fyrir við setningu l., að sjóðurinn fengi til umráða. Hér er farið fram á, að hin árlega greiðsla ríkissjóðs sé fest með lögum. Önnur ákvæði frv. eru um að mæta vaxandi lánaþörf og auknum erfiðleikum bátaútvegsins með hækkun einstakra lánveitinga úr sjóðnum og lækkun vaxta.

Ein helzta mótbáran, sem hreyft var gegn frv., var sú, að það væri mjög óviðeigandi að festa svona greiðslur með lögum. Það ætti ekki að ákveða greiðslur úr ríkissjóði til margra ára í senn. Mér þykir rétt að fara um þetta nokkrum orðum. Ég minni fyrst á það, að þetta atriði er einmitt mjög venjulegt í löggjafarstarfi síðustu ára. Ég skal aðeins tilnefna tvö eða þrjú atriði. Ef litið er í ríkisreikningana 1947, eru greiðslur vegna jarðræktarl. hátt á fjórðu milljón króna, Og ég hygg, að ekki leiki á tveim tungum, að mestur hluti þessara greiðslna sé samkv. bindandi ákvæðum l. Á sama reikningi er greidd vegna ýmissa bygginga í kauptúnum og kaupstöðum rúmlega 1 millj. árlega, allt samkv. bindandi lagaákvæðum. Þá er enn fremur með l. frá 1946 um landnám og nýbyggðir í sveitum gert ráð fyrir vissu framlagi árlega í 10 ár. Af þessu sést, að greiðslur til fleiri ára eru alls ekki svo óalgengar. — Í öðru lagi lít ég svo á, að þetta sé síður en svo fordæmanlegur siður, heldur ætti hann að tíðkast í fleiri málum. Ég álít, að Alþingi eigi ekki að þjarka um sömu greiðslurnar á fjárlögum ár eftir ár. Það er áreiðanlega full þörf á því að gera skarpari skil eða draga gleggri markalínur á milli löggjafar og framkvæmda. En það er nú önnur saga. — Í þriðja lagi er þetta ákvæði um fastagreiðslur til fiskimálasjóðs rökrétt, ef litið er á það, að sjóðurinn innir af hendi greiðslur vegna sjávarútvegsins samkv. 4. gr., sem eru þannig vaxnar, að sýnigt er, að þar verður þörf mikils fjármagns um ófyrirsjáanlegan tíma. Sama má segja um lánveitingar sjóðsins samkvæmt 5. gr. l., ef það mál er skoðað nokkru nánar.

Í skjóli ranglátra verzlunarhátta og í sambandi við margt fleira af líku tagi hefur skapazt það ástand í þessu litla þjóðfélagi, að fjármagnið hefur sópazt af landsbyggðinni til höfuðstaðarins. Þetta ástand tel ég þjóðarógæfu, og það hefur ekki skapazt á fáum árum, heldur hefur verið að þróast um langan tíma. M. a. vegna þessa tel ég rétt að binda þessar greiðslur, sem vega eiga á móti þessari þróun að nokkru, við mörg ár, en ekki aðeins eitt.

Að lokum þetta: Ég tel, að frv. eigi fyllilega rétt á sér og óumdeilanleg þörf sé á því að styrkja báða aðalþætti sjóðsstarfseminnar. Hins vegar má auðvitað deila um það, hvernig úr eigi að bæta þeirri þörf, sem hér um ræðir, og kemur þar margt til greina, sem ég fer ekki út í að sinni.

Um brtt. þær, sem meiri hl. n. flytur, get ég verið fáorður, en þær eru þess efnis í stuttu máli, að haldið skuli hámarksákvæði, 150 þús. kr., til þeirra aðila, sem fengið hafa full lán úr stofnlánadeildinni eða fiskveiðasjóði.