28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (3196)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Það kennir dálítils misskilnings hjá frsm. minni hl., þar sem hann virðist vera þeirrar skoðunar, að í frv., eins og það liggur nú fyrir Alþ., sé fiskimálasjóðsstjórninni gert að skyldu að hækka hámarkslán úr sjóðnum. Ég hef nú ekki getað fundið þetta út úr frv. Hins vegar stendur, að lánin megi ekki fara fram úr 350 þús. kr. Ég sé ekki, að þetta sé neitt hættulegt. Þetta er raunar hækkað frá því, sem áður var. En þar sem búið er að lofa nú þegar 25 fyrirtækjum lánum úr sjóðnum, með bréfi fiskimálasjóðsstjórnarinnar dagsettu í desember, og engin af þeim lánveitingum er hærri en 150 þús. kr., þá er auðséð, að búið er að ákveða hámark lánanna til alllangs tíma úr sjóðnum. Það er þess vegna mesti misskilningur hjá hv. þm. N-Þ. (GG), ef hann heldur, að það muni á einhvern hátt draga úr möguleikum þeirra, sem þegar eru búnir að fá loforð fyrir lánum, ef þetta ákvæði yrði samþ. eins og það liggur fyrir í frv. Nú, ef gera má ráð fyrir, að þetta frv. nái fram að ganga, þá lítur út fyrir, að tekjur fiskimálasjóðs, eins og þær voru fyrir gengisbreytinguna, yrðu um 2½ millj. kr. á ári. Ef við gerum ráð fyrir, að þessar tekjur standi í stað eftir gengisbreytinguna, mundi fiskimálasjóður hafa til lánveitinga á árí, með l. eins og hér er lagt til, að þeim verði breytt, um 1 millj. kr., en með bréfi dags. 29. jan. 1949 telur fiskimálasjóðsstjórnin upp 25 fyrirtæki, sem búin eru að fá loforð fyrir lánum, er nema 2.661.000 kr. Það mundi þýða, að þótt þessi takmörk yrðu sett í lagafrv., gæti fiskimálasjóðsstjórnin uppfyllt þessi loforð á þessu ári og tveimur næstu. Það er þess vegna alls ekki um það að ræða, eins og hv. þm. N-Þ. vildi láta líta út, að með lagafrv. sé verið að gera fiskimálasjóðsstjórnina ómerka að þeim loforðum, sem þegar er búið að gefa. Það er ákaflega fjarri lagi, að verið sé að binda að öðru leyti hendur fiskimálasjóðsstjórnarinnar með þessu frv., en hinu vildi ég ekki leyna, og ég held, að hv. þdm. þurfi að gera sér það ljóst, að eins og fiskimálasjóðsstjórnin hefur hagað sér, er ekkert til að leggja í fiskirannsóknir, sem eru vissulega enn þá nauðsynlegra atriði fyrir alla landsmenn, en þótt eitt til tvö hundruð þúsund kr. séu lagðar í eitthvert hraðfrystihús, sem kannske er ekki hægt að starfrækja, vegna þess að ekki er hægt að selja hraðfrystan fisk og ég hygg, að mörgum þeim stöðum, sem búið er að lána í hraðfrystihús, sé gerður ógreiði með því, því að það er auðséð, að á næstu árum verður erfitt að selja nema nokkurn hluta af þeim fiski, sem hægt er að frysta í þeim frystihúsum, sem þegar eru fyrir. Fiskimálasjóði var í upphafi ætlað miklu stærra starfssvið, en lánastarfsemi, þó að hann hafi horfið algerlega inn á það svið, sem verður að fullyrða, að sé gersamlega brot á þeirri grundvallarhugsun, sem lá á bak við lagasetninguna um fiskimálanefnd og fiskimálasjóð, en að báðum þessum lagasetningum hef ég staðið verulega, einkum l. um fiskimálanefnd, og hygg, að ég geti þar talað um af meiri þekkingu en hv. þm. N-Þ. Hv. þm. N-Þ. vildi ekki ræða neitt þörfina á fiskirannsóknum, og get ég skilið það, ef hann hefur þá skoðun, sem kom fram hjá honum, að fiskirannsóknir séu gersamlega þýðingarlausar.

Nú, fyrir utan það, sem ég hef hér nefnt um ástæðurnar fyrir því, að ekki hnígi rök að því að óttast þetta lagafrv., eins og það kemur frá Ed., að því er snertir starfsemi frystihúsanna og möguleika fiskimálasjóðsstjórnarinnar til þess að uppfylla þessi loforð, má benda á það, að í 11. gr. laga um gengislækkun, launabreytingar o. fl. er svo ákveðið í 3. mgr., að framleiðslugjald það, sem innheimt verður samkv. 1. mgr. 11. gr. l., skuli notað samkv. fyrirmælum fjárl. til lánveitinga til hraðfrystihúsa, sem byggð eða endurbyggð hafa verið á tímabilinu frá 31. des. 1945 til 31. des. 1949 og eigi hafa fengið lán úr stofnlánadeild sjávarútvegsins. Ef eitthvað kemur inn af þessu framleiðslugjaldi, má gera ráð fyrir, að þetta ákvæði létti nokkuð fyrir þeim hraðfrystihúsum, sem þessi hv. þm. ber fyrir brjósti. Ég hef á engan hátt viljað draga úr því, að nauðsynlegt sé að greiða fyrir félitlum fyrirtækjum úti á landi um fjárveitingar, en held ekki, að með þessum aðgerðum, sem þm. vill gera, skapist neinir möguleikar til þess að greiða almennt fram úr þeirri lánsfjárþörf. — Ég vil svo árétta það að lokum, að mjög brýn nauðsyn er á fiskirannsóknum, og ég álit, að smástöðum úti á landi sé ekki minni þörf á rannsóknum, en stærri stöðum.