28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (3197)

45. mál, fiskimálasjóður

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala langt mál út af því, sem hv. frsm. meiri hl. mælti hér síðast. En það er misskilningur hjá honum, ef hann hefur viljað halda því fram, að ég vildi ekki verja neinu fé úr fiskimálasjóði til rannsókna og tilrauna í þágu sjávarútvegsins. Því fer fjarri, og ég tók fram í ræðu minni áðan, að ég vildi engan veginn gera lítið úr þeirri starfsemi, þó að vera kunni hins vegar, að sumt af því, sem ráðizt hefur verið, í þá átt og alið til rannsókna og tilrauna á undanförnum árum, sé nú e. t. v. ekki eins mikils virði og hafi ekki borið eins mikinn árangur og æskilegt væri. Ég vil jafnframt vekja athygli á því, sem ég hef áður tekið fram og upplýst hefur verið hér, að stjórn fiskimálasjóðs hefur á undanförnum árum, síðan núgildandi lög um fiskimálasjóð voru sett, varið eigi alllitlum fjárhæðum í þessu skyni, jafnframt því sem hún hefur veitt þau lán, sem hér hefur verið rætt um. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef frá sjóðnum, hefur þessi upphæð til styrkja í þessu skyni numið á árinu 1947 219 þús. kr., 1948 390 þús. kr. og 1949 425 í þús. kr., eða samtals rúmlega 1 millj. á þessum þrem árum. Hv. þm. sagði, að ekki væri með frv. verið að gefa stjórn sjóðsins nein fyrirmæli um að lána hæst 350 þús. kr. Hann þurfti ekki að koma með þessar upplýsingar, því að mér er vel kunnugt um, að ákvæði frv. og ákvæði l. eru í heimildarformi, en heimildarákvæði l. um 150 þús. kr. hefur verið praktiserað svo, að lána allt að 150 þús. kr., og hlýtur því með þessu frv. að vera ætlazt til, að lánað sé allt að 350 þús. kr. Annars væri breytingin hrein markleysa. — Einnig sagði hv. þm. áðan, að stjórn sjóðsins hefði lofað að lána til 29 fyrirtækja samtals á 4. milljón kr. Ég hef nú um þetta nýrri upplýsingar en hv. þm. Ísaf., en samkvæmt þeim upplýsingum eru þessi lán komin yfir 4 milljónir og eiga að greiðast á árunum 1950–1952. Nokkur áttu að greiðast 1949, en þá voru tekjur sjóðsins ekki nægar til þess. Mun þar hafa verið um að ræða ca. ½ milljón, sem ekki var hægt að borga út á því ári, en hafði verið lofað þá. Ég held, að þrátt fyrir endurtekningar hv. þm. Ísaf. þá standi það óhrakið, að með því að hafa frv. óbreytt, þá yrðu tekjur sjóðsins minni en ella. Hv. þm. vildi leggja vaxtatekjurnar við, en skv. frv. eru vextirnir lækkaðir úr 4% í 2½%, svo að þær verða minni, en hann gerir ráð fyrir.

Hv. þm. minntist á framleiðslugjaldið, sem tekið var í lög nýlega, en nokkur hluti þess á að ganga í lán til hraðfrystihúsa, sem ekki hafa fengið stofnlán. Það veit nú enginn, hvað þetta gjald verður mikið, en þótt það kunni að verða svo sem vonir standa til, þá er ekki ætlazt til annars en það komi í staðinn fyrir stofnlán þau sem hraðfrystihúsin áttu að fá, svo að þá er eftir að sinna því hlutverki, sem fiskimálasjóður átti að annast, og mörgum þeirra nægir alls ekki að fá 1. veðréttar stofnlán, heldur þurfa því meira lánsfé, og því var gert ráð fyrir, að þau fengju síðara veðréttar lán úr fiskimálasjóði. Nauðsynin á lánveitingum úr þeim sjóði er því jöfn eftir sem áður, þótt þau fái stofnlán af framleiðslugjaldinu.

Hv. þm. hafði orð á því, að hann gæti talað af meiri þekkingu, en ég um tilgang Alþingis með því að setja lögin um fiskimálanefnd o. fl. 1934. Í þann tíð áttum við báðir sæti á hv. Alþingi, og var samvinna nokkur með okkur þá um þessi mál og fleira, og trúi ég því ekki, að hv. þm. hafi þá látið undir höfuð leggjast að miðla mér af þekkingu sinni, svo að ég ætti að vera sæmilega á vegi staddur um upplýsingar um tilgang Alþingis þá með setningu l. En mér þykir hv. þm. vera orðinn nokkuð svartsýnn, þegar hann ber sér það í munn, að varhugavert sé að framleiða hraðfrystan fisk hér á landi. Ég man eftir því, að ýmsir töluðu um það hér á árunum, þegar saltfisksmarkaðirnir brugðust, að líklega yrði aldrei saltaður fiskur hér framar, en þetta reyndist á annan veg, því að gömlu saltfisksmarkaðirnir eru ekki enn úr sögunni, síður en svo, og þótt nú sé erfitt að selja hraðfrystan fisk, þá er ekki af þeim sökum rétt að álykta, að hraðfrysting á fiski eigi sér ekki framtíð hér á landi. Má vera, að hér verði sama upp á teningnum og með saltfiskinn fyrrum, og ég skil ekki, að það geti í raun og veru verið skoðun hv. þm. Ísaf., að menn eigi að hætta við þessa framleiðslu, þegar þeir eru búnir að leggja í mikinn kostnað við að koma upp dýrum tækjum, af því að engin framtíð sé í því að hraðfrysta hér fisk. Þess er líka að gæta, að af sérstökum ástæðum getur sums staðar verið hagkvæmara að frysta fisk, en salta. Sumar fisktegundir eru verðlitlar í salt, en gefa gott verð, ef þær eru hraðfrystar, og þar, sem slíkar tegundir aðallega veiðast, eiga hraðfrystihús vissulega að vera. Lánsfé sjóðsins á ekki heldur allt að renna til hraðfrystihúsa. Meðal þeirra 29 fyrirtækja, sem lánum hefur verið lofað til, eru t. d. beinamjölsverksmiðjur, lifrarbræðslur og saltfisksverkunarstöðvar.

Ég skal svo ekki hafa um þetta öllu fleiri orð, en endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að tilgangurinn með frv. var að auka möguleikana á lánveitingum úr sjóðnum, þannig að lánin gætu orðið bæði fleiri og hærri, og er ekki sízt þörf á því nú, þar sem gera má ráð fyrir, að efni til þessara fyrirtækja verði dýrara, en ætlað var. Í stað þessa er frv. nú þannig, að fé það, er fiskimálasjóður á að hafa í þessu skyni, er minna en ella, svo að alls ekki er hægt að hækka lánin, heldur þvert á móti. Ofan á þetta bætist svo það ósamræmi í frv., sem ég hef áður bent á.