11.12.1949
Efri deild: 12. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í C-deild Alþingistíðinda. (3208)

60. mál, notendasímar í sveitum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja hér nokkur orð um þetta mál, með því að það fer ekki í neina n., þar sem ég hef tækifæri til að fara höndum um það. Í fyrsta lagi vildi ég gjarnan mega leyfa mér að benda á, að það er ákaflega varhugaverð braut, hversu mikil nauðsyn sem er fyrir hendi fyrir einu máli, að setja inn ákvæði, eins og gert er í 1. gr., um að binda fjárveitingavaldið. Ég held, að það sé þegar komið svo langt á þá braut, að það sé í alvöru rætt um að beita því, sem kallað hefur verið „höggormur“, til þess að fresta framkvæmd l. alveg, af þeim ástæðum, að ekki hefur verið hægt að uppfylla þau ákvæði l. Ég vil leyfa mér að benda á, að ég held, að frestað hafi verið að veita framlag til byggingarsjóðanna, þó að það standi alveg ákveðið í l., að láta skuli svo og svo margar millj. kr. á ári til þeirra. Þetta hefur verið gert vegna þess, að ekki hefur þótt fært að taka þessa liði upp í fjárl. undanfarin ár. Þetta ákvæði eitt, án þess að láta annað fylgja, gæti orðið til þess, að l. yrðu pappírsl. og gætu tafið fyrir því, sem hér er lagt til, að taka upp sérstaka liði í fjárl. fyrir sveitasíma. Ef hins vegar væri sett inn í frv., að það skyldi eftir ákveðnum leiðum taka inn í fjárl. tekjur á móti, þá er um annað mál að ræða. Það hafa hv. flm. annaðhvort ekki treyst sér til að gera eða þeir hafa ekki talið þess þörf, en ég teldi ákaflega mikils virði fyrir málið, ef það væri gert, og sér í lagi þegar vitað er, að þetta mál er ákaflega mikið aðkallandi, að sími komi sem fyrst á alla bæi á landinu. Þó að hins vegar Ísland sé orðið fremst allra landa um símalagningar út um dreifbýlið, þá raskar það ekki þeirri staðreynd, að það er varla nokkurt mál, sem snertir sveitirnar eins aðkallandi og að koma síma helzt inn á hvert einasta heimili sveitanna. Mér er kunnugt um, að ef sumir þeirra manna, sem hér um ræðir, mættu velja, hvort þeir vildu heldur veg eða síma, þá tækju þeir heldur síma. Svo mjög aðkallandi er þetta mál, að það er fyllsta nauðsyn að tryggja það, að þetta frv., ef að l. verður, verði annað og meira en tómt pappírsgagn. Og það verður náttúrlega ekki gert með öðru móti, en að finna um leið ákveðinn tekjustofn, þ. e. að setja inn í frv., að ákveðinn tekjustofn skuli vera fyrir hendi, einhverjar af tekjum landsmanna, og þá mundu hækka gjöld, sem þeirri upphæð næmi, jafnhliða, til þess að ná jafnvægi. Þetta finnst mér eiginlega meginatriði málsins.

Um kostnaðinn sjálfan skal ég ekki ræða á þessu stigi málsins. Ég geri ráð fyrir, að flm. hafi fengið upplýsingar um hann frá þeirri stofnun, sem hefur með þessi mál að gera. En þá skýtur eitthvað skökku við, ef þetta er allt, sem talið er hér, 25 millj. kr., og mig minnir endilega, að það liggi fyrir rannsókn á þessu máli, sem er ekki nema tveggja ára gömul, og að í þeirri áætlun sé upphæðin a. m. k. fjórfalt þetta. En þetta getur allt verið rétt, ef aðeins er tekinn sá liður, sem er í sambandi við lagningu síma inn á sveitabæina sjálfa. En sannleikurinn er sá, og það er mestur vandinn, að þegar lagður er simi inn á svo mikinn fjölda sveitabæja, þá er nauðsynlegt á sama tíma að fjölga aðallínunum til þess að geta tekið við innstreymi frá fleiri bæjum. Í því liggur mikill kostnaður, að endurnýja svo og svo mikið af símalínum um allt landið til þess að taka við samtölum frá bæjunum, sem hugsað er að leggja síma á í sveitum landsins. Ég veit ekki, hvort þessi kostnaður er meðtalinn í þessum 25 millj. kr. Sé hann tekinn með í þeirri upphæð finnst mér skyndilega hafa lækkað áætlunin í þessum efnum frá því, sem var fyrir tveimur árum. En sé það ekki, finnst mér nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að þær framkvæmdir verði gerðar og tillit tekið til þessa í kostnaðaráætluninni. Mér skilst, að ein af framkvæmdunum, sem liggi mest á að gera í sambandi við þessi mál, sé bygging stöðvarhússins í Hrútafirði. Eftir upplýsingum póst- og símamálastjórnarinnar þá hygg ég, að það sé eitt af meginatriðunum, sem þarf að framkvæma, til þess að hægt sé að auka verulega við símalínurnar í sveitunum á Norður- og Vesturlandi, að byggður sé fjölsími, sem gangi í gegnum þá stöð. Ef öll sú upphæð, sem til þess þyrfti, er þarna innifalin, þá er ekki ástæða til þess að hugsa sér að láta bændur, frekar en aðra, styðja símalagningarframkvæmdirnar með lánum frá sér. En ég hygg, að þessi kostnaður, sem ég síðast nefndi, sé ekki talinn með í þessari upphæð, en þá eru líka þrír fjórðu hlutar af erfiðleikunum alveg óleystir.

Hv. 1. þm. N-M. sagði, að hann treysti sér til þess að benda á ýmsar leiðir til sparnaðar á móti þessari upphæð. Það getur verið, að hann geti bent á þær. En það er ekki nákvæmlega það sama og að geta fengið meiri hl. Alþ. til að samþ. þær till. Ég skal leyfa mér að minna á, að á Alþ. í fyrra og þar áður og þar áður benti fjvn. á ýmsar leiðir til sparnaðar. Það komu fram frá n. 160 till. við afgreiðslu síðustu fjárlaga, sem flestar voru til sparnaðar. En margar af þeim till. mættu hreinni andúð, þó að það tækist á síðustu stundu að fá þær samþykktar, og alls ekki ugglaust, að í framkvæmdinni hafi orðið hagnaður af till. Ég treysti mér til þess að benda á leiðir til sparnaðar á fjárl., sem nemi miklu meiru en þessum 2,5 millj. kr., og þó að hv. 1. þm. N-M. væri samþykkur mér um þær allar, þá treysti ég mér ekki til að fá fyrir þeim meiri hl. á Alþ. Menn segja svo oft, þegar um slíka hluti er að ræða: Það er gott og sjálfsagt að spara, en það er bara ekki þetta og ekki heldur þetta, sem ég vil spara. — Og þegar hér fyrir ekki löngu í Sþ. var verið að ræða um till., sem mundi kosta ríkissjóðinn 12 til 15 millj. kr. á ári, þá veit ég ekki betur en að einn hv. framsóknarmaður hafi verið gramur yfir því að hafa ekki fengið að vera með í að flytja þá till., og ef sú till. nær fram að ganga, verður að sjá fyrir einhverjum tekjum þar á móti. Og eftir því, sem sá hv. þm. Framsfl. ræddi í sambandi við það mál, virðist hafa orðið veruleg skoðanabreyt. hjá þeim flokki í því efni sem um var að ræða, og sömuleiðis ef tekið er tillit til þess, sem hv. þm. Str. sagði þá við þær umr. En þessi krafa, sem þar var um að ræða, er ein af greiðslukröfunum úr ríkissjóði, sem liggja fyrir þinginu og verður að taka til greina, ef hún verður samþ. Ég álít hins vegar, að þessar 2,5 millj. kr., sem hv. 1. þm. N-M. hefur rætt hér um til símalagninga, eigi að ganga fyrir. En ef meiri hl. Alþ. verður á þeirri skoðun, að þessar 15 millj. eigi að ganga fyrir, þá verður það vitanlega svo að vera, en þá verða þessar 2,5 millj. kr. útundan, nema sett séu í fjárlagafrv. ákvæði um alveg ábyggilegan tekjustofn þar á móti.

Þá vil ég taka til athugunar það atriði, hverjir eigi að segja til um, hvernig framkvæmdunum í þessum símalagningum skuli hagað, og benda á, að ég tel till. frv. um það sízt til bóta. Mér finnst óviðeigandi, að menn, sem alveg eru utan þings kannske allir, ákveði, hvernig eigi að verja þessum 2,5 millj. kr., sem veittar væru árlega úr ríkissjóði til þessara símalagninga, en ráðh. eigi svo væntanlega að setja nafn sitt undir það. Ég álít, að þetta verði að heyra undir ráðh., svo lengi sem ekki er beint ákveðið um þetta af Alþ. á hverjum tíma. Mér er kunnugt um, að umræður hafa farið fram á milli póst- og símamálastjórnarinnar og fjvn. undanfarið um það, hvort ekki væri heppilegt að hafa annan hátt á ákvörðun þessara framkvæmda, ekki af því, að til Alþ. hafi í raun og veru komið svo miklar umkvartanir um neina misbeiting valds í sambandi við þetta á undanförnum árum, heldur af því, að ekki er ákveðið með l., hvar símalagningar skuli gerðar á hverju ári. Og ég álít kannske ekki óeðlilegt, að þetta væri ekki slitið alveg úr sambandi við þingið, heldur sett í samband við afgreiðslu fjárl. á hverjum tíma, og þá væri t. d. sá háttur á, í þessu sambandi, að póst- og símamálastjóri væri form. nefndar, sem færi með þessar ákvarðanir, en búnaðarmálastjóri og form. fjvn. á hverjum tíma væru hinir nefndarmennirnir. Mér þætti það miklu eðlilegri skipan þessara mála en það, sem gert er ráð fyrir í því efni í frv. Ég segi þetta ekki af því, að ég sé form. fjvn. af guðs náð, því að það veltur á hlutkesti eða fylgi, hver verður á hverju ári form. fjvn., en mér þykir þetta fyrirkomulag ekki óeðlilegt. Hitt þykir mér óeðlilegt, að þetta vald sé tekið af ráðh. Hann ætti að hafa úrskurðarvald um þetta, hvernig sem með þetta væri farið að öðru leyti. En það þótti ekki rétt að fara inn á þessa braut, því að það hefur verið reynt að taka til greina þarfir manna í þessum efnum, og ekki hefur um neina partisku þar verið að ræða, þó að ýmsir þykist afskiptir, en svo mundi alltaf verða, hverja skipan sem um væri að ræða í þessu efni yfirleitt.

Í sambandi við framlag til símalagninga á undanförnum árum þykir mér rétt að geta þess hér, að fjármálastjórnin hefur gert ítrekaðar tilraunir öll undanfarin ár, síðan ég kom í fjvn., til þess að lækka á hverju ári þetta framlag, og það allt niður í 300 þús. kr. Fjvn. hefur hins vegar alltaf haft þann skilning á því þessi árin, að þetta framlag væri eitt af því, sem ekki mætti minnka, þrátt fyrir ýmsa erfiðleika á afgreiðslu fjárl., og hefur þessu framlagi verið á undanförnum árum haldið uppi í 800 þús. kr., sem mér hefur skilizt á póst- og símamálastjóra, að væri mjög frambærilegt til þess að leysa aðkallandi mál í þessum efnum á hverjum tíma, — því að ekki er hægt að leysa þessi mál allt í einu, — og hins vegar nokkurn veginn nægilegt til þess að hafa nógan starfa fyrir þessa menn, sem við þetta starfa á ári hverju. En ef ætti að setja þetta framlag ríkisins upp í 2,5 millj. kr., þá mundi verða að taka til þessara starfa vinnuafl frá framleiðslunni og þá mundu um leið vera torveldaðir möguleikarnir til þess að afla fjár í ríkissjóð. — Ég set þetta ekki fram sem neina andúð á málinu. En ég vil ekki heldur, að leynt sé þeim erfiðleikum, sem svona fyrirmæli kunna að skapa, sem gætu orðið til þess, að máli því, sem þetta frv. á að stefna að, að leysa, væri ekki tryggður eins góður framgangur og til er ætlazt.

Hv. 1. flm. frv. minntist á kostnað við flutning á efni til símalagninganna. Annars eru skýr ákvæði í lögum um þetta. (PZ: Þau eru í reglugerð.) Já, í reglugerð, um það, að landssíminn skuli bera allan kostnað af flutningi efnisins á þá Eimskipafélagshöfn, sem er næst þeim stað, þar sem nota á efnið, en sveitirnar skuli bera þann kostnað, sem leiðir af því að dreifa efninu frá þeirri höfn og á staðina, þar sem það á að notast. En þetta hefur sjálfsagt átt nokkru betur við gömlu lögin, eins og þau voru framkvæmd, en þau nýju. En það hefur verið breytt út af þessu á stríðsárunum, vegna þess að Eimskipafélagshafnirnar hafa ekki verið svo miklar, og þar að auki eru enn fremur engar löggiltar Eimskipafélagshafnir á landinu. En það veldur sjálfsagt ekki miklum erfiðleikum, er snertir flutning á efninu.

Ef þessi lög, ef frv. verður samþ., eiga að vera eitthvað meira, en pappírslög, þá tel ég, að nauðsynlegt sé fyrst og fremst að athuga leiðir til tekjuöflunar á móti kostnaðinum, og að hins vegar sé vel athugað, hvort ekki sé gengið með þessu um of á vinnuaflið og það um of tekið frá framleiðsluatvinnuvegunum, ef framkvæmdirnar í þessum efnum eru meir en þrefaldaðar frá því, sem nú er. Og í þriðja lagi vil ég benda á, að ég tel alveg ótækt að setja fyrirmæli um það í l. að taka fram fyrir hendurnar á hinu valdamikla ráði, fjárhagsráði, en það yrði náttúrlega gert með þessum l., ef frv. væri samþ. eins og það er. Það má benda á, að samþykktir frá Alþ. eins og þál. um jeppabíla og landbúnaðarvélar o. fl. hafa verið aðeins pappírsgagn, vegna þess að það er ekki með þessu hægt að taka valdið af því ráði, sem hefur það að lögum, og er vafasamt, hvort hægt er í því efni með l. að kippa svona einum flokki innflutningsvara út úr, eins og gert er ráð fyrir í frv. Þar að auki er alls ekki trygging fyrir því, að 800 þús. kr. nægi í erlendum gjaldeyri til þessa innflutnings, sem hér er gert ráð fyrir (PZ: Eins og nú er). Það veit enginn, hvernig slíkt kann að breytast í framtíðinni.

Ég mun fylgja málinu til n. og tel rétt, að það fari í fjhn. vegna þess, að ég tel rétt, að í frv. verði sett ákvæði um tekjustofn, ef á að tryggja, að það verði nokkurt gagn að slíkum lögum.