12.04.1950
Efri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (3216)

60. mál, notendasímar í sveitum

Frsm. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég get nú ekki kannast við, að ég hafi sýnt nokkra óþolinmæði í sambandi við þetta mál, heldur þvert á móti sýnt mikla þolinmæði. Ég rakti áðan í ræðu minni gang málsins og get endurtekið, að það var tekið fyrir í n. 21. febr. og síðan 28. febr., þegar afgreiðsla þess fór fram. Ég get ekki gert að því, þótt ekki mættu nema þrír hv. nm. á fundi og tveir af þeim þremur gætu ekki tekið afstöðu til málsins. Það haggar því ekki, að nægilegur tími var til þess fyrir þá. Hvað það snertir, sem hv. 4. þm. Reykv. (HG) var að tala um, að málinu yrði nú frestað, til þess, að mér skildist, að n. athugaði málið á ný, vil ég benda honum og öðrum hv. þm. á, að hluti af n. hefur þegar athugað málið og tekið afstöðu til þess. Verður því að líta svo á, að n. sé klofin í málinu, og þá er það venja, að hvor hlutinn fyrir sig safni þeim upplýsingum og gögnum, sem hann telur þörf á. Þetta vil ég benda hv. þm. á, að bæði hann og aðrir hv. nm. verða að gera, ef málinu verður nú frestað.