12.04.1950
Efri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (3217)

60. mál, notendasímar í sveitum

Gísli Jónsson:

Forseti. Mér finnst nú ekki nema eðlilegt, að hæstv. forseti taki þetta mál nú á dagskrá, og tel veigalitlar afsakanir þeirra nm., sem ekki eru búnir að skila nál. sínu eða sínum. En ég vil nú segja nokkur orð um málið sjálft. — Ég vil þá fyrst taka undir það með hv. 4. þm. Reykv., að það er stórt spor, sem stigið er í fjárhagsmálum landsins með þessu frv., ef að lögum verður. Hér er farið fram á að meira en þrefalda þá upphæð, sem hingað til hefur verið ákveðin til þessara framkvæmda. Mér er kunnugt um, að a. m. k. síðan ég kom í fjvn., hefur n. óskipt alltaf reynt að fá framlagið til þessara mála eins hátt og mögulegt hefur verið á hverjum tíma, þrátt fyrir andstöðu ýmissa valdamanna. Fjvn. hefur gert þetta, því að hún hefur verið þess fullviss, að það er ekkert, sem er sveitafólkinu, sérstaklega á hinum afskekktari stöðum, eins mikil hjálp og síminn. En hér er farið fram á, að þetta framlag sé þrefaldað. Það er því ekki óeðlilegt, að fram komi till. um að ræða þetta við hæstv. fjmrh., áður en málið er afgreitt, og þekki ég illa hæstv. forseta, ef hann vill ekki verða við þeim tilmælum.

Hvað snertir einstakar greinar frv., þá finnst mér vera á þeim ýmsir ágallar. Ég vil benda á, að mér finnst það enginn Salómonsdómur, þótt ekki séu teknar ákvarðanir um, hvar leggjá skuli símann á þann hátt, sem segir í 4. gr. Það væri nefnilega alveg eins hægt að segja, að hv. Framsfl. ætti að hafa þetta á hendi. Og þótt hv. frsm. segði ekki, að pólitísk sjónarmið hefðu ráðið, er úthlutað hafi verið notendasímum hingað til, þá lét hann í það skína, með því að láta orð falla á þá lund. að ráðherrar eða aðrir valdamenn hefðu notað aðstöðu sína til þess að koma síma í sín kjördæmi. Það er nefnilega, eins og allir vita, varla til handhægari aðferð til atkvæðasmölunar en slíkt. — Ég get ekki heldur séð í frv., hver eigi að hafa úrskurðarvald, ef samkomulag næst ekki í þessari n. Ekki er það tekið fram, að það sé form. n. eða ráðherra, svo að það getur þá verið afl atkvæða í n. sjálfri eða þá símamálastjóri eða jafnvel búnaðarmálastjóri. Nei, ég held, með fullri virðingu fyrir þeim heiðursmönnum, sem frv. gerir ráð fyrir, að sitji í þessari n., að þá þyrfti að breyta skipun hennar. Svo er nú með þessu ekki nema hálft spor stigið, því að það þyrfti allt að 100 millj. kr. til þess að auka og endurnýja landssímalínurnar, sem notendalínurnar liggja frá, eftir því sem póst- og símamálastjóri upplýsir, til þess að ná settu takmarki. Hann minnist að vísu ekki á þetta í umsögn sinni til n., en segir þar þó, með leyfi hæstv. forseta, „að til þess að tryggja afrás hinna auknu símaviðskipta milli símstöðvanna innan sýslna eða landsfjórðunga er óhjákvæmilegt að auka samtímis notendasímalagningunni allmiklu við landssímalínurnar og veita einnig fé til þess.“ Og sannleikurinn er nú sá; að þegar búið er að hlaða svo mjög á landssímalínurnar eins og gert er ráð fyrir með þessu frv., þá verður að byggja upp nýjar og stærri.

Í 5. gr. er sagt, að þegar teknar séu ákvarðanir um lagningu notendasímans, þá skuli hafa hliðsjón af því, hvar mest sé vöntun símans. En þó er sagt síðast í gr., með leyfi hæstv. forseta: „Enn fremur skal leitast við að skipuleggja framkvæmdir eftir því, sem hentast þykir fjárhagslega.“ En þetta rekst nefnilega ákaflega oft á. Það hefur og orðið hlutskipti þeirra, sem erfiðast eiga og eru fjarlægastir, að fá ekki síma, þrátt fyrir hina miklu þörf sína fyrir hann. Ég veit ekki nema rétt sé að setja ákvæði inn í frv., þar sem lögð er á það sérstök áherzla, að leggja beri síma um þær sveitir, sem afskekktastar eru og minnstar samgöngur eru við, því að skiljanlega hafa þeir bændur mun verri aðstöðu, þar sem kannske einn eða enginn sími er í heilli sveit, afskekktri, heldur en þar sem nú eru t. d. fjörutíu símar. Mér sýnist því, að mjög vafasamt sé, að síðasti liður 5. gr. eigi að vera í frv., heldur ætti að taka það skýrt fram, að þau héruð, sem fjarlægust eru, ættu að ganga fyrir um símann. Svo hygg ég einnig, að 1. gr. frv. þurfi góðrar athugunar við.

En það, sem mér finnst vera mest til bóta í þessu frv., eru ákvæðin í 6. gr., þar sem ákveðið er, að sveitarfélögin sjálf megi bjóða fram lán til símalagningarinnar. Er ég þess alveg fullviss, að fjölmörg sveitarfélög mundu vera fús að lána ríkissjóði fé til þess að koma upp síma í viðkomandi sveit. En þá er ég kominn að því, sem ég minntist á áðan, að þetta er aðeins hluti af kostnaðinum, því að þetta fé er aðeins ætlað til þess að standa undir kostnaði af notendasímanum sjálfum og línum í sambandi við hann, en ekki til viðhalds og lagningar eða aukningar á landssímalínunum. En hvað sem ákveðið er um framlag til notendasímans, þá finnst mér ekki ástæðulaust að fá samþykkta heimild um, að símastjórnin mætti taka lán, eins og ákveðið er í 6. gr. þessa frv.

Nú vildi ég mega spyrja hv. frsm., hvort hann hefur ekki sem form. þeirrar n., sem hafði málið til athugunar, séð ástæðu til þess að spyrja póst- og símamálastjóra, hver sé ástæðan fyrir þeirri hlutdrægni í þessum málum, sem komið er inn á í grg. og hann lýsti í ræðu sinni hér áðan. Mér finnst það mikils virði fyrir okkur, sem eigum að greiða atkvæði um þetta hér í d., að fá þessar upplýsingar. Er það sök póst- og símamálastjóra sjálfs, eða einstakra ráðherra, eða þá hverra, að troðið er á rétti svo margra manna sem raun ber vitni? Þætti mér gott, ef upplýsingar fengjust um þetta, áður en þessari umr. lýkur, hvaða öfl það eru, sem hér eru á bak við. Ég býst varla við, að þeim hafi nokkuð verið ívilnað í sköttum, sem hafa orðið fyrir barðinu á þessu valdi.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta að sinni, en er fylgjandi málinu í höfuðatriðum og legg á það sérstaka áherzlu, að þeir, sem erfiðast eiga, fái fyrst símann. Aftur á móti get ég ekki fylgt því, eins og ætlað er í 1. gr., að ákveða með lögum, að stór upphæð í mörg ár fari í þessar framkvæmdir.