18.04.1950
Efri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (3227)

60. mál, notendasímar í sveitum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég benti á það við 1. umr. í sambandi við orð hv. þm. Barð. (GJ), þar sem hann talaði um, að erfitt væri að slá föstu fjárframlagi í þessu skyni, og virtist jafnvel halda, að slíkt væri ógerlegt; vildi hann og benda á, að það væri hæpið, að ríkissjóður gæti varið svo miklu fé sem frv. gerði ráð fyrir til símalagninga í sveitum, en eins og menn vita, er þar gert ráð fyrir 25 millj. kr. alls, sem skiptast eiga á 10 ár, og er þá allt miðað við það verðlag, sem þá var, — ég benti þá á, að ég teldi mega hugsa sér, að framlögum úr jafnvirðissjóði, sem myndast í Landsbankanum fyrir gjafafé til okkar, yrði varið til þess að standa undir útgjöldum í þessu skyni, t. d. til greiðslu á vinnulaunum. Þetta vil ég endurtaka nú. Það er sjálfsagt, þegar Alþingi fer að ráðstafa þessu fé, að það komi öllum landsmönnum til góða, en það verði vandlega forðazt, að það komi aðeins til góða einstökum landshlutum, og þá eru símaframkvæmdir. sem gilda fyrir allt landið, sem hér eiga að koma í fyrstu röð. Þetta þarf mjög að athuga, og tel ég, að e. t. v. ætti að breyta frv. svo, að á næstu 10 árum kæmi sími um allar sveitir landsins. Ég hef athugað, hvernig ástandið var í þessum málum í haust, og samkvæmt því er prósenttala þeirra bæja, sem hafa síma, í hinum einstöku sýslum sem hér segir: Gullbringusýsla 58%, Borgarfjarðarsýsla 76%, Mýrasýsla 62% (en þar hafa síðan verið lagðir símar og einnig í Borgarfjarðarsýslu), Hnappadalssýsla 27%, Dalasýsla 62%, Barðastrandarsýsla 57%, Vestur-Ísafjarðarsýsla 64%, Norður-Ísafjarðarsýsla 58%, Strandasýsla 92%, Vestur-Húnavatnssýsla 84%, Austur-Húnavatnssýsla 68% (þar hefur eitthvað verið lagt síðan í haust), Skagafjarðarsýsla 46%, Eyjafjarðarsýsla 27%, Suður-Þingeyjarsýsla 75%, Norður-Þingeyjarsýsla 56%, Norður-Múlasýsla 35%, Suður-Múlasýsla 46%, Austur-Skaftafellssýsla 64%, Vestur-Skaftafellssýsla 74%, Rangárvallasýsla 48% og Árnessýsla 42%. Svona er ástandið núna, en getur þó eitthvað lítillega hafa brenglazt, bæði af því, eins og ég sagði, að lagt hefur verið inn á nokkra bæi síðan þessar tölur voru fengnar, og einnig af því, að þessar upplýsingar hef ég gengið gegnum símstjóra úti um land, en það hefur komið fyrir, að þeir töldu eina jörð og síma á henni, þar sem fasteignamatið telur tvær jarðir og tveir bændur eru. En breytingar af þessum orsökum eru áreiðanlega fáar. Ástandið er því svona, og nú er sérlega mikil ásókn í síma, og get ég tekið undir það með hv. þm. Barð., að það er ekkert, sem fólkið úti um land sækist eins eftir og sími. — Nú getur það komið fyrir, að til þess að fá fé úr jafnvægissjóði til símaframkvæmda þurfi að breyta öðrum lögum, en það ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu, ef almennt fylgi er fyrir málinu. Ég teldi það æskilegt, að n., sem ekki hefur skilað áliti nema form., tæki málið aftur til athugunar og reyni, hvort hún geti ekki orðið sammála um að leggja það til, að ríkissjóður legði fram fé til þess að þessu verði lokið á næstu 10 árum og jafnframt að setja einhver ákvæði um það, hvernig verja skuli því fé, sem hér er lagt til hliðar í sjóð vegna gjafafjár Marshallaðstoðarinnar. Í þann sjóð mun koma á þriðja hundrað millj. kr. og eru nú þegar í honum á annað hundrað millj. kr., og að verja 2,5 millj. kr. til símaframkvæmda í 10 ár er sjálfsagt og ekkert eðlilegra, ef menn vilja láta þetta fé koma landsheildinni að gagni. Mælist ég því eindregið til þess, að nm. allir reyni að koma saman á fund og vona, að þeir geti komizt að niðurstöðu í þessa átt.

Út af hörðum deilum, sem hér hafa orðið um það, hverjir ættu að úthluta símunum ár hvert, þá get ég sem flm. sagt það, að hv. þm. Barð. má fyrir mér ráða þessu, ef því er slegið föstu hér á Alþingi, að sími sé kominn á hvern sveitabæ eftir 10 ár, því að þá er það hreint aukaatriði, hvort síminn kemur fyrsta, annað, þriðja, fjórða eða fimmta árið. Ég legg því enga áherzlu á, hverjir í úthlutunarnefndinni sitja, og þegar ég lagði til, að það yrðu formaður Stéttarsambands bænda og búnaðarmálastjóri ásamt símamálastjóra, þá var það aðeins af því, að þeir eru opinberir fulltrúar bænda, sem símana eiga að fá. Annað komst ekki að hjá mér, og mér datt ekki í hug, hvar í flokki þeir stæðu, enda er það ekkert aðalatriði, hverjir í úthlutunarnefndinni sitja, þegar búið er að slá því föstu, að þessu eigi að ljúka á 10 árum. Öðru máli gegnir um þetta, ef ástandið er óbreytt, svo að menn geti búizt við að fá ekki síma fyrr en eftir 25–50 eða jafnvel 60 ár. Það hefur verið fullyrt, að landssímastjóri ráði úthlutuninni, en ráðherra skipti sér ekki af þessu, en mér er persónulega kunnugt um það, að ráðherra hefur skipað svo fyrir, að síma skyldi leggja á vissa staði, svo að þegar hv. þm. Barð. heldur því fram, að ekkert pólitískt vald hafi ráðið þessu, þá vil ég endurtaka það, að ráðherra hefur fyrirskipað vissa hluti í þessum efnum, þvert ofan í vilja símamálastjóra. Þetta skal ég standa við og sanna, hvenær sem er. Ef hv. n. kæmi sér saman um, að þessu skuli lokið á næstu 10 árum, þá er sama um skipun úthlutunarn., því að það er ekkert aðalatriði úr því. Það væri eðlilegt, að þær þrjár eða raunar fjórar sýslur, sem orðið hafa aftur úr, gengju fyrir, ef það þætti hagkvæmt við framkvæmdirnar, því að það er höfuðatriði, að verkið verði ódýrt og haganlegt fyrir heildina. Af öllu því, sem ég hef nú sagt, leiðir það, að ég er alveg ósammála hv. 4. þm. Reykv. Ég er því alveg ósammála honum og botna ekkert í því, hvernig hann getur haft þetta sjónarmið. Mér finnst alveg dæmalaust, að maður, sem kunnugur er í dreifbýlinu, skuli telja meiri þörf á að hafa þrjá til fimm síma í einu húsi í Rvík, en að afskekkt sveitabýli fái þetta samband við umheiminn. Það er ofaukið mínum orðaforða að lýsa því óskaplega ranglæti og misrétti, sem hann vill þannig vera láta. Ég býst við, að hann þekki fjölskyldur á mörgum heimilum í Rvík, sem hafa marga síma, sinn í hverju herbergi. Og honum þykir miklu eðlilegra t. d., að bóndinn í Húsavík þurfi að fara alla leið til Borgarfjarðar til þess að ná í síma, en að það þurfi að flytja síma á milli herbergja í Rvík. Ég á engin orð til að lýsa þessu fjarstæða sjónarmiði og skal ekki fjölyrða um þetta. En ég vil eindregið óska þess, að form. n. geti fengið n. saman til þess að komast að æskilegri niðurstöðu og að umræðu verði þá jafnvel frestað í því skyni. Það vakti ekki fyrir mér að koma þessu máli á pappírinn aðeins. Það takmark verður að setja að koma býlum í sveit í símasamband á næstu tíu árum, og áreiðanlega verður sjóðnum ekki varið á neinn hátt betur.