18.04.1950
Efri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (3228)

60. mál, notendasímar í sveitum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins samkvæmt því, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, beina því til hæstv. forseta, hvort ekki muni rétt að fresta umr. í málinu og taka það aftur til n. Ég teldi heppilegt að gera það nú, fremur en að bíða hins, að taka ákvarðanir um þetta við 3. umr. Nú er kominn annar símamrh. en var, þegar nál. var gefið út. Og enn fremur leikur mér hugur á að heyra álit hæstv. fjmrh. Þá hafa að vissu leyti orðið veðraskipti hjá hæstv. 1 flm., sem eins og við mátti búast úr þeirri átt hafa orðið til góðs. Þetta þarf allt að athugast, og er ekki forsvaranlegt annað en n. komi saman til þess. Og ekki væri það óviðkunnanlegra, að n. gæti gefið út sameiginlegt nál. Þetta held ég væri nú það hyggilegasta, ef hæstv. forseti óskar á annað borð þessu máli góðs framgangs.

Mér heyrðist á hv. 1. flm., að hann væri að sumu leyti nokkuð á öðru máli en upphaflega. Um það skal ég ekki fjölyrða, en ég vil ítreka þau tilmæli mín til hæstv. forseta að fresta málinu, svo að það geti fengið athugun í n. og hægt verði að leita um það samkomulags að nýju. Við vitum nú t. d. betur en áður, hvernig horfir um fjárlög, og það virðist að öllu leyti rétt, að málinu verði frestað og n. fái það aftur til meðferðar.