21.04.1950
Efri deild: 92. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (3234)

60. mál, notendasímar í sveitum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að mér finnst litlu skipta um þessa nefnd og óskiljanlegur hugsunarháttur, sem lýsti sér hjá síðasta ræðumanni um þetta. Ég skal viðurkenna, að mér finnst óskiljanlegt, að embættismaður skuli geta lagt til núna, eins og ástandið er, að byggðar verði brýr, sem enga þýðingu hafa fyrir almenning í landinu, en ætlaðar eru bara til þess að leika sér á. Mér finnst óskiljanlegt, hvernig embættismaður getur leyft sér slíkt. Þetta er svo mikil fjarstæða. En ég skal samt koma á móti þessum mönnum og hjálpa þeim til þess að koma 4. gr. út núna. Ég skal sýna þeim, að ég met málið það mikils og fyrirlít þeirra pólitísku togstreitu svo mikið, að ég skal koma henni úr frv. með því að fella hana niður núna og leggja til, að hún komist einhvern veginn öðruvísi inn fyrir 3. umr. Ég skal reyna að koma því þannig fyrir, að það verði tómir sjálfstæðismenn í n., nema þá bara póst- og símamálastjóri, og hjálpa þeim til þess að koma greininni út núna.