21.04.1950
Efri deild: 92. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (3235)

60. mál, notendasímar í sveitum

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál. Önnur umr. fór að langmestu leyti fram að mér fjarstöddum, og nú eru flestir búnir að tala sig dauða. Ég er hins vegar ekki fyllilega með á því, hvaða afstöðu þeir menn, sem þátt hafa tekið í umræðunum, hafa tekið til þessa máls, en er ljóst, að hv. 11. landsk. (ÞÞ) er fylgjandi frv. í aðalatriðum, en óskar mjög eftir því, að breytt verði ákvæðunum um nefndarskipun í 4. gr. frv. Till. hans nú hljóðar um að fella þessa gr. niður, en mér skilst á aths., sem hann gerði núna, að komið geti til mála, að n. væri skipuð á annan hátt en lagt er til í frv. og þannig, að hann teldi viðunandi. Af því að ég er meðflm. að þessu frv., vildi ég aðeins taka fram, að ég er ákaflega fús til samkomulags um breytta tilhögun á þessari n., og hvernig sem þetta verður afgreitt við 2. umr. í þessari d., fellt niður eða ekki, vildi ég leyfa mér að vænta þess, að allir, sem styðja vilja málið í heild, sameinist um að láta það ganga til 3. umr. og þar verði leitað eftir samkomulagi þeirra, er á annað borð vilja styðja frv. um þetta atriði. Og eftir því, sem ég hef tekið eftir nú við lok 2. umr., þá get ég ekki verið í nokkrum minnsta vafa um það, að slíkt samkomulag megi nást, ef það er reynt til hlítar.