27.04.1950
Efri deild: 94. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (3254)

60. mál, notendasímar í sveitum

Gísli Jónsson:

Forseti. Þegar ég gekk út úr d. áðan samkvæmt ósk hæstv. fjmrh., var ekki lokið umr. í því máli, sem þá var á dagskrá, en þegar ég kom aftur, var umr. lokið, og var ég þó á mælendaskrá. Mér þykir leitt, að hæstv. forseti skyldi beita mig slíkum brögðum, því að ég hafði mikilsverðar till. að flytja. Ég þykist ekki hafa sótt fundi hér svo illa, að ástæða hafi verið til að fara þannig að, er ég gekk frá til að gegna skyldustörfum samkvæmt ósk ráðherra: Bið ég svo hæstv. forseta að afsaka þennan útúrdúr.

Í sambandi við þetta mál þykir mér rétt að upplýsa, að fjvn. hefur fengið bréf frá póst- og símamálastjóra í sambandi við lagningu sveitasíma. Það er dagsett 25. apríl þ. á. Þar gerir póst- og símamálastjóri grein fyrir, hvað hann gerir ráð fyrir, að muni kosta að koma í samband þeim sýslum í landinu, sem nú hafa undir 50% síma, þannig að hver sýsla hafi síma á a. m. k. öðru hverju býli. Þetta segir hann, að muni kosta 2.289.319 krónur. Þá yrði á öllu landinu sími á 58,8% sveitabæjum og í engri sýslu sími undir 50%. Hann telur, að ef þetta væri gert, þá mundu tekjur símans að vísu nokkuð aukast, en telur þó ekki upp, hvað það mundi verða. Hann getur hins vegar um það í bréfinu, að útreikningar, sem gerðir hafi verið um tekjuaukningu landssímans á þessu ári; séu að því leyti rangir, að það megi búast við, að tekjuhliðin lækki um 3 millj. kr., þannig að reksturinn verði 3 millj. kr. óhagkvæmari, en gert er ráð fyrir. Mér þykir rétt að láta þetta koma fram í sambandi við þessar umr:

Það hefur verið samkomulag um það í fjvn. að taka inn á fjárlfrv. 1 millj. til notendasíma í sveitum, hækka liðinn úr 800 þús. kr. upp í 1 milljón. Nú sagði hv. 1. þm. N-M. um daginn, að þetta væri beinlínis gert til að uppfylla ákvæði 1. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, og á móti ætti að koma 1½ milljón úr jöfnunarsjóði. Ég veit ekki, hvað hann segir um þetta mál nú, en eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, er þetta hreinn misskilningur hjá hv. þm: Það er enginn fótur fyrir því og engin von til þess, að hægt sé að láta á móti þessari 1 milljón króna 1½ milljón úr jöfnunarsjóði. Ég veit ekki, hvort þetta er gert til blekkinga eða það er meðfædd gáfa hjá hv. þm. í meðferð mála almennt hér á þingi. Ég tel, að með þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið af fjvn., sé málinu sýnd svo mikil samúð og viðurkenning; að varla sé sæmandi að sækja þetta mál svo fast sem gert hefur verið, og ég er undrandi yfir því, hvernig okkar ágæti forseti hefur farið með þetta mál, vegna þess að ég hef ekki átt því að venjast þann tíma, sem ég hef setið á þingi, að slík vinnuaðferð hafi verið viðhöfð. Það hefur hvað eftir annað verið óskað eftir, að hann ræddi við hæstv. fjmrh., og hvað eftir annað hefur hann svarað því, að fjmrh. vissi um dagskrána, og það virðist ekki hafa verið gerð nein önnur tilraun til að hafa tal af honum í þessu máli, en senda honum dagskrána. Ég hef nýlega átt tal við hæstv. ráðh. um þetta, og þá kom ekki til mála að hækka þetta framlag meira, en upp í eina milljón, og þá veit ég ekki, til hvers er verið með þetta kapp að fá samþykkt frv., þar sem fyrirskipað er, að þessi upphæð skuli vera hækkuð svo sem hér er gert, þegar vitað er, að ekkert fylgi er fyrir því í ríkisstj. að taka þá fjárhæð inn í fjárl. á þessu ári. Þetta mál hlýtur því að vera borið fram af einhverju öðru, en áhuga fyrir að tryggja því raunverulegan árangur. Ég er alveg viss um, að enginn af flm. þessa frv. hefur meiri löngun, en ég að koma sveitasímunum sem víðast um landið: En ég get samt ekki séð, hvað á að þýða að leika svona skollaleik eins og hér er gert.

Ég skal ekki fara mikið út í þær orðahnippingar, sem orðið hafa í þessu máli. Hv. form. n. hefur vikið því að mér, að ég gæti ekki gert greinarmun á pólitískri sérstöðu og pólitískri afstöðu til málsins og ég vildi halda öllu í pólitískum viðjum. Mér finnst hins vegar, að gr., sem felld var úr frv., þar sem átti að lögbjóða, að miðstjórn Framsfl., eins og ég orðaði það, ætti að ráða yfir þessu máli, — það sýnir bezt, hvort engin pólitík er í þessu máli frá hendi þeirra manna, sem eru flm. frv. Auðvitað var það þeirra markmið að skapa sér pólitíska aðstöðu með frv. Það er svo augljóst mál, að það er ekki vert fyrir þá að verá að draga dul á það og afsaka það. Þess vegna fær maður nærri því klígju, þegar hv. 1. þm. N-M. lætur það út úr sér, að hann fyrirlíti alla pólitíska togstreitu. Það mundi aðeins skapa togstreitu, sem yrði til að spilla málinu, ef fyrir þessu fengist meiri hluti hér á Alþingi. — Þá vil ég benda á út af brtt. um skipan þessara mála, að hv. flm. hefur setið í sparnaðarnefnd, sem gera átti till. um sparnað í ríkisrekstrinum. Hann fann þá, að það eru allt of margar nefndir, sem starfa á kostnað ríkisins, en hér á að bæta einni við. Það er vissulega of mikið af nefndum og pólitískri togstreitu í okkar landi, bæði í fjárhagsráði, viðskiptanefnd, jeppaúthlutunarnefnd og hvað þær nú heita allar saman. Ber hið bráðasta að snúa við á þessari braut og losa sig við þetta fargan. En ef það er nokkur, sem á að skipta þessu án þess að póst- og símamálastjórnin geri það, þá er það fjárveitingarvaldið á Alþingi, en þá á ekki að nota aðstöðuna í þessum efnum til þess að kaupa pólitískt fylgi, eins og virðist vera takmark hv. flm. frv. Ég álít, að þetta eigi að vera í höndum póst- og símamálastjóra, og sé það ekki nóg, þá hjá Alþingi, sem ekki má sleppa yfirstjórn þessara mála.

Ég tel rétt, að málið sé nú tekið út af dagskrá og hæstv. forseti ræði það við hæstv. fjmrh. og skýri síðan hv. d. frá niðurstöðum þeirra viðræðna. Að öðrum kosti verð ég að álykta, að hæs.v. forseti sé á móti framgangi málsins.