27.04.1950
Efri deild: 94. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (3258)

60. mál, notendasímar í sveitum

Haraldur Guðmundsson:

Ég vil enn harma það mjög, að hæstv. fjmrh. eða einhver af meðráðherrum hans hafa eigi séð sér fært að vera við umræðurnar í d. í sambandi við þetta mál. Það má segja, að það sé eigi stórvægilegt, en þegar litið er á það í sambandi við önnur mál, sem fyrir þinginu hafa legið og liggja, þá virðist mér það marka ákveðna stefnu, sem full ástæða er til að gera sér grein fyrir.

Eftir þessu frv. er gert ráð fyrir hærri, eða þreföldum framlögum á við það, sem undanfarið hafa verið lögð til notendasíma. Það var nú rétt áðan verið að afgreiða breyt. á jarðræktarl., sem eigi gera áætlun um, hversu auka muni þurfa kostnað í þeim efnum, en það mun nema um 1.5 millj. kr. Í Nd. er verið að ljúka við að afgreiða mál um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, og á því stigi, sem það er nú, er ráð fyrir gert að auka framlög úr 3 í 6 millj. kr., eða tvöfalda þau. Ég held, að eigi sé ráðgert að taka það fé á einu ári, en það mun eigi verða skemur en á þrem árum. Þessi fjögur frv., ef að l. verða, valda því, að um verður að ræða a. m. k. 4 millj. kr. útgjaldaaukningu frá því, sem verið hefur. Í fjárlagafrv. ætla ég, að áætluð fjárhæð til sauðfjárveikivarna nemi um 7 millj. kr. Um það liggur fyrir frv. í hv. Nd. Ég vil nú engu spá um árlegan kostnað í heild sinni, en hann mun hlaupa á nokkrum tugum millj. kr. Ég nefni þar eigi endurgreiðslu tolla af sænsku húsunum, minkana og þess háttar, heldur aðeins þessi frv., sem marka alveg ákveðna stefnu. Ætlunin er að auka um milljónir króna framlög til framkvæmda í dreifbýlinu. Nú neita ég því ekki, að nauðsynlegt sé að styrkja og leggja fram fé til flestra þessara framkvæmda, Hins er eigi að dyljast, að talsvert af þessu fé, sem gengið hefur til strjálbýlisins, hefur ekki komið að gagni. Það eru ófá dæmi þess til, að jarðir hafi lagzt í eyði, sem komnar hafa verið í símasamband vegasamband og til aukinnar ræktunar. Þetta virðist mér sýna skort á, að þeirrar fyrirhyggju og hagsýni hafi verið gætt, sem sjálfsögð er í þessum efnum. Nú hefði mig langað til að bera fram fsp. við hæstv. fjmrh., ef hann er nærri, en sé hann það ekki. þá getur hv. form. fjvn. e. t. v. upplýst það. Frv. markar þá ákveðnu stefnu að auka fjárframlög til einstakra framkvæmda í strjálbýlinu. Nú vildi ég spyrja, hvort þess væri að vænta, að aðrar framkvæmdir, sem eru a. m. k. jafnnauðsynlegar, séu jafnhugstæðar hv. flm. þessara frv., þeirra er ég hef nefnt. Það hefur mikið verið um það rætt, að fjárhagsástand ríkissjóðs sé slæmt og afkomuhorfur hans harla dapurlegar, jafnvel eftir gengislækkunina. Mér er þá aftur spurn: Má vænta þess, ef fjárveitingar þessar verða samþykktar, að stuðningsflokkar hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að meta nauðsynjar í öðrum efnum og annarra landshluta og treysti sér til að veita þangað tilsvarandi fjárframlögum? Mér hefði þótt vænt um, ef einhver úr hæstv. ríkisstj. gæti verið til andsvara. Afstaða mín mun mótast af því, hvort sama skilnings sé að vænta varðandi þéttbýlið. Á því er enginn vafi og það er ljóst, að horfurnar í atvinnumálum og fjárhagsmálum almennings í bæjunum eru í svipinn a. m. k. enn ískyggilegri, en hjá þorra fólks í sveitunum. Koma áhrif dýrtíðaraukningarinnar harðar niður þar en í sveitunum og harðast á þeim, sem eigi geta tekið neinar neyzluvörur hjá sér sjálfum.

Þá vildi ég lítillega drepa á það, sem kom fram hjá tveim hv. þm. um fyrirhugaða ráðstöfun jafnvirðissjóðs Marshallfjárins. Þar virðist mér sem fullyrðing standi gegn fullyrðingu. Hv. 1. þm. N-M. staðhæfir, að ætlun hæstv. ríkisstj. sé að leggja fram 1½ millj. kr. úr jafnvirðissjóði til viðbótar framlagi ríkissjóðs til símalagninga í sveitum. Hv. þm. Barð. fullyrðir hins vegar, að engin ákvörðun hafi verið tekin um ráðstöfun fjárins. (PZ: Tveir hæstv. ráðh. hafa sagt það, og hv. þm. Barð. segir þá ósatt.) Ég hef ævinlega talið sjálfsagt, að um ráðstöfun eða tillögur til ráðstöfunar á jafnvirðissjóði yrði gerð heildaráætlun og þar leitað samþykkis Alþ. Ég get eigi hugsað mér, að einn til tveir ráðherrar fari að peðra fé úr sjóðnum án skipulegrar áætlunar, svo að allt er hér fullyrðingar og spásagnir út í loftið. Ég hef heyrt, eftir ummælum hv. 1. þm. N-M., að ætlun hæstv. ríkisstj. sé, fengi hún það samþ., að nota féð til stærri verksmiðja og e. t. v. við meiri háttar iðnað í landinu. En þetta eru aðeins bollaleggingar, er ekkert verður sagt um, fyrr en Alþ. hefur látið álit sitt í ljós.

Ég skal ekki hafa ræðu mína lengri, því að umræðurnar eru þegar orðnar langar, en vildi leyfa mér að bera fram tvær skriflegar brtt. Hin fyrri er við 1. gr. og þess efnis, að í stað „2,5 millj.“ komi: eina milljón. — Mér hefur skilizt á hv. 1. þm. Eyf., að út af fyrir sig sé honum ekki ákaflega mikið kappsmál, hver fjárhæðin verði, heldur yrði hún fastákveðin í l., svo að mismunandi viðhorf gætu eigi valdið því, að framkvæmdir stöðvuðust í þessum efnum. Það hefur upplýsts í umræðunum, að fjvn. hafi áætlað að lækka þennan lið, og væri það heldur tryggara, ef hún yrði tekin í l. — Hin síðari brtt. er við 2. gr., þess efnis, að gr. falli niður. Ég gerði grein fyrir því við 2. umr., að ég teldi fráleitt, að slík ákvæði séu sett í þessi l.: að ein ákveðin vörutegund sé þannig ákveðin, að efni til þessara sérstöku símalagninga skuli samkvæmt ákvæðum í sérstökum l. ganga fyrir, hvernig sem jöfnuðurinn við útlönd verður, og þótt skortur sé á erlendum gjaldeyri. Ef þetta á að ganga fram og taka á þetta á innflutningsáætlunina, þá verður erfitt að lifa fyrir fjárhagsráð.

Ég skal svo eigi hafa þessi orð fleiri. Ég bíð eftir því, hverja afgreiðslu brtt. mínar fá, og mun afstaða mín mótast af því. Leyfi ég mér svo að afhenda þær hæstv. forseta.