13.02.1950
Efri deild: 54. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (3286)

68. mál, almannatryggingar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið athugað gaumgæfilega í n. Það hefur verið borið saman við gildandi lög og sérstaklega athuguð þau atriði, sem breyta á með frv. N. hefur haft samráð við heilbr.- og félmn. Nd., og hefur hún setið fundi n. Samkomulag hefur orðið um það innan n., að hún flytti aðeins þær till., sem hún öll er sammála um, en einstakir nm. áskilja sér rétt til að bera fram brtt. eða fylgja öðrum. Einnig mun n. fyrir 3. umr. athuga, hvort samkomulag geti orðið um að flytja fleiri till. en prentaðar eru á þskj. 308.

Ég tel rétt í upphafi máls míns að drepa lítillega á undirbúning og afgreiðslu l. um almannatryggingar, sem samþ. voru hér á Alþingi 1946. Það eru nú liðin 3 ár síðan þau tóku gildi, og er því fengin nokkur reynsla af framkvæmd þeirra. Eftir því, sem l. eru byggð upp, er til þess ætlazt, að Tryggingastofnunin sé nokkurs konar banki, sem einstaklingar og bæjar- og sveitarfélög o. s. frv. greiði gjöld til, en stofnunin greiði svo aftur tryggingarbæturnar. Að sjálfsögðu var rennt nokkuð blint í sjóinn, er lögin voru sett, um það, hve há útgjöld stofnunarinnar yrðu. Ég fullyrði, að megináhyggjur þm. voru þá þær, að hér væri of þungur baggi lagður á þjóðina, sérstaklega hvort framlag ríkisins hrykki fyrir því, sem á skorti, að aðrar tekjur stofnunarinnar hrykkju fyrir útgjöldum. Nú er nokkur reynsla komin á þetta, og það hefur sýnt sig til þessa, að þær áætlanir, sem byggt var á, hafa reynzt mjög skynsamlega og varlega gerðar, þannig að stofnunin skilaði tekjuafgangi tvö fyrstu árin, og væntanlega verður eins um árið 1949, en reikningslok þess árs eru enn ekki tilbúin. Þetta frv. á að auka bætur og fríðindi stofnunarinnar til samræmis við það, sem telja mætti, að óbreyttir tekjustofnar gætu staðið undir, en ekki er lagt til að raska að ráði fjárhagsgrundvelli trygginganna sökum þess, hve mikil óvissa er ríkjandi um verðlag og kaupgjald og atvinnulífið í heild; þótti hægara að breyta ákvæðum l. en fastbinda lögboðnar bótagreiðslur, sem hætt var við, að brátt yrði að breyta.

Ég skal nú láta þetta nægja sem inngang og víkja að einstökum breytingum.

Meginbreytingarnar samkvæmt frv. eru þessar: Í fyrsta lagi, að tekin eru inn ákvæði um skipun heilsugæzlustjóra, er hafi yfirstjórn allra læknamálefna stofnunarinnar í samráði við forstjóra hennar. Hann hefur og með höndum framkvæmd og forstöðu heilsugæzlumála stofnunarinnar, er þriðji kafli almannatryggingal. kemur til framkvæmda, en vinnur þangað til að undirbúningi þeirra framkvæmda, hefur yfirumsjón með starfsemi sjúkrasamlaganna og sinnir störfum, sem áður heyrðu undir deildarstjóra sjúkratryggingadeildar. Starf heilsugæzlustjóra hefur raunverulega verið tekið upp. Sigurður Sigurðsson berklayfirlæknir var ráðinn fyrir ári og hefur síðan starfað hjá stofnuninni, og telja allir vel ráðið, að hann skuli hafa þessi mál með höndum.

Þá eru víkkaðar og auknar heimildir í l. til að greiða hærri bætur, en lögin ákveða. Samkvæmt 17. gr. er t. d. lagt til að heimila að víkja frá því að gera sjúkrahúsvist eða rúmlegu að skilyrði fyrir greiðslu sjúkrabóta, þegar sérstaklega stendur á. Þá er lagt til samkv. 8. gr., að heimilað sé, að hámark lífeyrishækkunar miðist við 50% af lífeyrisupphæðinni, í stað 40%, og er það gert aðallega með tilliti til verðlags- og kauplagsröskunar, sem orðið hefur síðan lögin voru sett. Það er lagt til, að heimild til þessarar hækkunar verði einnig látin ná til þeirra, sem sökum einstæðingsskapar og algers skorts á vinnugetu ekki komast af með venjulegan lífeyri, auk þeirra sem heimildin nær þegar til. Einnig, að greiða megi hjónum lífeyri eins og um tvo einstaklinga væri að ræða, ef hjónin geta ekki búið saman af heilsufarsástæðum eða öðrum jafngildum ástæðum.

Þá er gert ráð fyrir, að þeir, sem njóta eftirlauna eða heiðurslauna úr opinberum sjóðum, megi fá fullan elli- og örorkulífeyri, ef eftirlaunin svara hálfum lífeyri eða minna, og þeim, sem meira fá í eftirlaun, er heimilt að greiða það, sem á vantar, að þeir hafi hálfan annan lífeyri.

Þá er lagt til með 13. gr., að nýr bótaflokkur, mæðralaun, sé tekinn upp og heimilt sé að greiða mæðralaun til ekkna, fráskilinna kvenna og ógiftra mæðra, sem hafa 2 börn eða fleiri innan 16 ára aldurs á framfæri sínu. Enn fremur er lagt til að heimila að greiða dánarbætur til ekkna og ekklia, sem komin eru á lífeyrisaldur, er makinn fellur frá. — Lagt er til, að framkvæmd heilsugæzlunnar samkvæmt þriðja kafla l. verði frestað til ársloka 1954, eða í 5 ár, og að sjúkrasamlögin starfi þetta tímabil og að þar, sem sjúkrasamlög hafa ekki verið stofnuð nú þegar, skuli þau stofnuð á þessu ári og ná þannig til allra landsmanna, en nú mun láta nærri, að 10–12% landsmanna standi utan sjúkrasamlaga.

Þá eru enn fremur teknar í frv. heimildir í viðaukalögum frá 1947 og 1948, heimilað að greiða styrki til læknisvitjanasjóða og sjúkrasamlaga, sem verða fyrir óvenjulegum útgjöldum vegna sjúkraflutninga og læknisvitjana. og heimilað að lækkun atvinnurekendaiðgjalds á 2. verðlagssvæði skuli haldast áfram í lögum.

Heilbr.- og félmn. fellst á að fresta enn heilsugæzlunni, þar sem enn vantar þær stofnanir, sem lögin gera ráð fyrir, og engar líkur til, að þær verði komnar upp fyrir 1951, sem miðað er við. Hins vegar gerir n. sér vonir um, að undirbúningur heilsugæzlustjóra fái því áorkað, að heilsugæzlukafli l. geti komið til framkvæmda í árslok 1954.

N. telur, að till. þær til breytinga á l., sem gerðar eru í þessu frv., stefni í rétta átt. Hún er því samþykk meginatriðum þess og vill mælast til, að hv. d. geri það að lögum. En nokkrar breyt. telur hún rétt að gera við 2. umr. og hugsanlegar fleiri breyt. við 3. umr.

Brtt. n. eru prentaðar á þskj. 308. 1. brtt. fjallar um gildistöku frv. Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að það gangi í gildi 1. jan. 1950, en nú getur sýnilega ekki orðið af því. Þess vegna er lagt til, að 1. gr. falli niður, en aftan við 34. gr. bætist ný gr. og bráðabirgðaákvæði, og taki lögin þegar gildi, er þau hafa verið samþykkt.

2. brtt. á þskj. 308 fjallar um breyt. á 5. gr. frv. Aftan við orðin „Í kaupstöðum“ í upphafi 3. málsl. gr. bætist: utan Reykjavíkur. — Í Reykjavík er starf sjúkrasamlagsstjórnar svo umfangsmikið, að hér verða að gilda sérákvæði í þessu efni.

Við 6. gr. hefur n. orðið sammála um brtt. nr. 3 á þskj. 308. Samkv. 6. gr. er gert ráð fyrir, að samanlögð upphæð lífeyris og eftirlauna megi ná hálfum öðrum lífeyri. N. lítur svo á, að þá verði að taka fram, að þessi upphæð samsvari lífeyri á 1. verðlagssvæði, að viðbættum hálfum lífeyri þess verðlagssvæðis, þar sem hlutaðeigandi er búsettur.

Þá er brtt. við 8. gr. fyrri málsgr., er orðist svo: „Hámark lífeyrishækkunar, sem tryggingaráði er heimilt að veita vegna sjúkleika eða ellilasleika samkvæmt 17. gr. laganna, skal miðast við 50 af hundraði af lífeyrisupphæðinni, og má einnig veita hana mönnum, sem eru algerlega eignalausir og sökum fullkomins skorts á vinnugetu og einstæðingsskapar geta ekki komizt af með venjulegan lífeyri.“ Hér er bætt inn í málsgr. orðunum „algerlega eignalausir,“ og það er eðlilegt, að ekki megi veita hækkun nema þeim, sem eru algerlega eignalausir.

Þá er brtt. við 13. gr., fyrri málsgrein. Það er einnig orðalagsbreyt. og lítið efnisatriði. Í frv. er talað um heimild til greiðslu mæðralauna, að fengnu samþykki ríkisstj., en n. lítur svo á, að ekki þurfi frekar að binda þessa heimild við samþykki ríkisstj. en aðrar heimildir l., heldur sé ætlazt til, að þær séu allar notaðar. — Enn fremur er lagt til að hnýta aftan við málsgr., að börnin séu á heimili móður sinnar. Það er í samræmi við álit mþn. þeirrar, er samdi frv.

Þá leggur heilbr.- og félmn. til, að aftan við 29. gr. bætist nýr málsl., um að tekjuafgangi Tryggingastofnunarinnar skuli varið til að mæta rekstrarhalla trygginganna einstök ár, og skuli ekki tekið til ábyrgðar ríkissjóðs meðan nokkur tekjuafgangur er fyrir hendi í tryggingasjóði. Eins og hv. dm. er kunnugt um, hefur gætt nokkurs ágreinings milli fjmrn. annars vegar og Tryggingastofnunarinnar hins vegar um skilning á 116. gr. l. Ráðuneytið er þeirrar skoðunar, að tekjuafgangur trygginganna renni til lækkunar á framlagi ríkissjóðs. Það hefur stofnunin hins vegar ekki getað fallizt á og talið þvert ofan í anda l. og hefur skotið máli sínu til félmrn. N. vill nú taka af öll tvímæli í þessu efni með viðbót aftan við 29. gr., sem fyrr segir, og er þar skirrzt við að leita til ríkisins um greiðslu á hallarekstri á meðan nokkur tekjuafgangur er í tryggingasjóði.

Þá leggur n. til, að aftan við frv. bætist ný grein og bráðabirgðaákvæði. Greinin, sem verður 35. gr., fjallar um gildistöku l., og bráðabirgðaákvæðið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tryggingaráði er heimilt að greiða úr tryggingasjóði allt að 10% uppbót á ellilífeyri, örorkulífeyri, örorkustyrki og makabætur fyrir bótatímabilið frá 1. júlí 1949 til 30. júní 1950.“

Þetta hefur verið rætt í Sþ., svo að ég færi engin rök að því. Þetta er gert samkvæmt ábendingum stofnunarinnar, og lítur meiri hl. tryggingaráðs svo á, að þetta sé greitt til viðbótar hækkunum, sem orðið hafa frá gildistöku l., sbr. launahækkun opinberra starfsmanna, og verði bráðabirgðaákvæðið samþykkt, nemur greiðslan um 5 millj.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. eða um brtt. n. að sinni, og geymi mér að ræða brtt. einstakra þm., þar til þeir hafa gert grein fyrir þeim. Fyrir hönd n. óska ég, að frv. verði vísað til 3. umr. að lokinni þessari umræðu, og mun n. athuga, hvort henni þykir rétt að bera fram fleiri brtt. við þá umræðu.