10.01.1950
Neðri deild: 26. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég lét þess getið við 2. umr. þessa máls, að ég mundi við 3. umr. taka til athugunar að flytja till. um heimild fyrir ríkisstj. að ábyrgjast ákveðið verð á þorskalýsi. Að vísu miðaði ég við, að till. mín um frílistann svo kallaða yrði samþ. Hún var nú að vísu felld, en ég vil samt leyfa mér að flytja þessa brtt:, því að ég tel það vera heilbrigðara að fara þá leið, ef þörf er á uppbótum, heldur en að ráðstafa gjaldeyrinum á þann hátt, sem gert var með frílistanum í fyrra. Ég vil endurtaka, að ég tel mjög óheilbrigt, að hæstv. ríkisstj. ákveði visst álag á gjaldeyrinn án samþykkis Alþingis. En slíkt geri ég ráð fyrir, að verði ekki gert, ef till. mín verður samþ.

Ég sé svo ekki ástæðu til að lengja umr. og fara fleiri orðum um þetta, en vil leyfa mér að lesa upp brtt. mína, sem koma á aftan við 1. gr. frv.:

„Enn fremur er ríkisstj. heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs það, sem á kann að vanta, að söluverð lýsis tryggi bátaútveginum á sama tíma kr. 130 fyrir hvern lítra af lifur.“

Ég vil svo afhenda hæstv. forseta till. og vænti þess, að hann leiti afbrigða fyrir henni.