17.02.1950
Efri deild: 57. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (3292)

68. mál, almannatryggingar

Frsm. (Haraldur Guðmundason):

Herra forseti. Það hafa komið fram allmargar brtt. við þetta frv. sem hér er til umr., og er sjálfsagt að ræða þær og athuga, enda þótt frv. sé samið af sérstakri n. og flutt skv. ósk félmrh.

Ég ætla þá fyrst að drepa á brtt. á þskj. 334, frá 1. þm: N-M. (PZ). Ég hygg, að það sé ofmælt hjá þessum hv. þm., að tryggingarlöggjöfin í landinu styðji að lauslæti í öllum myndum og þeim orðum hafi ráðið löngun þm. til að segja eitthvað skemmtilegt. Hins vegar er ég skoðanabróðir hans í því að vilja stuðla að góðu siðferði, svo að hann er ekki jafneinangraður postuli skírlífisins og hann vildi vera láta. (PZ: Þá getum við orðið sammála um breytingar.)

Þá spurði þm., hvort fjmrh. hefði samþ., að skipaður yrði sérstakur heilsugæzlustjóri, og er því til að svara, að hér er ekki um neitt nýtt embætti að ræða, því að það er gert ráð fyrir, að hann komi í stað deildarstjóra sjúkratryggingadeildarinnar, en það starf verði lagt niður. Annars læt ég nægja að vísa til grg. um þetta atriði. — Þá taldi þm. óþarfa sérfræðinganefnd þá, sem frv. gerir ráð fyrir og nefnd er í því læknadómur og ætlað er það hlutverk að úrskurða örorkustig og orkutap þeirra, er sækja um slíkar bætur og ekki vilja una úrskurði lækna Tryggingastofnunarinnar. Ég held, að þessi skoðun þm. byggist á misskilningi og hann mundi fallast á þetta fyrirkomulag, ef hann kynnti sér málið nánar, enda er með þessari skipan í flestum tilfellum hægt að losna við málssókn, sem ég tel mjög æskilegt.

Um fyrstu brtt. á þskj. 334, við 8. gr., að 5 ára skilyrðið um búsetu í sveitarfélaginu falli niður, er það að segja, að hún er óeðlileg vegna þess, að viðkomandi sveitarfélagi eru lagðar þarna nokkrar skyldur á herðar í sambandi við húsnæði, en ekki þykir eðlilegt að leggja slíkar skyldur á fyrr en viðkomandi hefur verið búsettur í sveitarfélaginu um nokkurt skeið, og var talið eðlilegt að miða við 5 ár, enda gæti skemmri tími haft í för með sér ýmsa erfiðleika fyrir viðkomandi sveitarfélög. Þess vegna legg ég til, að þessi brtt. verði felld og sömuleiðis varatill.

Um brtt. við 13. gr., að mæðralaunin verði endurkræf hjá barnsföður, er það að segja, að ég tel hana ekki óeðlilega, en hins vegar get ég ekki neitað því, að það kemur dálítið einkennilega út, þar sem slík mæðralaun eru ekki greidd til þeirra, sem aðeins eiga eitt barn. Sá maður, sem á eitt barn, losnar því alveg við slíkar kröfur, en eigi annar maður barn með konu, þá verður hann krafður um mæðralaun. Ég er alveg samþykkur því að styðja að skírlífi með því að láta svona skemmtun vera nokkuð dýra hjá þjóðfélaginu, en ég fæ bara ekki séð, hvers vegna sá fyrsti á að sleppa. Vegna þessa og framkvæmdarerfiðleika í sambandi við þessa brtt. get ég því ekki greitt henni atkv.

Þá leggur þm. til, að 16. gr. verði breytt þannig, að í stað 52 vikna komi 104 vikur, þ. e. a. s. að atvinnurekendur, sem greiða atvinnurekendagjöld af 104 vinnuvikum, skuli hafa sama biðtíma og ef um einyrkja væri að ræða. Þetta atriði var grundvallarágreiningsefni við setningu þessara laga. Ég get ekki frekar, nú en þá, fallizt á samþykkt þessarar till. Í l. er ákvæði um 26 vinnuvikur með sömu skilyrðum og launþegar hafa, en í þessu frv. er gert ráð fyrir, að það verði hækkað í 52. Það jafngildir því, að viðkomandi atvinnurekandi eða bóndi hafi einn mann allt árið í þjónustu sinni. Auk þess gilda svo sérstök ákvæði um börn, sem vinna hjá foreldrum, þar sem vinna þeirra er ekki reiknuð nema 13 vikur, en það þýðir, að viðkomandi má hafa 4 börn yfir 16 ára aldur án þess að missa rétt sinn vegna þessa ákvæðis, það er að segja, ef þeim er ekki greitt kaup sérstaklega. Ég held því, að hér sé gengið hæfilega til móts við atvinnurekendur eða þá, sem hafa fólk í þjónustu sinni, varðandi biðtíma, þegar um sjúkrabætur er að ræða, og tel því ekki ástæðu til að samþ. þessa brtt. og vil mælast til, að hv. dm. felli hana. Hins vegar vil ég mælast til, að þm. taki 4. og 5. brtt. á þskj. 334 aftur til 3. umr., svo að n. fái tækifæri til að athuga þær nánar.

Ég vil þá víkja nokkuð að brtt. 4. landsk. á þskj. 329 og 330. Fyrsta till. á þskj. 329 er við 10. gr. frv. og þess efnis, að 2. og 3. málsl. 23. gr. falli niður. Aðra till. flytur þm. Barð. (GJ) á þskj. 331. Þau ákvæði 10. gr. frv., sem hér er átt við, fjalla um takmarkanir á barnalífeyri til mæðra óskilgetinna barna og fráskilinna kvenna. Ákvæði frv. um þetta efni er nokkuð á milli þeirra brtt., sem hér eru fram bornar, eða að bæturnar skuli greiddar í þrjú ár eftir að ekkja eða barnsmóðir giftir sig, og eftir atvikum tel ég það sanngjarnt. Þm. Barð. færði þau rök fyrir sinni brtt., sem fer í þá átt að stytta bótatímann í eitt ár, að með núverandi fyrirkomulagi væri raunverulega um hvítt mansal að ræða, og því til sönnunar benti hann á, að 24 þúsund kr. þætti harla góður heimamundur, en það er sú upphæð, sem 10 barna móðir fengi með núverandi ákvæðum eða nálægt því. Ég vil nú svara þessu þannig, að ég öfunda ekki sérstaklega þann mann, sem tæki að sér ekkju með 10 börn, jafnvel þó að hann fengi með henni 24 þúsund kr. Ég held því, að þriggja ára greiðslan sé réttlát og eðlileg, enda er hún nokkuð á milli þeirra öfga, sem framkoma í brtt. Ég vildi því leggja til við hv. dm., að þeir felldu báðar þessar brtt. og héldu sér við frvgr. eins og hún er. — Þá leggur hv. 4. landsk. til, að upphæð mæðralaunanna samkvæmt 13. gr. verði breytt verulega. Frv. gerir ráð fyrir, að einstæðar mæður með eitt barn fái aðeins barnalífeyri, en mæðralaun byrja með öðru barni og hækki með hverju barni upp í 4 börn, en ekki úr því. Því vill hv. 4. landsk. breyta þannig, að mæður með eitt barn fái 600 kr. í mæðralaun á 1. verðlagssvæði, auk barnalífeyrisins, það samsvarar í mæðralaun 1.800 kr. á ári. En ég verð að telja þetta fullkomna ofrausn í sambandi við aðrar bætur. Mjög margir karlmenn verða að sætta sig við það hlutskipti að sjá fyrir konu og 3 börnum af tekjum sínum, án þess að fá nokkurn styrk frá Tryggingastofnuninni eða hinu opinbera. Þvert á móti verða þeir að greiða skatta sína og skyldur eins og aðrir. Og ung og hraust kona, sem á eitt barn og er fullvinnandi á allan hátt, hún fær 200 kr. á mánuði með barninu frá tryggingunum eða barnsföðurnum. Ég verð að segja, að miðað við að ætla karlmanni að sjá fyrir 5 börnum með sinni vinnu er slíkri stúlku ekki ofætlað að vinna fyrir einu barni með barnalífeyri 200 kr. á mánuði. Ég veit, að það tekur sinn tíma fyrir einstæðar mæður að annast, þótt ekki sé nema eitt barn, en hér er þó um ofrausn að ræða. Allt annað er, ef um fleiri, en eitt barn er að ræða. Þá er augljósi, að slíkt dregur mjög úr tekjumöguleikum móðurinnar. Samkvæmt opinberum skýrslum voru hér 911 einstæðar mæður með einu barni á framfæri sínu árið 1947, og það gerir rösklega 1,6 millj. kr. til þeirra á ári, ef veita ætti þeim mæðralaun samkvæmt till. hv. 4. landsk., en sú upphæð er miklu hærri, en gert er ráð fyrir samkv. frv., að verja þurfi til mæðralauna í heild. — Um hækkun mæðralaunanna að öðru leyti er alltaf matsatriði. Hv. þm. leggur til, að allt hækki. Ég skal játa, að það væri æskilegt að hafa mæðralaunin hærri. En ég tel, með hliðsjón af öðrum bótagreiðslum, sem frv. gerir ráð fyrir, að þá sé þetta of langt gengið hjá hv. 4. landsk.

Hv. þm. Barð. ber einnig fram brtt. við 13. gr., og hann vill lækka mæðralaunin frá því, sem gert er ráð fyrir í frv. til mæðra, sem eiga 3 börn og þaðan af fleiri. Fljótt á litið virðist mér till. hv. þm. lækka mæðralaunin í heild um 180–190 þús. kr., ef samþykktar væru, svo að hér er ekki um stórfellda breytingu að ræða, má segja. En ég get sagt það sama um þessa till. og till. hv. 4. landsk., að það er matsatriði, hvaða upphæðir eru hæfilegar. Ég álit, að hv. 4. landsk. fari hærra, en sambærilegt er við önnur ákvæði frv. og l. og að hv. þm. Barð. tilnefni aftur of lágar upphæðir. Till. n. eru hér aftur mitt á milli, og styður það þá skoðun, að þær séu nærri réttu lagi.

Þá flytur hv. 4. landsk. brtt. á þskj. 330, þess efnis, að bráðabirgðaákvæðið, sem heilbr.- og félmn. bætti aftan við lögin um 10% uppbót á ellilífeyri, örorkulífeyri og makabætur, ákveði í staðinn 20% uppbót. Þetta mál hefur verið rætt í Sþ. í sambandi við tillögu þar. Meginatriðið hygg ég vera það, að eftir að Alþ. hafði samþ. til bráðabirgða fyrir jólin í vetur 20% launauppbót til opinberra starfsmanna, þótti óhjákvæmilegt að færa þar til samræmis bótagreiðslur trygginganna. Nú hafa þegar verið hækkaðar lífeyrisgreiðslur til gamalmenna og öryrkja um 10%. Því leggur n. til, að þessar greiðslur verði nú auknar um 10%, þannig að samanlagt og miðað við gildistöku l. og 300 stiga vísitölu verði uppbótin hin sama, frá 1. júlí 1949 til jafnlengdar í ár, og opinberir starfsmenn hafa fengið til bráðabirgða. Hins vegar er till. hv. 4. landsk. eiginlega um 30% hækkun, eða 20% ofan á þá hækkun, sem þegar hefur verið samþykkt. Ég skal játa, að æskilegt væri, að hægt væri að framkvæma þá hækkun, en það er ekki hægt, og því er ég ekki með brtt. á þskj. 330. Ég vil mjög taka undir það með hv. þm. Barð., að það er ekki gott að hækka svo uppbætur og bótagreiðslur til bráðabirgða, að síðan þurfi að lækka þær aftur, því að það er alltaf illa séð, þegar á að fara að lækka. Uppbætur til opinberra starfsmanna hafa ekki verið ákveðnar til frambúðar, og ég tel óhyggilegt að samþykkja brtt. hv. 4. landsk. á þskj. 330, en vil ráða dm. til að samþ. till. n. hér að lútandi á þskj. 308. Ég tel, að ekki eigi að breyta till. n., því að þær nái hlutfallinu, sem venjulega hefur verið miðað við milli almennra tekna og bótagreiðslna. Ég mæli enn fremur gegn brtt. hv. þm. Barð.

Þá vil ég minnast á þá brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 331, að síðari málsgr. 8. gr. frv. falli niður, en hún er um lífeyrishækkun og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er tryggingaráði að binda hækkun samkvæmt þessari grein því skilyrði, þegar um einstæðingsskap er að ræða að stjórn þess sveitarfélags, þar sem lífeyrisþeginn á heima, sjái honum fyrir viðunandi húsnæði gegn leigu, sem ekki fari fram úr 25% af lífeyrisupphæðinni, enda hafi hann verið búsettur í sveitarfélaginu óslitið eigi skemur, en 5 s. l. ár.“

Ég skal játa, að svo geti farið, að erfitt verði að framkvæma þetta ákvæði undir sumum kringumstæðum og það komi ekki að verulegu haldi, og mþn., sem samdi frv., var ekki á eitt sátt um það. Það, sem fyrir henni vakti með þessari málsgr., var það, að eins og húsnæðismálum, sérstaklega í Reykjavík, er háttað, er ekki útilokað, að lífeyrisþegar greiði svo háa húsaleigu, að jafnvel 50% hækkun á lífeyri væri ekki nóg til þess að þeir hefðu eitthvað afgangs til að tóra fyrir. Hæsta lífeyrisgreiðsla er 450 kr. á mánuði, og eru þess dæmi, að lífeyrisþegar hafa orðið að greiða 300–400 kr. í leigu fyrir eitt herbergi á mánuði, og er þá sama og ekkert eftir af lífeyrinum, þegar þeir eru búnir að greiða húsaleiguna. Umrætt ákvæði á að tryggja, að bæjarfélög og sveitarfélög hlaupi undir bagga með lífeyrisþegum, ef um þessi ókjör er að ræða, og bærinn sjái þá með einhverju móti fyrir ódýru húsnæði. Erlendis er það víða þannig, að bæirnir sjá lífeyrisþegum fyrir húsnæði með þolanlegu verði. Ég mæli ekki með þessari brtt. hv. þm. Barð., þótt ég játi, að ákvæðið, sem hann vill fella niður, geti haft í för með sér erfiðleika í framkvæmd.

Hugleiðingum hv. þm. Barð. almenns efnis um tryggingarnar er ég að mestu sammála, að stilla bótakröfunum svo í hóf á hverjum tíma, að ekki þurfi að lækka þær greiðslur öðru hverju og stefna fjárhag Tryggingastofnunarinnar í tvísýnu, því að á erfiðu árunum, sem alltaf hljóta að koma öðru hverju, þarf stofnunin að vera viðbúin og hafa þá sveiflurúm eða svigrúm. Ég er hv. þm. mjög sammála um þetta atriði.

Ég neyðist þá til að víkja að greinargerð hv. fjmrh., og leiðist mér, að hann skuli ekki vera hér viðstaddur. En áður en ég vík að skjali því, er hann las hér upp, vil ég víkja að öðru, sem hæstv. ráðh. hélt hér óhikað fram. Hann sagði, að hækkað framlag til sjúkrasamlaganna á fjárlögum yfirstandandi árs næmi 2,6 millj. kr. Þetta er fjarri öllum sanni — og sannleika, liggur mér við að segja. Það er gert ráð fyrir rétt 11% hækkun á fjárlögum á framlagi til sjúkratrygginga. Það framlag er áætlað 3,4 millj., og samkvæmt því ætti sú 11% hækkun að nema 360–370 þús. kr., en ekki 2,6 millj., eins og hæstv. ráðh. taldi. Hins vegar má benda á, að sjúkrasamlagsiðgjöld eru mjög lág, og búast má við, að nokkur hækkun verði á þessum lið á þessu ári, sökum þess að gert er ráð fyrir að lögbjóða stofnun sjúkrasamlaga, þar sem þau eru ekki þegar starfandi, og það er eingöngu í sveitum, og þar eru lægri iðgjöld. Má því vera, að nærri láti, að framlag ríkissjóðs til sjúkratrygginganna eða samlaganna á þessu ári nái 4 millj. kr. á fjárlögum. En að hækkunin fari 2,6 millj. kr. fram úr því, sem nú er áætlað á fjárlögum, nær engri átt og er hreinn misskilningur.

En það er ekki nóg. Öll greinargerð fjmrn. byggist á sama misskilningnum. Í grg. telur ráðuneytið, að þar sem ákveðið sé í l., að framlag ríkissjóðs til tryggingasjóðs skuli taka inn í fjárl. samkv. áætlun tryggingaráðs, þá leiði af því, að sú upphæð, sem tekin er inn á fjárl., sé áætlunarupphæð, sem ráðun. geti dregið frá og lækkað, eftir því sem það sér ástæðu til. Það hefur verið bent rækilega á, að þetta er ekki rétt, því að sú áætlunarupphæð, sem talað er um í þessari gr., er áætlunarupphæð tryggingaráðs, sem verður föst upphæð, skv. 116. gr., allt hvað hún fer ekki fram úr því hámarki, sem 116. gr. l. ákveður. Og undanfarin ár hefur alltaf verið tekin lægri upphæð, en í gr. segir.

Þá er enn fremur haldið fram í grg., að Tryggingastofnunin telji, að það sé alveg á valdi tryggingaráðsins að ákveða framlagið til Tryggingastofnunarinnar, allt hvað það fari ekki fram úr 7½ millj. kr., og Alþ. hafi ekkert um það að segja. Þetta er fjarstæða, því að Alþ. getur alltaf breytt l. um þetta. Og til þess er bent í 116. gr., að ef útkoma trygginganna verði slík, að það þyki nauðsynlegt, þá skuli það gert.

Eitt af því, sem lögð var mest áherzla á, bæði af hálfu Tryggingastofnunarinnar og eins í þeirri grg., sem hér var flutt, er það, að svo var upphaflega ráð fyrir gert, þegar l. voru sett, að kostnaður við tryggingarnar skiptist í ákveðnum hlutföllum á milli þeirra fjögurra aðila, sem undir þeim standa: ríkissjóðs, sveitarsjóða, atvinnurekenda og hinna tryggðu. Og þau hlutföll voru hér um bil þau, að 50% hvíldu á ríkissjóði og sveitarsjóðum og er framlag sveitarsjóða innheimt með sköttum, eins og aðrar tekjur þessarar stofnunar, en helmingurinn hvíldi á iðgjaldagreiðendum og tveir þriðju hlutar af því á hinum tryggðu, en einn þriðji hlutinn á atvinnurekendum. Í grg. er dregið í efa, að þessi skipting hafi verið lögð til grundvallar, og í því sambandi hefur verið bent á grg., sem fylgdi frv. til l. um almannatryggingar, þegar það var lagt fyrir Alþ. 1945–1946. Í sambandi við þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. flutti um það, vil ég geta þess, að þær tölur, sem hann sýndi að, að nokkru skeikaði frá því, sem nú er ákveðið um skiptinguna, voru þannig, að sveitarsjóðir og ríkissjóður skyldu greiða 55% og atvinnurekendur og hinir tryggðu 45%. Þessar tölur voru upp teknar úr frv., eins og það var lagt fyrir áður greint þing, en á Alþ. var þessum ákvæðum breytt þannig, að framlög sveitarfélaganna og ríkissjóðs voru lækkuð. Og eftir að sú lækkun hafði verið gerð og tilsvarandi lækkun á útgjöldum trygginganna, þá voru hlutföllin orðin þannig, að 50% voru greidd af hvorum aðilunum, annars vegar ríkissjóði og sveitarfélögunum, en hins vegar iðgjaldagreiðendum, eins og ég áðan sagði.

Þá gerði ráðh. einnig grein fyrir því, eða ráðuneytið, að í kostnaði Tryggingastofnunarinnar og framlögum til hennar nú væri ekki talin ríkisframfærsla, berklavarnir og styrkur til sjúkra manna og örkumla, og fullyrti, að ef þessar greinar væru teknar með, mundi útkoman verða sú sama og í frv. væri gert ráð fyrir, og las hæstv. ráðh. upp töflu, þessu til sönnunar. Við athugun á þessari töflu hefur komið í ljós, að þar er um hreina ágizkun að ræða út í bláinn, svo að ég ekki segi tilbúnar tölur. T. d. er talið, að hinir tryggðu greiði árið 1947 23 millj. kr. og 1948 23,6 millj. kr. Hvernig þessar tölur hafa verið fundnar út, get ég ekki sagt um. En þeir tryggðu hafa greitt á þessum árum 27,1 millj. og 27,4 millj. kr. Á sama hátt skeikar einnig framlag sveitarsjóða þessi ár svo nokkrum milljónum skiptir. Ég mun að sjálfsögðu koma leiðréttingum á þessum tölum til hæstv. ráðuneytis. En mér þótti rétt að láta þetta koma fram hér í umr., þannig að þessum tölum væri þar ekki ómótmælt.

Sama er að segja um þá skýrslu, sem sett er upp á bls. 6, um hundraðshlutaframlag þeirra einstöku aðila eftir þeirri skiptingu, sem ég áðan greindi.

Þá er í grg. allýtarlega um það rætt, hvílík fjarstæða það væri, að tryggingasjóðurinn færi að lána út fé sitt. Ég er alveg sammála þessu og alveg undrandi á því, hvers vegna fjmrn. ræðir um þessi efni, því að það hefur aldrei komið til orða, að ég held, að tryggingasjóðurinn lánaði út sitt fé. Þessum sjóði er ætlað að standa undir daglegum rekstri trygginganna og mæta greiðsluhalla. Það verður ekki annað séð af þessu bréfi, en að ráðun. hafi ekki hugmynd um það haft, að stofnunin hefur 40 millj. kr. varasjóð og úr honum er lánað til einstakra aðila eins og lög mæla fyrir um. Þar á meðal er loforð um lán til sjúkrahúsbyggingar hér í Reykjavík, 12 millj. kr. Það er beinlínis ákveðið í l., að varasjóðurinn skuli lána fé sitt til slíkra stofnana.

Ráðuneytið telur, að ofgreitt muni verða úr ríkissjóði til trygginganna á árinu 1950 alls frá árinu 1947 um 30 millj. kr. Ég veit ekki, á hverju hæstv. ráðh. byggir þessa ágizkun, en ég þori að fullyrða, að þessi upphæð er of há. Þar að auki er það á fullum misskilningi byggt, að um ofgreiðslu til Tryggingastofnunarinnar sé að ræða. Þá er og þess að gæta, að á þessu ári, að samþykktum frv. sem fyrir liggja, bætast útgjöld við hjá tryggingunum, sem nema um 5 millj. kr. á ári, og af því er gert ráð fyrir, að hægt verði að taka þrjár til fjórar millj. kr. af tekjum stofnunarinnar, en hitt verður líklega að taka af tekjuafgangi fyrri ára.

Ég hirði ekki, þó að ég hefði gjarnan viljað það, að ræða fleira um þetta hér, þar sem hæstv. ráðh. er ekki til andsvara. En ég vil taka fram, að því miður er þessi grg., sem hér hefur verið lögð fram, að verulegu leyti byggð á misskilningi, og þar að auki eru þær skýrslur og tölur, sem þar eru birtar, ekki réttar í ýmsum mjög þýðingarmiklum atriðum.

Ég skal svo láta máli mínu lokið að þessu sinni. En ég vildi mega vænta þess, að hv. þdm. sæju sér fært að greiða till. n. atkv., en veita að öðru leyti þeim till., sem ég hef drepið á, þá afgreiðslu, sem ég hef gert grein fyrir í ræðu minni. Einni brtt. gleymdi ég, brtt. frá hv. þm. Barð., um fæðingarstyrkinn, að hann skyldi vera hinn sami um allt land, 200 kr. í grunn. eða 600 kr. fyrir hverja fæðingu. Ég vildi mælast til þess, að hv. þm. vildi taka þessa brtt. aftur til 3. umr., því að það er til athugunar í n., eins og hann drap á, hvort ekki þurfi, ef þessi breyt. er gerð, að breyta einnig l. um meðlag til óskilgetinna barna.