17.02.1950
Efri deild: 57. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (3293)

68. mál, almannatryggingar

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla aðeins með örfáum orðum að gefa nokkra skýringu á einu atriði, sem fram hefur komið, en alls ekki að gera grein fyrir afstöðu minni til hinna mörgu brtt., sem fram eru komnar.

Ég vil aðeins drepa á þetta vegna þess, að hv. þm. Barð. hefur miðað till. sína um upphæð mæðralauna við upphæð, sem nefnd er í till. frá landsfundi Kvenréttindafélags Íslands, og skýra frá því hér, að mér er kunnugt um, hvernig þessar tölur eru til komnar, af því að ég átti þátt í þessum till. Þetta var ekki nefnt sem upphæðir, er stungið væri upp á, heldur sett fram sem listi til skýringar á því, hvað eðlilegt þætti, að mæðralaunin færu stighækkandi. Og til sönnunar þessu vil ég benda á, að þá, eins og nú, var landinu skipt í tvö verðlagssvæði. Þarna var ekki nema þriðjungur Reykjavíkurkonur. Hitt voru konur úti um allt land, svo að það hefði verið ómögulegt fyrir okkur að finna sameiginlega upphæð fyrir þau tvö verðlagssvæði. Það er því ekki óeðlilegt, að upphæðin, sem nefnd var, sé sú, sem væri ætlað að gilda á H. verðlagssvæði. — Ég vildi láta þetta koma fram, vegna þess að hv. frsm. n. virtist eitthvað leggja upp úr þessum tölum, sem þarna eru nefndar í till. kvenréttindafélagsins. En þetta var ekki upphæð, sem beinlínis var lagt til, að lögð væri til grundvallar, heldur sett fram til þess að tákna, að það væri meiningin að borga meira með fleiri börnum, en færri.

Ég vil svo að endingu lýsa ánægju minni, fyrir hönd kvenna yfirleitt, yfir því nýmæli sem mæðralaunin eru. Það hefur lengi verið baráttumál kvennasamtakanna að fá þessar sérstöku tryggingar, og ég mun fylgja þeim till., sem fram hafa komið til framfara í þessu efni. Að öðru leyti ætla ég ekki að gera till. að umtalsefni hér.