14.03.1950
Efri deild: 72. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (3311)

68. mál, almannatryggingar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. — Ég vil minna forseta á það, að við 1. umr. þessa máls tók ég aftur brtt. á þskj. 334, nr. 2, til 3. umr. og gerði mér vonir um, að n. mundi eitthvað athuga hana og taka hana upp. Hún hefur ekki komið með hana, og þar sem nú er 3. umr., liggur hún nú aftur fyrir.

Þá eru brtt. á þskj. 396. Ég benti á það hér áður undir umr., að ég teldi að n., sem hefði þetta mál til meðferðar, ætti að sýna jafnrétti milli karla og kvenna. Það hefur hún ekki gert, en hefur þvert á móti beitt karlmenn órétti og látið konur hafa meiri rétt en karla á ýmsum sviðum, m. a. í sambandi við dánarbætur, þar sem ekkjum og ekklum er stórlega mismunað. Til þess að bæta eitthvað úr þessu misrétti, legg ég til, í fyrri brtt. minni við 12. gr., að á eftir orðunum „til ekkna“ komi ekkla.

Þá ber ég einnig fram aðra brtt. við sömu gr., þess efnis, að það sé ekki skilyrði, að börn séu heima hjá móður sinni, ef barnaverndarnefnd viðurkennir heimilið, sem þau eru á, sem gott og gilt.

Þá er ég hér með miðlunartill., þar sem n. vildi ekki samþ. mínar 104 vinnuvikur. Hef ég farið bil beggja og legg hér til í 2. brtt. minni á þskj. 396, að teknar verði upp 78 vinnuvikur. Vona ég, að menn fallist á það.

Þá tek ég upp aftur brtt., sem ég tók aftur til 3. umr., við 20. gr. Í stað „1. júlí 1950“ komi: 1. október 1950. — Er þó hæpið, að sá dagur sé ekki tiltekinn of snemma.

Loks hef ég tekið hér upp till., sem ég var líka með við 3. umr., og er það 4. brtt. á þskj. 396, um það, að skrár þær, er sveitarstjórnum ber að semja samkv. 118. gr. l., skuli gera í þremur eintökum og senda til þeirra, sem á þeim þurfa að halda. Hefur n. orðað þetta öðruvísi, en ég gerði í upphafi, og tek ég því þessa brtt, upp aftur.

Þetta eru allt smávægilegar brtt., en mér þykir töluvert á skorta, að í frv. í heild sé gætt jafnréttis milli karla og kvenna. Og þegar við erum á þeirri jafnréttisöld, sem við tölum um, eigum við að gæta þess, að svo sé í þessum lögum, og því samræmi milli orða og athafna.